Hljómsveitin Hatari er á hraðri uppleið í veðbankaspám ef marka má vef Eurovision World. Nú er Íslandi spáð 7. sæti í úrslitum keppninnar, en fyrir kvöldið rokkuðu Hatarar á milli 9. og 10. sætisins.
Grikkland og Kýpur ná ekki að fikra sig inn á topp tíu, þrátt fyrir að þessi tvö lönd hafi komist áfram í kvöld.
Að öðru leyti er veðbankaspáin svipuð og hún var fyrir kvöldið. Ástralska söngkonan var búin að taka stórt stökk upp á við áður en hún komst í úrslit og er nú spáð 3. sæti í Eurovision. Hollendingurinn Duncan Laurence heldur enn toppsætinu og Svíinn John Lundvik hreiðrar um sig í öðru sætinu.