fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fókus

„Á bak við hvert andlát eru ótal mörg líf í sárum“

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 7. júní 2019 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aðstandendur Minningarsjóðs Einars Darra hafa nú í tæpt ár staðið að átakinu Ég á bara eitt líf. Minningarsjóðurinn var stofnaður af ættingjum og vinum Einars Darra Óskarssonar, sem lést 18 ára gamall þann 25. maí 2018.

Nýlega fóru foreldrar hans, Bára Tómasdóttir og Óskar Vídalín, systur hans, Andrea Ýr Arnarsdóttir og Aníta Rut Óskarsdóttir, auk vinkonu þeirra, Sigrúnar Báru Gautadóttur, á ráðstefnu í Bandaríkjunum og hér segir Andrea Ýr frá henni og því sem þjóðarátakið Ég á bara eitt líf hefur skilað á einu ári.

Greinarmunur á notkun og misnotkun lyfseðilskyldra lyfja

„Misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum er nokkuð nýr vinkill, sem lítið hefur verið í umræðunni er varðar vímuefni en við teljum mikilvægt að við tölum um þetta málefni og tökumst á við það líkt og málefni er varða önnur vímuefni. Við, sem stöndum að þjóðarátakinu, Ég á bara eitt líf, höfum virkilegar áhyggjur af þessum málaflokki og hafa aðrir aðilar tekið undir það með okkur sem þekkja til málsins, til að mynda í sínum störfum. Við leggjum mikla áherslu í öllu okkar starfi á að uppfræða fólk um að notkun og misnotkun lyfja er tvennt ólíkt og hefjum við því öll okkar erindi á því að skilgreina hvað misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum er. Þjóðfélagið í heild verður að gera greinarmun þarna á milli og það er mikilvægt að við fræðum unga sem aldna um þann mun, bæði til að þekking sé til staðar um áhættuna við misnotkun en líka til að fólk sem þarf að taka lyf og gerir það samkvæmt læknisráði sé ekki að upplifa að það sé að gera eitthvað rangt, enda er þá um að ræða notkun, ekki misnotkun,“ segir Andrea Ýr.

Ef neysla lyfseðilsskyldra lyfja felur í sér að einstaklingur innbyrðir af ásettu ráði stærri skammtastærð en lagt er til, neytt er lyfja til að upplifa sæluástand (e. euphoria) eða neytt er lyfja sem viðkomandi hefur ekki fengið uppáskrifað sjálfur, þá er talið að um sé að ræða misnotkun á lyfseðilsskyldu lyfi (National Institute on Drug Abuse, 2018).

Samfélagið sem heild þarf að hlúa að samfélagsvanda

„Við, með stuðningi þjóðarinnar, höfum nú þegar áorkað miklu á stuttum tíma og sjáum við jákvæða þróun og breytingar í samfélaginu. Við eigum þó langt í land og teljum við að Ég á bara eitt líf-átakið geti gert margt en í sameiningu getum við gert svo miklu meira og lítum við á það sem svo, að það þurfi heilt samfélag til að hlúa að samfélagsvanda, líkt og við teljum misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum og öðrum fíkniefnum vera.“

Þjóðarátakið Ég á bara eitt líf felur í sér mörg mismunandi verkefni, allt frá almennri vitundarvakningu sem hefur hinar ýmsu birtingarmyndir, myndbandsgerð og uppfræðsluerindi fyrir alla aldurshópa þar á meðal í grunn- og framhaldsskólum landsins.

„Til að geta unnið okkar verkefni eftir bestu getu þá er það okkur virkilega mikilvægt að afla okkur stöðugt nýrrar þekkingar, vera í takt við hraða þróun í nútímasamfélagi með því að fylgjast með nýjum rannsóknum, nýjum aðferðum sem gætu nýst í okkar starfi, sem og að vera opin fyrir breytingum með breyttum aðstæðum og áskorunum. Allt okkar starf er unnið með kærleika og samstöðu að vopni, við byggjum það á rannsóknum, áliti ungmenna sem og sérfræðinga, höldum fast í metnaðinn og ástríðuna en höldum reiðinni frá.“

Á ráðstefnu Sigrún Bára, Bára, Andrea Ýr, Óskar og Aníta Rún á ráðstefnunni.

Aukin þekking á fjögurra daga ráðstefnu

Fimmmenningarnir ákváðu að efla þekkingu sína frekar með því að fara á The Rx Drug Abuse & Heroin Summit (Misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja og heróíns, ráðstefna/leiðtogafundur) í Atlanta í Bandaríkjunum, sem haldin var í apríl síðastliðnum.

The Rx Drug Abuse & Heroin Summit er ráðstefna/leiðtogafundur sem nýttur er sem samráðsvettvangur varðandi málefni er varða misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum og öðrum fíkniefnum. Viðburðurinn er ætlaður öllum sem málið varðar, er þverfaglegur og leitast við að finna lausnir í sameiningu. Einblínt er á hvað er að virka í forvörnum og meðferð. Ráðstefna þessi er haldin árlega og var hún fyrst haldin árið 2012 undir forystu Operation UNITE og þingmanninum Harold „Hal“ Rogers, en hann missti son sinn vegna misnotkunar á lyfseðilsskyldum lyfjum. Um er að ræða fjögurra daga ráðstefnu, með hinum ýmsu fyrirlesurum víðsvegar að og yfir 3000 ráðstefnugestum (https://www.rx-summit.com/).

„Við einblíndum á það á ráðstefnunni að afla okkur þekkingar um samfélagslega vitundarvakningu, átök og forvarnir/fræðslu, það er að segja við sóttumst í að mæta á fyrirlestra þar sem þau málefni voru tekin fyrir. Við lögðum upp með það markmið að kortleggja hvað aðrir væru að gera og hvernig verkefni, bæði hvað varðar vitundarvakningu og forvarnir, sem hafa borið árangur. Við gerðum okkur þó ekki fyrirfram grein fyrir hversu gríðarstór þessi vettvangur væri og hversu mikið tengslanet við myndum enda á því að byggja upp,“ segir Andrea Ýr.

Hreifst af verkefninu Andrea Ýr ásamt David Brian Laws sem missti dóttur sína 17 ára gamla. „Hann var svo heillaður af Ég á bara eitt líf þjóðarátakinu og kraftinum í hópnum, að hann vill helst gera okkur af sendiherra fyrir Shatterproof.“

Verkefni sem verður ekki leyst á einni nóttu

Ráðstefnan er byggð upp þannig að viðkomandi velur þá fyrirlestra sem hann hefur áhuga á því að sitja, einnig var salur með básum þar sem starf annarra aðila var kynnt, allt frá forvörnum til meðferðarúrræða. Hópurinn og þá sérstaklega Andrea, sem er mastersnemi í heilbrigðisvísindum með áherslu á geðheilbrigði og sérhæfir sig í misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum, var fljótur að heillast af hugmyndinni að sitja eins marga fyrirlestra og hann mögulega gat og drekka í sig vitneskju en það sem kom þeim einna helst á óvart voru ekki fyrirlestrarnir sjálfir heldur básarnir en þeir gáfu hópnum ekki síður þekkingu en fyrirlestrarnir.

„Á básunum sáum við hvað aðrir voru að gera og áhugavert var að sjá að önnur erlend félög voru með verkefni í gangi sem mörg hver líktust okkar átaki að einhverju leyti, þau verkefni höfðu þó öll verið lengur í þróun og framkvæmd. Við enduðum á löngum og innihaldsríkum samtölum við sérfræðinga, aðstandendur og aðra sem þekkja til málefnisins og við uppfræddum okkur eins og við gátum. Allir voru tilbúnir til að aðstoða okkur, veita okkur þekkingu og deila með okkur þeirra reynslu, kennsluefni og svo framvegis. Þvílík samstaða sem maður fann og maður upplifði að við öll værum að vinna að sama markmiði, það er að segja að sporna við og draga úr misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja og annarra fíkniefna. Hvernig fólk vann að því markmiði, á hvaða þjónustustigi fólk vann, eða eftir því hvaða aðferðafræði það vann eftir, skipti ekki máli og flokkaði fólk ekki niður heldur voru allir þarna til að læra og sjá hvernig hægt væri að mynda samráð sín á milli. Það fékk okkur líka til að hugsa hversu mikilvægt það er að við Íslendingar stöndum saman, við höfum nú þegar sýnt gríðarlega samstöðu og var það eitt af því sem fólk hjó eftir og dàðist að þarna úti, hversu mikil samstaða varð með Ég á bara eitt líf-þjóðarátakinu á svona stuttum tíma. En betur má ef duga skal því við eigum verk að vinna og eins og Dr. Frances S. Collins, forstjóri National Institutes of Health, sagði á ráðstefnunni: „Við komumst ekki í þetta ástand á einni nóttu og við leysum þetta ekki á einni nóttu. Þarna þarf „allar hendur á þilfar og brettum upp ermar“-verkefni.“ Þetta á algjörlega við um þann samfélagsvanda sem við stöndum frammi fyrir hér á Íslandi. Við getum ekki setið og horft á allar þær birtingarmyndir sem misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum og öðrum fíkniefnum er að skilja eftir sig; dauðsföllin, bílsslysin, geðrænu vandkvæðin og svo framvegis. Því miður hefur þetta ástand ágerst hratt og farið fram úr okkur, tíminn er ekki að vinna með okkur og þurfa handtökin því að vera snögg en áreiðanleg,“ segir Andrea Ýr.

Þau náðu bata Veggur á ráðstefnunni með myndum og upplýsingum fólks sem náð hefur bata.

Hópurinn þegar farinn að nýta hugmyndir frá ráðstefnunni

Hópurinn segir erfitt að segja í stutt máli hvað stóð uppúr á ráðstefnunni en er sammála um að nokkur áhersluatriði beri af: Samstaða, kærleikur, burt með skömm, tala um og viðurkenna vandann, langtíma átak og nýjar áskoranir þýða nýjar leiðir.

„Verkefnin sem vöktu einna helst áhuga okkar, voru margvísleg og erum við nú þegar að nýta okkur hugmyndir úr þeim sem við munum mögulega innleiða í okkar starf. Í einum fyrirlestri á ráðstefnunni var farið yfir helstu forvarnarverkefnin þar sem náðst hefur að draga úr misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum og öðrum fíkniefnum. Verkefnin hafa borið mismikinn árangur, eru margvísleg og fela í sér mismikinn kostnað. Þau verkefni sem sýnt hafa fram á virkni hvað varðar að dregið hafi úr notkun ólöglegra fíkniefna að undanskildu kannabis, voru Teen Intervene, Positive Action, Towards no drug abuse, Strengthening families og PROSPER.

Það vekur mikinn áhuga hjá okkur að sjá hvernig þessi ofangreindu verkefni eru unnin og getum við vel hugsað okkur að nýta eitthvað af þeirra gagnreyndu aðferðum en þar sem við erum að einblína á misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum þá vildum við einnig afla upplýsinga um hvað virkaði varðandi þann málaflokk en þar sem slíkur vandi er ekki eins rótgróinn og notkun ólöglegra fíkniefna þá er ekki til eins mikið af verkefnum þar sem búið er að rannsaka virkni vísindalega. Við sáum þó efnileg verkefni, til að mynda Proper use of prescription drugs (Rétt aðferð við notkun lyfsseðilsskyldra lyfja) sem er starf sem tekið er inn í skóla, sem inniheldur verkefni, myndbönd og fleira. Annað verkefni heitir This is not about drugs (Þetta snýst ekki um dóp) sem einnig vinnur með myndband/stuttmynd með leiðandi umræðum og verkefnum í kjölfarið,“ segir Andrea Ýr.

Armbönd átaksins Aníta Rún og Óskar með armbönd átaksins Ljósmynd: DV/Hanna

Samstarf og samstaða er lykilatriði

Andrea Ýr segir að hópnum hafi fundist áhugavert að sjá að gegnumgangandi í öllum átökunum, þar sem tekist hefur að draga úr misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum og öðrum fíkniefnum í ríkjum  Bandaríkjanna, þá ríkti samstarf og samstaða milli fólks. Á það ekki einungis við innan samfélagsins, heldur einnig á milli þeirra sem unnu við málaflokkinn, það er að segja allt frá fræðslu/forvörnum til meðferðarúrræða og þá sér í lagi að löggæsla og tollyfirvöld væru elfd og að þau væru í góðu samstarfi við aðra aðila sem málið varðaði.

„Þau samfélagslegu vitundarvakningarátök, sem taka þó einnig að sér fræðslu/forvarnir, sem heilluðu okkur mest voru Fed Up! og Not my kid. Einnig voru ýmis meðferðarúrræði sem vöktu áhuga okkar, stuðningsúrræði eftir meðferð og stóð þar upp úr batasamfélagssamtök (e. Recovery Community Organization) í fylkinu Kentucky sem kallast Voices of Hope (Raddir vonarinnar), nafnið eitt og sér gefur manni hlýju í hjartað. Við getum með engu móti talið upp öll þau verkefni sem gáfu og munu halda áfram að gefa okkur innblástur í okkar vinnu en ef áhugi er fyrir því að heyra meira um einstök verkefni, tökum við glöð á móti fyrirspurnum.

Þau frábæru verkefni sem við fengum að kynnast í básunum og innsýnin inn í hverju þau hafa áorkað veitti manni von og staðfestingu á að við sem komum að átakinu Ég á bara eitt líf erum á réttri leið hvað varðar okkar verkefni. Eins og með öll verkefni, hvort sem það er innan félagasamtaka, ríkis, sveitarfélaga eða hvað annað þá getum við ekki staðið ein frekar en erlendu verkefnin, mikilvægi þess að sem flestir leggi hönd á plóg og allir vinni saman verður aldrei ofmetið. Með þjóðarátakinu einu þurrkum við ekki þennan vanda út, ekki frekar en önnur verkefni eða stofnanir en með því að standa saman og að allir leggist saman á árarnar getum við öll haft áhrif og fundið svar við því hvernig við vinnum bug á þessum vanda. Enginn einn er með algilt svar um hvernig best er að vinna á þessum vanda og við sem stöndum að Ég á bara eitt líf erum allavega til í að vera með þeim fyrstu til að viðurkenna að við séum ekki með öll svörin en við teljum okkur þó hafa nokkuð mikið til málanna að leggja,“ segir Andrea Ýr.

Á bak við hvert andlát eru ótal mörg líf í sárum

Samkvæmt Ólafi B. Einarssyni hjá Embætti Landlæknis, eru staðfest 39 lyfjatengd andlát árið 2018, samanborið við 30 árið 2017.

„Eins og við segjum oft, þó við myndum einungis ná að bjarga einu lífi, þá væri öll okkar erfiðisvinna þess virði. Á bak við eitt líf er manneskja; sonur, dóttir, bróðir, vinur og svo framvegis, sem skilur eftir sig ótal mörg líf í sárum. Við sem stöndum að þjóðarátakinu getum því miður ekki fengið dýrmætt líf Einars Darra okkar til baka en við getum lagt okkar af mörkum til að annar dýrmætur einstaklingur fái kannski tækifæri til að upplifa allt sem lífið hefur upp á að bjóða. Þetta er heldur betur þess virði að láta reyna á, það finnst okkur allavega og við efumst ekki um að þeir sem vinna í þessum málaflokki eru hjartanlega sammála okkur. Við viljum enda á að hrósa öllum þeim sem vinna í þessum erfiða málaflokki, sama hvort það er í forvörnum, stuðningi, meðferð, innan ríkis, sveita, samtaka eða annað. Við vonum að í sameiningu getum við fundið lausn.

Förum vel með þetta eina líf sem við eigum, hlúum að geðheilbrigði okkar og annarra, valdeflum okkur og aðra í kringum okkur með fræðslu og forvörnum, stöndum með þeim sem þurfa stuðning og aðstoð, styðjum þá sem náð hafa bata og leggjum okkur fram um að sýna hvort öðru virðingu og kærleika, það skiptir máli.”

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Edda gefur töskusafn sitt til styrktar Kvennaathvarfinu

Edda gefur töskusafn sitt til styrktar Kvennaathvarfinu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni