fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Snæfríður og fjölskylda ákváðu að búa einn vetur á Tenerife: „Heilmikið ævintýri að búa hérna“

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 28. apríl 2019 12:00

Fjölskyldan á göngu nálægt borginni Puerto de la Cruz á norðurhluta eyjunnar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Snæfríður Ingadóttir ferðabókahöfundur hefur búið á Tenerife í vetur, ásamt eiginmanni sínum, Matthíasi Kristjánssyni, og þremur dætrum þeirra, Bryndísi, 5 ára, Margréti Sóley, 9 ára, og Ragnheiði Ingu, 11 ára. 

„Eins og svo margir sem búa á norðlægum slóðum þá dreymdi okkur hjónin um að prófa að búa á sólríkari slóðum. Við höfum undanfarin ár ferðast mikið til Kanaríeyja á veturna og heillast mjög af eyjunum, ekki síst Tenerife. Eftir okkar síðasta ferðalag hingað ákváðum við að láta slag standa og prófa að búa hérna einn vetur. Við komum hingað síðastliðið haust og förum til baka í júní. Þessi vetur hefur liðið allt of hratt og það hefur verið heilmikið ævintýri að búa hérna. Við komum hingað alveg mállaus og byrjunin var því ekki auðveld fyrir stelpurnar okkar sem fóru beint í spænskan skóla en þær eru núna altalandi á spænsku. Það verða mikil viðbrigði að koma aftur til Akureyrar þar sem við búum, því við erum orðin góðu vön hér hvað varðar hlýtt veðurfar og gott mataræði,“ segir Snæfríður, sem deilir nokkrum af sínum uppáhaldsstöðum með lesendum DV.

Fallegt landslag Séð yfir bæinn Los Gigantes á vesturhluta eyjunnar.

Kann vel við sig á Vindheimamelum

„Við búum í strandbæ sem heitir El Médano og er á suðurhluta eyjunnar. Við komum hingað fyrst í íbúðaskipti fyrir nokkrum árum og heilluðumst af stemmingunni í þessum bæ. Þetta er alls ekki fallegasti bærinn á eyjunni, það er til dæmis nánast enginn gróður hérna. Íslenskir gárungar hér á eyjunni kalla bæinn Vindheimamela, því hér blæs mun meira en á flestöllum öðrum stöðum á eyjunni,“ segir Snæfríður.

„Við kunnum hins vegar vel við rokið og dætur okkar eru að læra „vindsörf“ svo staðsetningin hentar okkur vel. Þessi bær er líka þægilega lítill, það er allt í göngufæri hérna og skemmtilegt að ganga strandlengjuna á morgnana og alla leið upp á bæjarfjallið, Montana Roja.“

Aðspurð hvort hún vilji flytja á annan stað á eyjunni og þá hvaða stað, svarar Snæfríður að hún sé mjög ánægð í El Médano en ef hún myndi færa sig um set þá yrði borgin Puerto de la Cruz líklega fyrir valinu. „Hún er á norðurhluta eyjunnar og er algjör andstæða við El Médano. Borgin er gróðursæl og þar er mjög skemmtilegan arkitektúr að finna auk fjölbreytts úrvals af veitinga- og kaffihúsum.“

Sjósportið heillandi Fjölskyldan býr í bænum El Médano á suðurhluta eyjunnar, en þar eru aðstæður fyrir alls konar sjósport mjög góðar og hafa dæturnar nýtt sér það.

Stemmingin á Tenerife friðsæl og fólk lífsglatt

Tenerife er ekki stór eyja, um 50 sinnum minni en Ísland, en þrátt fyrir smæðina er eyjan afar afar fjölbreytt og margt að sjá og upplifa að sögn Snæfríðar. „Það er þægilegt að ferðast um eyjuna og yfirleitt hægt að ná öllum áfangastöðum í dagsferð, sem mér finnst mikill kostur. Hér eru engin árásargjörn dýr en samt er loftslag og gróður mjög hitabeltislegur. Ekki spillir heldur fyrir hversu vinalegir íbúarnir eru og maturinn ferskur og fjölbreyttur. Stemmingin á eyjunni er í heildina mjög friðsæl og fólk almennt mjög lífsglatt.

Það er mjög auðvelt að ferðast um Tenerife á eigin bíl. Allir vegir, jafnvel minnstu fjallavegir, eru malbikaðir en einnig er gott strætókerfi hérna. Við fjölskyldan notum bílinn ekki mikið dagsdaglega þar sem öll þjónusta er í göngufæri við okkur, en við förum gjarnan í dagsferðir um helgar. Um páskana prófuðum við að leigja húsbíl og ferðuðumst á honum um eyjuna og það var áhugaverð upplifun. Fyrir örugga ökumenn er alveg hægt að mæla með því, enda tiltölulega ódýrt að leigja húsbíl hérna.“

Dugleg að ferðast Fjölskyldan notar yfirleitt helgarnar til þess að skoða eitthvað nýtt á eyjunni en þrátt fyrir að vera lítil þá er eyjan afar fjölbreytt.
Fjallganga Snæfríður á göngu í Anaga-fjöllunum. Þessi gönguleið er ein af leiðunum sem lýst er í handbókinni Ævintýraeyjan Tenerife og liggur frá Cruz del Carmen til Chinamada.

Kynnist matarmenningu heimamanna vel í matarboðum

Aðspurð hvert fjölskyldan fari út að borða, bæði hversdags og til hátíðabrigða, svarar Snæfríður að þau reyni að heimsækja nýja staði í hvert sinn, en njóti þess þó líka að borða heima. „Þegar við förum út að borða þá verða iðulega spænskir hverfisstaðir fyrir valinu. Við reynum að heimsækja nýja staði í hvert sinn svo við eigum engan uppáhaldsstað sem við heimsækjum aftur og aftur. Við erum mjög hrifin af „guachinches“-menningunni hérna, veitingastöðum sem vínframleiðendur halda úti í þrjá mánuði á ári. Í vínræktarhéruðunum á norðurhluta eyjunnar er flesta þessa staði að finna. Við njótum þess annars að borða sem mest heima, því það er svo frábært úrval af góðri og ferskri matvöru í verslununum hérna. Við förum á bændamarkað einu sinni í viku og kaupum þar inn brakandi ferskt grænmeti og ávexti fyrir vikuna. Geitarostur er oft á borðum og að sjálfsögðu kanarísk vín. Við eigum mikið af spænskum vinum hér á eyjunni sem eru duglegir að bjóða okkur í mat um helgar og í gegnum öll þessi matarboð höfum við kynnst matarmenningu heimamanna mjög vel.“

Girnilegt Kanínukjöt og geitarostur, klassísk máltíð meðal heimamanna.

Á stuttbuxum allan veturinn

Snæfríður segir að á Tenerife sé ekkert sem heitir „fyrir utan ferðamannatímabilið.“ „Það er alltaf góður tími til þess að heimsækja Tenerife því hér er alltaf gott veður. Fyrir Íslendinga sem eru að leita að vetrarsól þá er Tenerife, og Kanaríeyjar allar, mjög góður kostur því þær eru eini áfangastaðurinn í Evrópu þar sem hægt er að ganga að góðu veðri vísu yfir köldustu vetrarmánuðina,“ segir Snæfríður. „Júlí og ágúst eru heitustu mánuðirnir en þar sem þetta er eyja er alltaf stutt í kælandi hafgolu svo það verður sjaldan óbærilega heitt hér. Köldustu mánuðirnir eru desember og janúar en þá getur hitastigið farið niður í 16–18 gráður. Ég hef meira og minna verið á stuttbuxunum hér í allan vetur og hér á suðurhlutanum er algjör undantekning ef það rignir.“

Svartur sandur Á ströndinni í Puerto de la Cruz. Á norðurhluta eyjunnar eru strendurnar allar með svörtum sandi.

Bananabúgarður og bíltúr er efst á lista fyrir gesti

„Ég fer yfirleitt með mína gesti í heimsókn á bananabúgarðinn Finca Las Margaritas í Las Galletas. Það er ræktað gríðarlega mikið magn af bönunum hér á Tenerife og bananaplöntur eru áberandi í landslagi eyjunnar, svo það er gaman að fræðast meira um þessar plöntur og fá að smakka á afurðum úr þeim,“ segir Snæfríður aðspurð hvert hún fari með sína gesti. „Síðan ráðlegg ég öllum að taka bíltúr á norðurhluta eyjunnar því landslagið þar er svo allt öðruvísi en á suðurhlutanum. Stopp í Masca, Garachico, Puerto de la Cruz og La Laguna er eitthvað sem er ómissandi. Teide-þjóðgarðurinn á miðri eyjunni er líka mikil upplifun og allt öðruvísi landslag þar er annars staðar á eyjunni. Ef fólk er fyrir göngur þá eru margar magnaðar gönguleiðir á eyjunni. Ein af mínum uppáhaldsleiðum liggur frá bænum Santiago del Teide og niður í Masca-þorpið. Þetta er nokkuð þægileg gönguleið í afar fallegri náttúru. Svo er líka svo gaman að enda í Masca-þorpinu og verðlauna sig með því að setjast niður á eitthvert af veitingahúsunum þar. Anaga-svæðið er líka algjör konfektkassi fyrir náttúruunnendur og endalaust úrval af gönguleiðum þar. Flestir ferðamenn sem hingað koma dvelja á ferðamannasvæðinu (Playa Américas, Costa Adeje eða Los Cristianos) á suðurhluta eyjunnar. Ég hvet fólk hins vegar til þess að hreyfa sig aðeins um og sjá fleira en bara sundlaugarbakkann og Siam Park-skemmtigarðinn. Ef farið er á norðurhluta eyjunnar þá er þar að finna allt aðra hlið á eyjunni, öðruvísi náttúru, arkitektúr og menningu.“

Strandjóga Fjölbreytta afþreyingu er að finna á Tenerife en eitt af því sem fjölskyldan hefur prófað er að mæta í jóga á ströndinni.

Mæðgur gefa út ferðahandbók

Í fyrra gaf Snæfríður út bókina Ævintýraeyjan Tenerife og í sumarbyrjun mun koma út önnur bók eftir hana og dóttur hennar, Ragnheiði Ingu, sem fjallar líka um Tenerife. Sú bók heitir Tenerife Krakkabókin – geggjað stuð fyrir hressa krakka. Í þessarri bók eru listaðir upp alls konar hlutir sem gaman er að sjá og upplifa hér á eyjunni sem krakki. „Ragnheiður skrifar um staðina út frá sínu sjónarhorni sem krakki og ég skrifa út frá sjónarhorni foreldra,“ segir Snæfríður, sem einnig heldur úti Facebook-síðunni Ævintýraeyjan Tenerife þar sem hún setur inn alls konar fróðleik um eyjuna, en Snæfríður er einnig með heimasíðuna lifiderferdalag.is. Auk þess hefur hún haldið fyrirlestra hjá Endurmenntun Háskóla Íslands um Tenerife og mun halda þeim áfram næsta vetur.

Bíltúrar um Tenerife– Snæfríður mælir með

(Fleiri hugmyndir má finna á Facebook-síðunni Ævintýraeyjan Tenerife)

Bananar, markaður og fjallganga

Keyrið til Las Galletas og heimsækið bananabúgarðinn Finca Las Margaritas. Haldið síðan inn í miðbæ Las Galletas og fáið ykkur kaffi á fallegasta kaffihúsi eyjunnar, að okkar mati, Lilies Garden Tea Room. Ef börn eru með í för þá er skemmtilegt leiksvæði á torginu. Keyrið svo til El Médano og gangið á fjallið Montana Roja (1–1,5 klst. ganga). Best er að vera á ferðinni á laugardegi því þá er skemmtilegur útimarkaður í bænum sem gaman er að kíkja á eftir gönguna. Síðan er hægt að fá sér að borða á einhverjum af hinum fjölmörgu veitingastöðum sem eru í bænum og skella sér í sólbað á ströndina. Ekki er hægt að yfirgefa bæinn án þess að smakka belgíska vöffluísinn hjá Mordisquitos Café.

Bananarækt Það er mjög mikil bananaræktun á Tenerife. Snæfríður mælir með heimsókn á bananabúgarðinn Las Finca Margaritas þar sem hægt er að fræðast um þessar sérstöku plöntur og smakka á afurðum úr bönunum.
Heimabærinn Í heimabær fjölskyldunnar, El Médano, blæs mjög mikið enda bærinn vinsæll hjá þeim sem stunda vind- og flugdrekasörf.

Kaktusar, pálmar og borgarlíf

Keyrið til Masca-þorpsins sem er eitt fallegsta þorp Tenerife. Vegurinn að þorpinu er einn sá svakalegasti á eyjunni svo það er bara fyrir örugga ökumenn að keyra þessa leið en verðlaunin eru stórkostlega náttúra. Gangið um Masca-þorpið, smakkið á kaktusávöxtum og fáið ykkur jafnvel hádegismat á besta grænmetisveitingastað eyjunnar, Alte Schule. Keyrið síðan áfram til Garachico og skoðið sjávarlaugarnar þar og skellið ykkur jafnvel út í. Haldið keyrslunni áfram alla leið til Puerto de la Cruz. Finnið götuna Calle Mequenzes og gangið um göturnar í kring. Hér eru litrík hús, vegglistaverk og margir sjarmerandi veitingastaðir. Þegar þið eruð búin að sjúga borgarlífið í ykkur endið þá í drykk á Gecko290 sem er nýtískulegur veitingastaður og bar í gömlu nýlenduhúsi. Virkilega töff blanda.

Í uppáhaldi Borgin Puerto de la Cruz er í uppáhaldi hjá Snæfríði en þar er að finna áhugaverðan arkitektúr, fjölbreyttan gróður og frábæra veitingastaði.
Götulist gleður augað Götulist og gömul hús í Puerto de la Cruz.

Strendur, fjöll og kanarískur matur

Keyrið í bæinn San Andrés sem er rétt norðan við höfuðborgina, Santa Cruz. Hér er gott að fá sér einn kaffibolla og virða litrík húsin fyrir sér. Gangið síðan niður á Teresitas-ströndina sem er ein sú fegursta á Tenerife. Þegar þið hafið fengið nóg af því að spranga um ströndina haldið þá ferðinni áfram og keyrið í gegnum Anaga-fjöllin í átt að Taganana. Þessi leið liggur um ægifagra náttúru en vegirnir eru mjóir og bugðóttir en útsýnið bætir það sannarlega upp. Keyrið framhjá Taganana og alla leið í strandþorpið Roque Las Bodegas. Hér er tilvalið að stoppa og fá sér hádegismat á Casa Africa sem er eingöngu með kanarískan mat á boðstólum. Best er að vera á ferð á sunnudögum því þá er lifandi tónlist í húsinu. Héðan er hægt að keyra áfram að Playa de Benjito-ströndinni en gaman er að ganga niður á hana. Þessi strönd er allt öðruvísi en Teresitas -ströndin sem skoðuð var fyrr um daginn. Ef þið eruð ekki búin að fá nóg eftir dag fullan af stórbrotnu landslagi þá má stoppa í höfuðborginni á bakaleiðinni.

Fjölbreytt landslag Hjónin á Benijo-ströndinni á norðurhluta Tenerife.
Gula fjallið Snæfríður við Montana Amarilla á suðurströndinni eða við Gula fjallið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024