Arnar Pétursson, maraþonhlaupari flakkar í sumar á milli hlaupahópa um allt land í samstarfi við Íslandsbanka. Arnar er 28 ára og hefur æft hlaup í átta ár. Hann hefur 25 sinnum orðið Íslandsmeistari í hlaupi og árið 2017 varð hann Íslandsmeistari í níu mismunandi hlaupagreinum. Arnar er nýjasti gestur hlaðvarpsþáttar dægurmáladeildar DV, föstudagsþáttarins Fókus, þar sem hann gefur góð ráð þeim sem vilja byrja að hlaupa eða bæta sig í íþróttinni.
Arnar æfir hlaup sem atvinnumaður í dag og er meðfram því að skrifa hlaupabók sem mun heita Hlaupahandbókin. Eins og nafnið gefur til kynna inniheldur bókin alls kyns fróðleik er varðar hlaup. Arnar æfði bæði körfu- og fótbolta á yngri árum, en hvers vegna skipti hann úr hópíþrótt yfir í hlaup?
„Það er skemmtileg saga. Þegar ég var sextán ára hljóp pabbi minn maraþon. Hann er enginn sérstakur hlaupari þannig séð, samt flottur. Ég ætlaði þá að hlaupa sjálfur en komst að því að ég varð að vera átján ára til að hlaupa maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu. Þegar ég var átján ára hafði ég tíma til að fara og ég skráði mig með tveggja vikna fyrirvara. Ég hafði aldrei hlaupið lengra en tíu kílómetra. Ég hugsaði að þetta gæti ekki orðið það erfitt fyrst pabbi gat gert þetta. Þegar ég sagði fjölskyldunni frá því fór allt í panikk. Það var eins og ég væri að fara í fallhlífarstökk án fallhlífar. Ég hljóp í þessu hlaupi og endaði á því að vera í öðru sæti af Íslendingum og slá eitthvað þrjátíu ára gamalt Íslandsmet. Tveimur árum seinna prófaði ég að æfa heilt sumar fyrir þetta og þá endaði ég á að vinna Reykjavíkurmaraþonið. Þá var ekki aftur snúið.“
Arnar segist hafa verið haldinn miklum fordómum gagnvart hlaupi, talið þetta einhæfasta og leiðinlegasta sport veraldar – þá sérstaklega út af sárum æskuminningum þar sem hlaup voru notuð sem refsing á æfingum í hópíþróttum.
„En vá, þetta er svo miklu fjölbreyttara en ég hélt og hundrað sinnum meira gefandi en ég gat ímyndað mér. Þetta er líka svo einfalt því maður þarf í raun bara hlaupaskó til að fara af stað.“
Horfa má á hlaðvarpsþáttinn hér fyrir neðan en í honum gefur Arnar góð ráð til þeirra sem vilja byrja að hlaupa eða bæta sig: