„Við höfum öll ýmsar þarfir; félagslegar, líkamlegar og allt þetta. Ég hef þessa ákveðnu þörf til að skapa og vera á sviði og troða upp er ákveðin sköpun. Þetta er ákveðinn gjörningur. Ég fíla þennan gjörning, þetta móment, þetta nú – og nú er ég kominn með leikhúsbakteríu,“segir skemmtikrafturinn Páll Óskar í viðtali í þættinum Bakaríið á Bylgjunni.
Páll Óskar á óvenjulega annríkt ár að baki, en sú staðreynd kom í ljós þegar hann fór í gegnum dagbókina sína. „Mitt eigið andlit datt af og ég þurfti að raða því saman aftur. Ég tók 180 gigg í fyrra. Málið er að ég hélt að allt árið hefði bara farið í Rocky Horror, en þær sýningar urðu 80 talsins með þessum forsýningum,“ segir Páll Óskar.
„Það er svo skrítið hvernig hausinn spilar með mann, en ég gleymdi því að ég gerði rúmlega hundrað gigg og söng líka í jarðarförum á virkum dögum. Það koma brúðkaup, það koma árshátíðir og kannski prívatpartí í heimahúsum hjá einhverjum. Þetta geri ég allt saman líka með.“
Páll Óskar tekur fram að hann hafi grennst töluvert sem er afleiðing tarnarinnar í Borgarleikhúsinu. „Það er jákvætt. Ég hef aldrei verið í svona góðu formi. Aldrei. Ég er með það uppáskrifað frá þjálfaranum mínum í Laugum.“
Páll Óskar segist hafa gaman af því að koma sjálfum sér á óvart. Hann nálgast fljótlega sextugsaldurinn en er heilsuhraustur og meira til. Hann segist aldrei hafa nennt drykkju og þegar spurður hvað er það sterkasta sem hann drekkur er svarið Coke Zero. Hins vegar segir hann að súkkulaði sé efst á rætilistanum sínum. Þegar Páll Óskar er að skemmta hefur hann yfirleitt tvö glös á plötusnúðaborðinu stútfull af rjómasúkkulaði frá Nóa Siríus. „Ég passa upp á hvað ég borða, en fríka út inn á milli. Ég mæti þrisvar í viku til þjálfarans og hann rekur mig áfram,“ segir Páll Óskar.
„Ég hef margt betra að gera“
„Ég hef alltaf elskað að troða upp, en eftir því sem maður eldist, þá elska ég það meira,“ segir Páll Óskar sem þó telur sig ekki lengur vera með úthald unglings. Þá skýtur hann því inn að hann verði að öllum líkindum aldrei ástfanginn eins og hann var á þeim árum.
„Ef ég hitti einhvern núna, þá verður ástin örugglega mjög yfirveguð ákvörðun,“ segir hann. „Hljómar svolítið þurrt, en ég er til í að reka samband eins og fyrirtæki. Svo gerir maður bara þá kröfu um að það sé gott að vera með gaurnum undir sama þaki. Að það sé ekki einhver spenna, reipitog, takkaýtingar og allt þetta sem ég hef upplifað í samskiptum mínum við „lovera“ í fortíðinni.“
Þá segist Páll Óskar þola fátt minna en tvöföld skilaboð í samböndum. „Ég meika ekki þegar einhver segist elska mig en er með eitthvað plan B. Ég get þetta ekki.“
Páll Óskar útilokar ekki að skemmtanabransinn, tónleikarnir og sköpunargleðin sé í raun stóra ástin í lífi hans. Aðspurður hvort sé þá nokkuð pláss fyrir samband neitar söngvarinn því ekki, þó hann segi að það komi fyrir tímabil þar sem hann finnur fyrir löngun í samband.
„Það hafa komið augnablik þar sem ég hugsa hvað það væri huggulegt að sé einhver heima sem bíður eftir mér, þegar maður hefur unnið enn einn sigurinn. Ef það hefði nú einhver beðið eftir mér þegar ég kom heim af tónleikunum með Sinfó, eða tónleikunum í Höllinni, eða „kombakkið“ á Þjóðhátíð í eyjum. Æ, hvað það hefði verið huggulegt. En svo verð ég að sætta mig við það og kveikja á því, að allt sem fólk í samböndum fær frá sínum heittelskaða, það fæ ég frá mínum nánustu. Ég á ofsalega gott og fallegt net af vinum sem eru svo sannarlega að svara mér og sinna öllu því sem ég vil og þarf,“ segir hann.
„Ég passa mig á því að temja mér alveg súper, súper yfirdrifið mikið þakklæti. Ef maður passar sig á því að taka svona þakklætismöntrur, þá bítur bara ekkert á þig; allt þetta dægurþras, reiðin, pirringurinn, gremjan sem sækir að manni um leið og maður vaknar eða opnar Facebook. Þú hefur minni áhuga á því að ybba gogg yfir einhverju sem kemur þér ekki við. Ég veit ekkert um orkupakka þrjú og hef enga þörf fyrir það. Ég hef margt betra að gera.“
Viðtalið má heyra í heild sinni hér að neðan: