Hljómsveitin Hatari æfði framlag Íslands í Eurovision, Hatrið mun sigra, í annað sinn á stóra sviðinu í Tel Aviv í gær. Myndbrot af æfingunni var sett inn á YouTube-síðu Eurovision-keppninnar fyrir sautján klukkutímum og hefur verið horft á það 108 þúsund sinnum.
Af þeim löndum sem æfðu í gær er áhorfið einna mest á Hatara. Það er hins vegar Tamta frá Kýpur sem rústar keppninni í áhorfstölum, en búið er að horfa á æfingu hennar 240 þúsund sinnum. Ástralía og Hvíta-Rússland eru aðeins fyrir ofan Hatara, með 113 og 115 þúsund áhorf. Pólland fylgir fast á hæla Hatara með 104 þúsund áhorf.
Búið er að skrifa rúmlega níu hundruð athugasemdir við myndbrot Hatara og eru þær langflestar jákvæðar.
„Ég get ekki beðið eftir að kynna ömmu mína fyrir BDSM á þriðjudag,“ skrifar Constantino Pats.
„Og við erum komin með sigurvegara. Tólf stig frá Rússlandi,“ skrifar Higher Ground.
„Ég er í uppnámi, ringluð, hrædd og gröð – allt á sama tíma. Vel gert Ísland!!“ skrifar AlvWaynwood.
„Sigurvegari! Reykjavík 2020!!!“ skrifar John Meyers.
„Stórkostleg frammistaða! Tólf stig frá Póllandi!“ skrifar Andrzej Caputa.