Leikstjórinn Valdimar Jóhannsson vinnur nú að kvikmyndinni Dýrið (Lamb), sem er samframleiðsla með Svíum og Pólverjum og hlaut myndin 52 milljóna króna styrk frá Eurimages. Aðalframleiðendur eru Hrönn Kristinsdóttir og Sara Nassim. Valdimar skrifar handrit ásamt Sjón. Dýrið segir frá hjónunum Maríu og Ingvari, sem eru sauðfjárbændur á afskekktum sveitabæ. Þegar lítil og óvenjuleg vera kemur inn í líf þeirra verður breyting á högum þeirra sem færir þeim mikla hamingju um stund, sem síðar verður að harmleik.
Tökur fara fram í Hörgárdal í lok maí í hálfan mánuð og svo aftur í ágúst og september. Leitað er að börnum sem geta aðstoðað við að útfæra þessa litlu veru, smávöxnum börnum á aldrinum 2–6 ára sem líta út fyrir að vera yngri en þau eru í raun. Bæði stelpur og strákar koma til greina. Börnin þyrftu þá að geta verið með valda tökudaga á tökutímabilunum og starfið er að sjálfsögðu launað.
Með aðalhlutverk í myndinni fara Hilmir Snær Guðnason og sænska leikkonan Noomi Rapace, sem sló eftirminnilega í gegn í þríleiknum Karlar sem hata konur. Í viðtali við Variety sagði Rapace að handrit Dýrsins væri sjaldgæft og henni því fundist hún þurfa að vera með. Leikkonan bjó sem barn á Íslandi í þrjú ár og var þá statisti í kvikmynd Hrafns Gunnlaugssonar, Í skugga hrafnsins. „Ég hef aldrei gert neitt þessu líkt áður og get ekki beðið eftir að hefja tökur og snúa til róta minna á Íslandi.“
Áhugasamir foreldrar mega senda ljósmynd eða stutt vídeó af barninu og helstu upplýsingar, svo sem nafn, aldur og hæð og símanúmer foreldra, á netfangið gagga@7g.is.