Hafdís Björg Kristjánsdóttir hefur þrátt fyrir ungan aldur getið sér gott orð og unnið titla í fitnessheiminum. Hún stefnir þó hærra; í atvinnumennsku í greininni. Hafdís er einstæð, fimm drengja móðir og segist því þurfa að leggja enn harðar að sér en ella, sonum sínum og yngri keppendum í greininni til fyrirmyndar.
Hafdís er 31 árs, fædd í Danmörku, en uppalin í Borgarnesi. Hún hefur verið í íþróttum frá unga aldri, elskar dans og vinnur í dag sem einkaþjálfari og tímakennari hjá World Class. Þess á milli sinnir hún eigin fyrirtæki, samfélagsmiðlum og sonunum, sem allir hafa erft íþróttaáhuga og metnað móður sinnar.
„Það var allt í lagi að búa þar, en ég er mikið borgarbarn,“ segir Hafdís brosandi aðspurð hvernig hafi verið að búa á Blönduósi, en þangað flutti hún með móður sinni, þegar hún var að byrja í 7. bekk. Fótboltinn var í fyrirrúmi hjá Hafdísi, en hún lagði líka stund á djassballett og á Blönduósi fór hún að kenna dans strax í grunnskóla. Í fótboltanum spilaði hún upp fyrir sig með 1., 2. og meistaraflokki, en vann þó enga titla, frekar en fyrir dansinn, en titlarnir áttu eftir að koma síðar. Hafdís á fjórar hálfsystur, eina stjúpsystur og einn stjúpbróður. „Pabbi á fimm stelpur með fimm konum og við náum allar mjög vel saman. Sigga, sem er tólf árum eldri en ég, var tveggja ára þegar pabbi og mamma kynntust og þegar þau skildu ættleiddi mamma hana og við fluttum til Reykjavíkur frá Danmörku.“
Ófrísk og taldi lífið ónýtt
Eftir grunnskóla flutti Hafdís á Akranes til að fara í menntaskóla. Þar kynntist hún manni og eftir rúmt ár í sambandinu komst hún að því að hún var ófrísk. „Ég hélt bara að lífið væri ónýtt, ég var nýkomin með bílpróf, nýbyrjuð í menntaskóla og lífið að byrja. Ég hringdi fyrsta símtalið í mömmu hágrátandi og hún hélt að einhver hefði dáið. Mamma er þannig týpa að ef eitthvað er að þá segir hún að við reddum því bara.“ Móðir hennar flutti frá Blönduósi til Borgarness, til að vera nær Hafdísi og var henni til aðstoðar svo að hún gæti einbeitt sér að náminu. Nokkrum árum seinna útskrifaðist Hafdís sem stúdent frá Menntaskólanum í Borgarnesi og var þá búin að eignast þrjá drengi.
Æfingar voru geðlyf Hafdísar
Þegar Hafdís varð ófrísk að elsta syni sínum þurfti hún að hætta að æfa fótbolta og það leiddi til þess að hún varð þunglynd og eftir fæðingu þjáðist hún af alvarlegu fæðingarþunglyndi. „Ég varð verulega þunglynd við að fara úr því að æfa tvisvar á dag í það að gera ekki neitt. Eftir að ég átti fór ég í alls konar teymi hjá Hvítabandinu og sálfræðingum. Einn þeirra benti mér á að það væri sniðugt að hafa samband við einkaþjálfara og byrja að æfa og lyfta, hægt og rólega. Ég skráði mig því í einkaþjálfun hjá Agli Gilzenegger Einarssyni.
Þar kviknaði áhugi minn á lyftingum, ekki af því að mig langaði að líta svo vel út, heldur af því að mér fór að líða svo vel. Þetta voru bara mín geðlyf, að mæta á æfingu. Þannig að ég skráði mig í einkaþjálfaranám hjá Keili þegar ég var búin með stúdentinn.“
Á þessum tíma fylgdist Hafdís mikið með konum sem voru í fitness, þar á meðal systrunum Heiðrúnu og Hrönn Sigurðardætrum, en sú síðarnefnda er í dag ein af bestu vinkonum Hafdísar, bæði í sportinu og í hversdagslífinu. „Mér fannst þær ógeðslega flottar og ætlaði bara að verða eins og þær. Einhvern tímann var ég að skoða myndir af þeim á móti og þá sagði barnsfaðir minn að þær væru ekki búnar að eignast börn, ég væri hins vegar búin að því og ég gæti þetta ekkert. Og ég svaraði honum á þann veg að ég gæti þetta bara víst og ætlaði að gera þetta!“
Keppnisáhuginn kviknaði
Þannig kviknaði áhugi Hafdísar á að keppa í fitness. Hún skráði sig hjá Konráði Val Gíslasyni og taldi sig í fyrstu vita betur eða í það minnsta jafn vel og þjálfarinn. „Ég var ekkert að fara 100 prósent eftir matarplaninu og fannst ég alltaf vera rosalega með þetta. Síðan ráðlagði Konni mér að bíða með að keppa. Ég móðgaðist og hætti hjá honum, keppti á mótinu og endaði í síðasta sæti,“ segir Hafdís og hlær. „Þarna hugsaði ég: „Vil ég þjálfara sem er bara klappstýran mín eða vil ég þjálfara sem er hreinskilinn við mig og mun ekki láta mig líta út eins og hálfvita?““
Hún fór því aftur að æfa undir leiðsögn Konna sem setti hana á æfingar með Hrönn, sem hún hafði áður dáðst að sem fyrirmynd sinni. „Við verðum bara eins og tvíburar, þrátt fyrir að hún sé 10 árum eldri. Áhugi okkar, markmið og metnaður eru eins þó að við keppum ekki í sama flokki. Það er svo gott að hafa einhvern sem er á sömu leið og þú. Við erum líka með sama húmor, þannig að við erum ekkert að móðgast út í hvor aðra. Við höfum aldrei rifist, við skiljum hvor aðra og vitum hvar við höfum hvor aðra og það er ótrúlega dýrmætt.“
Sambandið varð að ehf.
Á þessum tíma var Hafdís flutt aftur til Reykjavíkur með fjölskylduna, en hún og barnsfaðir hennar tóku ákvörðun um að flytja til að eiga kost á betri þjónustu fyrir elsta soninn, eftir að hann var greindur heyrnarskertur. „Hlíðaskóli er eini skólinn á landinu sem er með utanumhald fyrir heyrnarskert börn og ég var hörð á því að flytja þangað sem hann fengi bestu aðstoð og þjónustu. Hins vegar breyttist sambandið og við urðum bara eins og fyrirtæki, þegar barnsfaðir minn kom heim úr vinnu, þá fór ég að vinna og svo kom ég heim og hann fór að vinna. Við bara týndum okkur, við vorum búin að vera saman í 13 ár, þannig að við vorum orðin meira eins og sambýlingar en par.“
Í desember árið 2015 skildi Hafdís á sama tíma og hún var að undirbúa sig í annað sinn fyrir Arnold Classic, sem er stærsta fitnessmót í heimi, haldið ár hvert í Bandaríkjunum. „Mér gekk mjög vel á fyrsta mótinu í mars 2015, náði topp sex, og það var gaman að upplifa þetta og sjá hvað þetta er stórt erlendis. Ég fann að þetta var það sem ég vil gera og gera að atvinnu.
Að mæta á æfingar hélt mér gangandi í gegnum skilnaðinn, því þó að það hafi verið sameiginleg ákvörðun okkar að skilja, þá var það samt erfitt, eins og það er alltaf, sérstaklega þegar börn eru með í spilinu. Konni leyfði mér bara að vera eins og ég var, en þegar ég þurfti að tala þá hlustaði hann. Við einkaþjálfarar erum oft hálfgerðir sálfræðingar. Þetta er svona 80 prósent sálfræði og 20 prósent hreyfing.“
Nokkrum mánuðum eftir skilnaðinn keppti Hafdís í annað sinn á Arnold, varð aftur í topp sex og gekk að eigin sögn betur en í fyrra skiptið. „Ég var hins vegar mjög rýr, ég léttist mikið meðan á skilnaðinum stóð, þannig að þrátt fyrir að mér hafi gengið vel þá gekk mér ekki eins vel og ég stefndi að. Hausinn var líka ekki alveg með og kannski hefði ég átt að bíða í eitt ár, en þá hefði ég heldur ekki kynnst Gunna.“
Gunni er seinni barnsfaðir Hafdísar og hún segir þau hafa smollið strax saman sem góðir vinir og félagar úti, þau tvö og Hrönn. „Hann er með sama húmor og við og þetta var bara alveg áreynslulaust. Það var aldrei daður úti og ég var meira að segja að ýta frekar undir það þegar við fórum að versla saman að hann reyndi við afgreiðslustúlkurnar. Þegar við komum heim fannst okkur hins vegar eitthvað vanta, það vantaði félagann. Þannig að við fórum að hittast, kepptum saman á Íslandsmeistaramótinu, þar sem ég vann fyrsta sætið og fórum síðan að deita af fullri alvöru og eiginlega allt of hratt.“
Gunnar átti engin börn og þrátt fyrir að Hafdís væri búin að ákveða að eignast ekki fleiri börn og ekki að giftast heldur, gerði hún hvort tveggja. Þau ákváðu að eignast eitt barn og Ingimar fæddist.
„Ég hélt að þetta væri maðurinn sem ég yrði með að eilífu, þannig að af hverju ekki að koma með eitt í viðbót. Svo án gríns þá slysast þessi í heiminn,“ segir Hafdís og vaggar Sigurði, fjögurra mánaða, sem kom með móður sinni í viðtalið og er búinn að hjala stilltur og góður í fangi hennar.
„Það var aldrei inni í myndinni hjá mér að fara í fóstureyðingu, ég styð rétt kvenna til að fara í hana, en ég sjálf gæti það ekki. Við vorum á því að þetta hefði bara átt að gerast, við erum komin með fjögur, af hverju ekki bara að koma með það fimmta.“
Parið gifti sig í ágúst í fyrra, þegar Hafdís var gengin 21 viku og allir fengu að vita kynið í brúðkaupinu, fimmti strákurinn var staðreynd og Hafdís segir að fólk hafi haft orð á því við hana að næst myndi hún reyna við stelpuna. „En það hefur aldrei verið neitt markmið hjá mér, mér finnst bara þægilegt að hafa annað kynið. Systur mínar og vinkonur segja að það sé auðveldara að vera með stráka, þannig að ég er bara mjög sátt við það að vera strákamamma.“
Skilnaður korter í fæðingu
Hafdís og eiginmaður hennar voru mjög hamingjusöm og því kom það mörgum á óvart þegar þau sögðu frá því fyrir stuttu að þau væru skilin. Aðspurð hvað hafi valdið því, segir Hafdís að barnsfaðir hennar hafi áttað sig full seint á því að samband með öllu því sem því fylgir væri kannski ekki alveg það sem hann vildi.
„Hann tók einhverja u-beygju þarna í desember, korter í fæðingu. Og þegar Sigurður var fjögurra vikna þá bað ég hann að flytja út og mamma kom í bæinn til að aðstoða mig. Ég veit ekki hvar ég væri án hennar,“ segir Hafdís og segist í dag vera komin yfir reiðina og sorgina, sem þyrmdi yfir hana við skilnaðinn. „Ég er fegin að við sögðum engum frá skilnaðinum fyrr en í mars eða apríl, þá var ég komin yfir reiðina og sorgina og orðin sátt. Margir hafa orðið mjög reiðir, en ég er komin yfir þetta og reiðist því ekki með þeim. Hvort sem mér líkar betur eða verr þá er ég að fara að ala tvo syni upp með barnsföður mínum næstu 18 ár og það er mikilvægt að muna þegar börn eru í spilinu að skilnaður fari ekki út í eitthvert skítkast. Fólk verður að átta sig á að ef maður talar illa um foreldri við barnið, þá er maður að tala illa um þann sem er hluti af barninu, og börn taka slíkt inn á sig. Það er líka algengt að fólk noti börnin sem vopn, sem bitnar fyrst og fremst á börnunum. Ég hef upplifað það í gegnum vinkonur mínar hvað slíkt getur verið erfitt. Það gerði mig líka reiða að hann var búinn að sjá hvaða áhrif skilnaður hafði á syni mína, sem var erfitt fyrir þá, svo leggur hann þetta á þá aftur. Í stað þess að bara ákveða fyrr hvað hann vildi eða bara tækla tilfinningar sínar eins og fullorðinn maður. En þó að sambandið hafi ekki enst hjá okkur, þá er hann frábær pabbi og sinnir strákunum mjög vel.
Ég er mjög sjálfstæð og lærði það ung af mömmu. Hún var bæði mamman og pabbinn í uppeldinu og kenndi mér strax að ef það þarf að gera eitthvað þá geri ég það sjálf, í stað þess að bíða eftir einhverjum öðrum. Ég hef aldrei verið háð öðrum og mér finnst það mikið frelsi. Mér finnst ég eiga allt það besta skilið og er ekki hrædd við að vera ein, maður á ekki að sætta sig við aðstæður sem maður vill ekki vera í. Ég hef alltaf lifað þannig að ég hugsa; ef ég dey á morgun vil ég þá vera eins og ég er í dag? Lífið er of dýrmætt til að ég bara sætti mig við eitthvað.“
Funkerar best þegar verkefnin eru mörg
Hafdís lætur einkaþjálfunina ekki duga, því hún er einnig með eigið fyrirtæki, Spray tan, sem nú hefur eignast fast aðsetur í Mörkinni 3, þar sem vinkona hennar Hrönn rekur verslun. „Þar er ég með skrifstofu og tan-stofuna, sem áður var „pop up“-klefi heima hjá mér eða ég mætti með hann heim til fólks. Ég er líka að opna netverslun með fitnessvörur núna í sumar, og verð einnig markaðsstjóri fyrir Zenz hárvörur, en systir mín er að opna hárgreiðslustofu með þeim vörum.“
Best að vera sjálfstæð
„Mig langar ekki að hætta að þjálfa, það er mjög gaman og mér líður aldrei eins og ég sé að mæta í vinnuna. Ég er mikil félagsvera og finnst gaman að þjálfa og það gefur mér mikið,“ segir Hafdís og þegar blaðamaður telur að þarna sé allt upp talið og dagbókin full, bætir Hafdís við að hún sé að byrja með spinningtíma aftur. „Þetta er annan hvern laugardag þegar strákarnir eru hjá pabba sínum, þannig að af hverju ekki? Það er líka gott að byrja helgina á hreyfingu. Það er heilmikið að gera og ég funkera best þannig.“
Hafdís hefur unnið 8–4 vinnu og segir ákveðið öryggi og fríðindi fylgja því. „En það er bara ekki ég, flest störf sem ég hef skoðað myndu drepa mig úr leiðindum. Ég þarf að hitta fólk og ég vil geta farið frá án þess að vera með samviskubit, ef til dæmis strákarnir eru veikir, eða það er skemmtun í skólanum. Í stað þess að væla út frí, þá get ég hringt í viðskiptavini mína og beðið þá að koma á öðrum tíma og það er aldrei neitt mál. Ég er föst á því að ég ætla alltaf að vera sjálfstæð.“
Synirnir smitaðir af metnaði
Elstu þrír synirnir byrjuðu allir í fótbolta, en pabbi þeirra var eins og Hafdís mikið i fótbolta og hefur verið fótboltaþjálfari til margra ára. „Við vorum alltaf mjög virk með þá og þeir hafa fundið sig í íþróttum og hafa áhuga. Sá elsti, Kristján Hjörvar, 14 ára, fann sig í fótboltanum, sem er fyndið af því að okkur var sagt þegar hann greindist heyrnarskertur að hann myndi aldrei finna sig í hópíþróttum. Hann var farinn að lesa af vörum þriggja ára, hann er þannig að hann heyrir ekki í þeim sem eru fyrir aftan hann og færði sig því alltaf aftar á völlinn og er núna að blómstra í marki og farinn að stjórna leiknum. Ég er svo stolt af honum og fegin að við hlustuðum ekki þegar reynt var að takmarka getu hans. Nýlega var hann valinn í unglingalandsliðið undir 15 ára.
Sigurkarl, 11 ára, keppir í frjálsum og blómstrar í kúluvarpinu og Hafþór Björn, 9 ára, er enn í öllu og að finna sig, hvort það verður fótbolti, körfubolti eða frjálsar kemur í ljós. Ingimar sá næstyngsti byrjar örugglega í fótboltanum líka. Það er best að leyfa þeim að prófa sem flest og leiðbeina þeim svo í eina átt. Ég veit ekki hvað ég prófaði margar íþróttir þegar ég var yngri.
Ég dýrka hvað mér finnst ég hafa smitað metnaðinn yfir til þeirra, þeir trúa að þeir geti sigrað heiminn, ef þeir vilja það og setja hausinn í það, þá er það þannig. Ég myndi alltaf fjárfesta í íþróttum fyrir syni mína, frekar en einhverjum óþarfa fyrir sjálfa mig. Ég held að íþróttir og tómstundir séu svo mikil forvörn, ég trúi því svo innilega. Og ég hef upplifað of mikið af því að börn fari ranga leið í lífinu.“
Þar vísar Hafdís til lögreglustarfsins, en móðir hennar og fleiri ættingjar eru lögreglumenn og fyrri barnsfaðir hennar líka. Hún segist alin upp á lögreglustöðinni í Hafnarfirði og sjálf hafa verið harðákveðin í því í grunnskóla að verða lögga. Henni fannst hins vegar að hún gæti ekki boðið sonunum upp á að báðir foreldrar væru í vaktavinnu, barnsfaðir hennar fann sig í starfinu, sem hann sinnir enn, og hún fór íþróttaleiðina.
„Að alast upp hjá foreldri sem er í vaktavinnu er meira en að segja það, þótt mamma hafi látið það ganga upp. Það sem ég upplifði í gegnum það varð þess valdandi að stundum missti ég trúna á mannkynið. Ég hef sjálf verið í gæslu og hef upplifað að fólk geti verið fífl, og heimurinn er oft ógeðslegri en mann gæti grunað, ef ég væri í þessu daglega held ég að það myndi draga mig svakalega niður.“
Pressa að toppa keppnisformið
Framundan er undirbúningur fyrir Arnold árið 2020 og Hafdís segir það þolinmæðisvinnu því flokkurinn hennar sé stór. „Ég gef mér góðan tíma, því markmiðið hjá mér er ekki bara að keppa, heldur að fá atvinnumannsskírteinið. Hrönn náði sér í það meðan ég eignaðist börn, ég missti aðeins af henni þar. Við erum með styrki í dag, en þetta er á öðru leveli, það er borgað fyrir okkur og uppihald á mótum og fleira. Verðlaun fyrir efstu sex sætin á atvinnumannamótum eru háar fjárhæðir. Hugsaðu þér að keppa á einu móti á ári og svo ertu bara að æfa þig hina dagana. Það er markmið hjá mér að gera það sem ég hef ástríðu fyrir og mig langar í miklu meira. Mér finnst líka pressa á mér, ekki síst frá sjálfri mér, um að toppa síðasta keppnisform. Ég er búin að eignast tvö börn frá síðasta móti og finnst ég þurfa að sýna enn frekar að ég get þetta.“
Hafdís segir að fitnessíþróttin fái oft á sig neikvæðan stimpil og talað sé um óheilbrigði. „Þá er fólk aðeins að horfa á niðurskurðinn, sem er átta vikna tímabil fyrir mót, en ég er búin að æfa í tvö ár, sex ár eða annað fyrir mótið. Við vitum hvað við erum að fara út í og erum búin að undirbúa okkur fyrir það. Það skiptir líka máli vera með rétta aðilann með sér, Konni veit alveg hvað hann er að gera og ég treysti honum fyrir öllu og ég treysti honum ef hann segir mér að ég sé ekki tilbúin.“
Hafdís er virk á samfélagsmiðlunum Snapchat og Instagram: hafdisbk og á heimasíðunni www.virago.is