fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fókus

Tæpur helmingur þreyttur á einsleitum færslum áhrifavalda – Ríkisskattstjóri skoðar duldar auglýsingar á samfélagsmiðlum

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Mánudaginn 6. maí 2019 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

DV hefur undanfarið fjallað um duldar auglýsingar á samfélagsmiðlum, en svo virðist sem ábótavant sé að kostaðar færslur áhrifavalda séu merktar sem slíkar. Kvartanir um duldar auglýsingar áhrifavalda berast Neytendastofu að meðaltali daglega. Tvær ákvarðanir hafa verið birtar á heimasíðu Neytendastofu er varða duldar auglýsingar á þessu ári en fjórar ákvarðanir birtust á heimasíðu Neytendastofu í fyrra.

Sjá einnig: Kvartað daglega yfir duldum auglýsingum áhrifavalda til Neytendastofu: „Þið megið endilega pestara eitthvað annað lið“.

„Það er hægt að fá góðan pening úr samfélagsmiðlum“

Ómögulegt er að segja hve mikið áhrifavaldar fá greitt fyrir að auglýsa þjónustu og vöru. Markaðsfræðingur sem vill ekki láta nafn síns getið segir það hins vegar ljóst að vinsælir áhrifavaldar með yfir tuttugu þúsund fylgjendur auglýsi ekkert frítt. Því þurfi að taka færslur með fyrirvara þar sem ákveðnar vörur eða þjónusta er sýnd með tengingu í fyrirtæki sem býður upp á téða vöru og þjónustu. Þó færslan sé ekki merkt sem auglýsing sé hægt að leiða að því líkum að um kostað efni sé að ræða. Þessi sami markaðsfræðingur, sem keypt hefur þjónustu áhrifavalda, heldur því fram að fyrirtæki leiti í auknum mæli eftir því að gera langtímasamninga við áhrifavalda sem felst í mánaðarlegri greiðslu fyrir ákveðið margar færslur í mánuði. Geti þessir samningar gefið á bilinu 100 til 200 þúsund krónur í laun á mánuði og stundum jafnvel meira, allt eftir áhrifavaldinum. Stærstu áhrifavaldar á Íslandi eru margir hverjir, að sögn heimildarmanns DV, með nokkra langtímasamninga í gangi.

Lína Birgitta. DV/Mynd: Hanna

Það rímar við það sem áhrifavaldurinn Lína Birgitta sagði í hlaðvarpsþætti Föstudagsþáttarins Fókus fyrir stuttu. Hún sagðist helst vilja vera með fjóra til fimm langtímasamninga við ákveðin fyrirtæki. Þá sagði hún hægt að þéna vel í starfi áhrifavaldsins. „Já, það eru peningar í samfélagsmiðlum. Það er hægt að fá góðan pening úr samfélagsmiðlum.“

Umboðsskrifstofan Creative Artists Iceland, CAI, er ein sú stærsta hér á landi, ef ekki sú stærsta þegar kemur að áhrifavöldum. Áhrifavaldar eins og Sólrún Diego, Camilla Rut, Guðrún Veiga, Aron Mola, Þórunn Ívars og fyrrnefnd Lína Birgitta eru allir á samningi hjá CAI. Árni Björn Helgason, eigandi CAI, getur ekki svarað því hve mikið áhrifavaldar fá fyrir að auglýsa vörur og þjónustu á samfélagsmiðlum.

„Það fer allt eftir manneskju, fyrirtæki, vöru, tímalengd, fjölda fylgjenda,“ segir Árni Björn en ítrekar að duldar auglýsingar séu ekki til sölu hjá áhrifavöldum hjá CAI. Hann segir það raunina að áhrifavaldar leitist við að ná langtímasamningum við fyrirtæki í stað færri og minni verkefna, en gefur ekki upp hve mikið áhrifavaldar taka fyrir kostaðar færslur á samfélagsmiðlum.

Neytendur þreyttir á áhrifavöldum

Í pistli á vef Forbes fer blaðamaðurinn Mike Schmidt yfir stærð markaðssvæðis áhrifavalda og segir að erfitt sé að átta sig á hve stór iðnaðurinn sé í raun og veru. Það sé að hluta til út af annarri blekkingu, en færst hefur í aukana að minni áhrifavaldar, svokallaðir „micro influencers“, setji á svið kostað efni með kassamerkjum á borð við #ad og #sponsered til að láta líta út fyrir að þeir fái greitt fyrir auglýsingar. Er þetta gert til að áhrifavaldarnir laði að sér auglýsingasamninga.

Mike Schmidt vitnar í ýmsar skýrslur til að meta hve stór þessi iðnaður er. AdWeek spáir að þessi iðnaður velti tíu milljörðum dollara á á næsta ári og MediaKix segir það vera á milli fimm og tíu milljarðar dollara. Skýrsla Statista segir hins vegar að iðnaðurinn verði 2.38 milljarða dollara virði í ár, sem er talsverð aukning frá árinu 2017 þegar að hann velti rétt rúmlega milljarði dollara.

Hins vegar veltir Mike fyrir sér hvort þessi bransi sé á undanhaldi sem rímar við það sem hefur verið fjallað um í ýmsum fjölmiðlum. Eru áætlaðar dvínandi vinsældir áhrifavalda taldar tengjast fyrrnefndum blekkingum „micro influencers“ og duldum auglýsingum annars vegar, en hins vegar þeirri staðreynd að neytendur eru þreyttir á stanslausum auglýsingum áhrifavalda á samfélagsmiðlum, samkvæmt nýlegri rannsókn Bazaarvoice í Englandi. Í þeirri rannsókn voru fjögur þúsund neytendur í Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi spurðir um viðhorf sitt til áhrifavalda. Sögðust 49% vilja strangari reglur á samfélagsmiðlum um kostað efni og 47% voru þreyttir á einsleitum, kostuðum færslum frá áhrifavöldum. 62% fannst áhrifavaldar nýta sér trúgjarna fylgjendur, 55% fannst færslur áhrifavalda of efnislegar og 54% töldu áhrifavalda gefa ranga mynd af raunverulegu lífi.

Skatturinn skoðar áhrifavalda

Ríkisskattstjóri hefur eftirlit með störfum áhrifavalda, en nýverið voruð birtar leiðbeiningar um skattskil áhrifavalda á vef embættisins. Í svari frá embættinu segir að eftirliti og upplýsingagjöf hafi verið beint „að þeim aðilum sem koma við sögu svokallaðra áhrifavalda þar sem notkun samfélagsmiðla til stafrænnar markaðssetningar, þar sem fyrirtæki eiga í samstarfi við einstaklinga – svokallaða áhrifavalda – um að koma vöru eða þjónustu á framfæri, hefur farið vaxandi,“ segir í svarinu Kristínu Gunnarsdóttur, sérfræðingi á skrifstofu yfirstjórnar. Hún bætir við að eitthvað sé um að almenningur sendi ábendingar til embættisins um áhrifavalda. Í leiðbeiningum Ríkisskattstjóra kemur fram að allar tekjur áhrifavalda séu skattskyldar, hvort sem þær eru í formi peninga eða annars konar verðmæta.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Eygló byrjaði að stunda sjálfsskaða sem barn – „Ég festist alveg í þessu og þetta varð bara verra og verra“

Eygló byrjaði að stunda sjálfsskaða sem barn – „Ég festist alveg í þessu og þetta varð bara verra og verra“
Fókus
Fyrir 3 dögum

María hlustaði á hjartað og flutti í þorp fjölskyldunnar á Spáni – „Maður þarf að þora að taka áhættu“

María hlustaði á hjartað og flutti í þorp fjölskyldunnar á Spáni – „Maður þarf að þora að taka áhættu“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Edda gefur töskusafn sitt til styrktar Kvennaathvarfinu

Edda gefur töskusafn sitt til styrktar Kvennaathvarfinu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Ólétt örfáum vikum eftir að hafa ættleitt ungan dreng

Ólétt örfáum vikum eftir að hafa ættleitt ungan dreng
Fókus
Fyrir 4 dögum

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Íslenska húsið í vinsælustu jólamynd Hallmark í ár er til sölu

Íslenska húsið í vinsælustu jólamynd Hallmark í ár er til sölu