Það má segja að allt sé á suðupunkti í Tel Aviv í aðdraganda Eurovision-keppninnar en síðustu daga hafa allir listamennirnir sem taka þátt í undanriðlunum tveimur æft lög sín í fyrsta sinn. Þessum æfingum lauk í gær og hefur staðan í veðbönkunum svo sannarlega breyst.
Það er leiðinlegt að segja frá því að hljómsveitin Hatari með lagið Hatrið mun sigra er dottið niður í 8. sæti í lista Eurovision World eftir fyrstu æfinguna sem fór fram síðustu helgi, en lagið var í 6. sæti þann 4. maí, rétt áður en æfingar hófust á stóra sviðinu. Eins og er eru 4% líkur á að Hatrið muni sigra í Eurovision, en 87% líkur eru á að Hatari komist upp úr fyrri undanriðlinum þann 14. maí næstkomandi.
Eins og 4. maí situr Duncan Laurence pikkfastur í 1. sæti á lista Eurovision World og Rússinn Sergey Lazarev er í því öðru eftir frábæra fyrstu æfingu. Má segja að sviðssetningin fleyti Rússanum langt, en hún hefur vakið gríðarlega athygli.
Ítalinn Mahmood laumar sér síðan í 3. sæti og stelur því af Svisslendingnum Luca Hänni, þó Ítalinn eigi eftir að æfa. Stóru löndin fimm sem komast sjálfkrafa áfram og gestgjafarnir Ísrael æfa nefnilega ekki í fyrsta sinn fyrr en næsta föstudag. Fyrrnefndur Luca, sem hefur þótt afar sigurstranglegur, dettur niður í 6. sætið eftir fyrstu æfingu.
Í fjórða sæti kemur síðan óvæntur hástökkvari, en það er Chingiz frá Aserbaídjan. Hann hoppar upp um heil átta sæti síðan 4. maí, enda sló hann rækilega í gegn á sinni fyrstu æfingu.
Svíinn John Lundvik heldur sínum stað í fimmta sæti, en margir hafa tippað á að hann geti hreinlega farið heim með verðlaunagripinn í ár.
Athygli vekur að Tamta frá Kýpur, sem hefur verið ansi vinsæl meðal Eurovision-aðdáenda, fer úr 7. sæti í það níunda eftir fyrstu æfingu, en nágranni hennar frá Möltu, Michela Pace bætir sig um eitt sæti, fer úr því áttunda í það sjöunda.
Annar hástökkvari er hin ástralska Kate Miller-Heidke sem fór á kostum á fyrstu æfingu með flutningi á laginu Zero Gravity. Hún hoppar úr 16. sæti í það ellefta. Sömu fimm löndin berjast hins vegar á botninum – Svartfjallaland, Georgía, San Marínó, Lettland og Moldóvía.
Sannir Eurovision-aðdáendur vita hins vegar að þessi staða getur síðan gjörbreyst eftir seinni æfingar listamannanna, sérstaklega eftir að stóru löndin fimm og Ísrael hafa sýnt sig og sannað á æfingu á sviðinu. Næsta æfing Hatara eru um hádegisbil á morgun, fimmtudag.