Fjölskylda bandaríska kvikmyndagerðarmannsins John Singleton hefur veitt læknum leyfi til að taka hann úr öndunarvél í dag. Þetta kemur fram í yfirlýsingu fjölskyldunnar en leikstjórinn, sem er 51 árs, fékk heilablóðfall fyrr í þessum mánuði.
„Þetta var hræðilega erfið ákvörðun, sem fjölskyldan tók á nokkrum dögum, eftir að hafa fengið ráðgjöf frá læknum John,“ segir í yfirlýsingunni, en þar kemur einnig fram að Singleton fái góða meðhöndlun á gjörgæsludeildinni.
John Daniel Singleton hefur farið víðan völl sem handritshöfundur, framleiðandi og leikstjóri. Hann er þekktur fyrir myndir á borð við Boyz N the Hood, Poetic Justice, Higher Learning, Shaft, 2 Fast 2 Furious og Four Brothers auk fjölda annarra.