fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Helgi hyllir sjómannskonur – „Þær hafa ort sín ljóð í móðuna í þvottahúsglugganum, meðan þær svæfðu með hinni“

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 2. júní 2019 08:00

Helgi Seljan

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sjómannadagurinn, hátíðisdagur allra sjómanna er í dag. Dagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur 6. Júní árið 1938 í Reykjavík og á Ísafirði og árið 1987 varð hann lögskipaður frídagur sjómanna, en dagurinn er haldinn fyrsta sunnudag í júní, nema ef hvítasunnu ber upp á þann dag, þá næsta sunnudag á eftir.

Fjölmiðlamaðurinn Helgi Seljan flutti ræðu árið 2010 á sjómannadeginum á Eskifirði, við minnismerki um þá sjómenn sem ekki skiluðu sér heim.

Í ræðunni fjallar hann meðal annars um mikilvægi sjómanna og þær fórnir sem þeir hafa fært. En það eru þó ekki sjómenn sem Helgi hyllir fyrst og fremst í ræðu sinni, heldur konurnar sem staðið hafa við hlið þeirra alla tíð og staðið sína plikt í landi meðan menn þeirra berjast við öldur og afla hafsins.

Til hamingju með daginn sjómenn, og sjómannskonur!

Ræðu Helga má lesa í heild hér fyrir neðan:

Góðan daginn og gleðilega hátíð gott fólk,

Í þessari ræðu ætla ég ekki að segja ykkur sögur af sæbörðum sjógörpum. Eða hetjum hafsins og hinu raunverulega gangverki þjóðfélagsins. Eða sjálfri undirstöðu alls þjóðlífs á íslandi, súrefni samfélagsins, eins og ég heyrði eitt sinn ónefndan ræðumann segja um íslenska sjómenn. Ekkert af þessu dreg ég í efa, þó áratakið sé ekki eins djúpt og hjá þeim sem ég vitnaði í hér á undan. Hann var líka í framboði sá og áheyrendurnir allir sjómenn.

Hér vita það flestir betur en ég hversu mikilvægir sjómennirnir okkar eru. Og hvar skynjum við það betur en hér við minnismerkið um þá sem færðu hina endanlegu fórn? Hér ættum við svo sannarlega að vera meðvituð um hversu mikið sjómennirnir okkar hafa lagt á sig.

Og þetta vitum við öll.

En mig langar ekki að ræða þetta núna.

Ég ætla heldur ekki að flytja eldmessu um kosti eða galla kvótakerfisins og Evrópusambandsins, og ég ætla ekki að öskra mig hásan yfir sjómannaafslættinum, þó tilefni sé til.

Mig langar að tala um eitthvað sem ég hef meira vit á, eða minnsta kosti meiri áhuga á, svo engu sé logið.

Mig langar að tala við ykkur um konur.

Það kann að þykja frekt á sjálfan sjómannadaginn að beina athyglinni í land en ég ætla nú samt að gera það.

Ég er sjómannssonur. Faðir minn var til sjós með hléum svo að segja þar til ég varð þrítugur. Ég eins og mörg ykkar hér er því alinn upp við að það sé sjálfsagður hlutur að pabbi sé meira að heiman en heima. Hvorki ég né nokkur annar efast um að það hafi haft góð áhrif á pyngju heimilisins og að faðir minn hafi líkt og allir aðrir sjómenn verið fjarverandi oftar en hann kærði sig um. Og að í erfiðu starfi hafi hann sýnt ósérhlífni til að fjölskyldan í landi hefði það betra. Enda höfðum við það, og engum varð meint af, hvorki honum né okkur. En það var sem sagt hún móðir mín sem bar hitann og þungann af heimilishaldinu. Og barnauppeldinu. Og gerði það með heiðri og sóma. Menn verða í það minnsta að leita annað eftir skýringum ef menn sjá eitthvað athugavert við þann sem hér stendur.

En gott og vel:

Sagan af sjógörpunum íslensku hefur margoft verið sögð og undir misjöfnum formerkjum. Sagan af konunum þeirra hefur sjaldan verið sögð, mér liggur við að segja aldrei, en það er vonandi ofmælt.

Það er nefnilega þannig að á bak við hvern einasta sjómann, hvern einasta háseta, hvern einasta skipstjóra, já og jafnvel vélstjóra, er kona.

Móðir, kona, dóttir, heitmey jafnvel líka.

Svoleiðis var það í mínu tilfelli. Móðir mín sá bara um þetta meðan pabbi var á sjónum.

Það eru konur eins og hún sem ég er að tala um. Bæði nú og ekki síst fyrr á dögum.

Það mætti hins vegar oft halda að þær hafi ekki verið til, svona miðað við mennina þeirra í það minnsta.

Skoðum til dæmis dægurlagatexta um þetta fólk. Til er fjöldinn allur af misgáfulegri lýrík um sjómenn, fengsæld og fárviðri, frækin afrek og jafnvel einstaka fyllerí.

Hvað segja sömu dægurlagatextar um sjómannskonur?

Jú, það er þarna eitthvað um stelpur sem skrifa bréf, talsvert um grát og einstaka stúlkur sem eyða ævinni í að stara út á hafið eftir ástinni sinni sem kom aldrei heim. Það hafa svo margir ekki skilað sér heim. Alltof margir.

Ég gerði óvísindalega könnun í möskvum internetsins á dægurlagatextum um sjómenn; sjómennsku öllu heldur. Hlutskipti konunnar þar er eilíf vist í óspennandi aukahlutaverki. Þær eru þar næstum eins og tré í skólaleikriti, þið afsakið líkinguna, hún er ósmekkleg en ekki fjarri sanni í þessu tilfelli.

Vissulega eru þær yfir og allt um kring. Þið munið eftir  þessum úti í Hamborg sem Ragnar Bjarnason söng um ásamt Jóni Sigurðssyni. Þar voru konur, en ekki beint hefðbundnar sjómannskonur. Annan texta fann ég. Muniði eftir því þegar Stebbi fór á sjóinn? Já, hvort hann fór, á lakkskónum, blessaður.

En hún Lína? Jú hún sat eftir kjökrandi í vasaklút og svarta skýluklútinn og gott ef táraflóðið var ekki slíkt að svuntuhornið var líka nýtt í snýtingar. Og það var þá maðurinn til að bíða volandi eftir!

En hvert í ósköpunum er maðurinn að fara með þessu?

Jú sjáiði til, ég er að fjalla um sannmælið. Eða öllu heldur þann skort á sannmæli sem íslenskar sjómannskonur hafa mátt sætta sig við og kemur gleggst fram í þessum textum.

Ætli raunveruleikinn sé ekki öllu grárri og einfaldari en sá sem þarna birtist? Hversu margar formæður okkur haldiði til dæmis að hefðu getað leyft sér að kjökra í klútinn þegar karlarnir fóru á sjó eða suður á vertíð? Og ætli svuntuhornið hafi ekki oftast verið upptekið undir litlar hendur barnaskarans?

Eða ætli þær hafi margar sjómannsekkjurnar getað leyft sér að standa og stara á hafið þegar mennirnir þeirra skiluðu sér ekki heim? Ætli baráttan við brauðið og barnaskarann hafi leyft slíkt volæði nema örfá andartök?

Gildistaka Vökulaganna, náði ekki í land. Það hafa aldrei gilt lög um lágmarkshvíldartíma á íslenskum heimilum.

Ekki svo að skilja að ég sé að taka að mér eitthvað hlutverk talsmanns sjómannskvenna, alls ekki. Ég þekki of margar til þess að halda að ég eða einhver annar þurfi að mæla fyrir munn þeirra.

En það eru þó þessar konur sem vinna öll þau störf sem af ganga þegar sjómaðurinn hennar heyr sína baráttu við náttúruöflin, dyntótta fiskistofna og jafnvel sjálfan sjódauðann.

Það hafa kannski ekki verið samdir margir dægurlagatextar um þessar konur sem héldu og halda enn heilu heimilinum saman og sinna vonandi sjálfum sér eitthvað líka meðan mennirnir þeirra eru á sjónum. En þær eru alveg jafn miklar hetjur fyrir því.

Ég ætla þó ekki að láta eins og blessaðar sjómannsfrúrnar – mömmur okkar, ömmur, systur og jafnvel dætur – hafi eitthvað kveinkað sér undan þessu hlutskipti. Nei, til þess þekki ég of margar þeirra. Þær eru jafn ólíkar og þær eru margar en eitt eiga þær þó sameiginlegt. Það eru ósérhlífnin og svo hógværðin gagnvart eigin verkum.

Formæður okkar á öllum tímum hafa háð erfiða baráttu, vissulega stundum töluvert erfiðari baráttu en nú á dögum. Tölfræðin var ekki beint með konum í liði þegar kom að því að reikna út líkurnar á því að þær fengju að eyða seinni parti ævikvöldsins með mönnunum sínum. Það var örugglega ekki kona sem fyrst notaði hinn fáranlega frasa “hafið gaf og hafið tók”.

Eins og þér sé huggun í því að einhver bátur, einhvers staðar hafi nú sett aflamet daginn eftir að eitthvert Halaveðrið hirti af þér ástina og svipti börnin föður sínum?

Auðvitað hefur mikið breyst og til allrar guðs lukku getum við nú fagnað því Íslendingar að langflestir heimilisfeður skila sér heim.

Af mörgu höfum við gortað okkur í gegnum tíðina en af árangri í öryggismálum sjómanna ætti okkur sannarlega að vera frjálst að sperra okkur. Ég er ekki viss um að margir hafi trúað því að við Íslendingar kæmust í gegnum heilt ár í útgerð án þess að missa mann eins og gerðist fyrir skemmstu. Eru ekki hin raunverulegu lífsgæði fólgin í því að halda lífi, gott fólk, hvað sem öllum kreppum líður?

Sjómannskonur nútímans hafa því sem betur fer tölfræðina með sér í liði, meðan við höldum vöku okkar og gleymum því ekki að í hverjum bæ við Ísland eru áþreifanlegar sannanir fyrir því hverju hefur verið fórnað.

Og undantekningalaust hafa það verið konur sem taka afleiðingum þeirra fórna, þannig er það bara. Og fæstar hafa þær heimtað fyrir fálkaorðu eða stórriddarakross.

Ef ráðdeild og samfélagsábyrgð á krepputímum væri mig ekki lifandi að drepa myndi ég ljúka þessum orðum mínum með því að leggja til að reist verði rándýrt minnismerki um sjómannskonuna. Ónefndu sjómannskonuna.

Tólf metra stytta af gullfallegri valkyrju með tólf börn í eftirdragi og storminn í þvottabalafullt fangið. Ég þykist hins vegar vita að sjómannskonurnar hefðu ekki kært sig um slíkt. Þær hafa ort sín ljóð í móðuna í þvottahúsglugganum, meðan þær svæfðu með hinni. Og töldu það ekki eftir sér.

Fæstar telja þær neitt af þessu eftir sér. Þess vegna eru þær engu minni hetjur en mennirnir þeirra.

Okkur er samt öllum hollt að muna það – og minnast þeirra sem eftir stóðu þegar hafið gerði lítið annað en að taka.

Gleðilega sjómannadagshelgi.

Ofangreint var fyrst flutt á Sjómannadaginn á Eskifirði árið 2010; við minnimerki um sjómenn sem ekki skiluðu sér heim. Ég birti þetta hér til minningar um ömmu mína Steinunni Hákonardóttur sem lést í vetur. Amma var dóttir sjómanns og eiginkona sjómanns.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Íslensk hjón fóru á kaffihús í miðbænum – Fengu áfall þegar reikningurinn kom

Íslensk hjón fóru á kaffihús í miðbænum – Fengu áfall þegar reikningurinn kom
Fókus
Fyrir 2 dögum

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 
Fókus
Fyrir 3 dögum

Lára og lyfjaprinsinn eiga von á erfingja

Lára og lyfjaprinsinn eiga von á erfingja
Fókus
Fyrir 3 dögum

Örlagarík reynslusaga Evu Gunnarsdóttur komin út – Hefur tekist á við mikla erfiðleika

Örlagarík reynslusaga Evu Gunnarsdóttur komin út – Hefur tekist á við mikla erfiðleika
Fókus
Fyrir 4 dögum

Nýfæddu tvíburarnir fengu óhefðbundin nöfn

Nýfæddu tvíburarnir fengu óhefðbundin nöfn
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sigmar um móður drengs sem kemur að lokuðum dyrum – „Öll fjölskyldan er í því að passa upp á að drengurinn deyi ekki“

Sigmar um móður drengs sem kemur að lokuðum dyrum – „Öll fjölskyldan er í því að passa upp á að drengurinn deyi ekki“