fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Skömmin fær karlmenn til þess að bera harm sinn í hljóði – Reynslusögur Íslenskra karlmanna af umskurði

Aníta Estíva Harðardóttir
Þriðjudaginn 2. apríl 2019 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Umskurður ungra drengja hefur verið mikið í umræðunni hérlendis undanfarið með misjöfnum skoðunum fólks til aðgerðarinnar. Í mörgum löndum er umskurður nýfæddra drengja mjög algengur þrátt fyrir að fjöldi tilfella hafi farið minnkandi undanfarin ár. Má þar nefna að í Bandaríkjunum voru um 83 prósent nýfæddra drengja umskorin árið 1960 en 77 prósent árið 2010. Sums staðar er aðgerðin framkvæmd vegna trúarlegra ástæðna en annars staðar vegna hreinlætisástæðna.

Hér á Íslandi hefur það almennt ekki tíðkast að láta umskera unga drengi nema vegna læknisfræðilegra ástæðna. Til dæmis vegna of þröngrar forhúðar eða ítrekaðrar forhúðarsýkingar.

Þegar umskurður er framkvæmdur er forhúð limsins skorin af en tilgangur hennar er að verja reðurhúfuna eða kónginn, eins og hann er oftast kallaður í daglegu máli, fyrir þvagi, hægðum og núningi. Samkvæmt Vísindavef Háskóla Íslands er talið að forhúðin skipi stórt hlutverk í kynsvörun karlmanna bæði í samförum sem og sjálfsfróun. Þar er einnig sagt frá því að sögusagnir gangi þess efnis að umskornir menn séu betri elskhugar en aðrir þar sem kóngurinn verður með tímanum ónæmari fyrir snertingu og örvun sem getur leitt til þess að karlmaðurinn sé lengur að fá fullnægingu. Það telji einhverjir til bóta.

Umskurður Forhúð limsins er skorin af.

Umræðan um umskurð hérlendis hefur í flestum tilfellum verið á neikvæðum nótum sem getur gert að verkum að karlmenn sem eiga við einhvers konar vandamál að stríða sem snýr að getnaðarlim þeirra gætu óttast að ræða um vandamálið og jafnvel talið sig eina um það. Það gæti jafnframt leitt til þess að í mörg ár beri þeir vandamál sitt í hljóði og þori ekki að leita sér ráða.

Blaðakona leitaði til tveggja karlmanna sem eiga það sameiginlegt að hafa farið í umskurð á fullorðins aldri vegna læknisfræðilegra ástæðna og fékk að ræða við þá um ástæðu aðgerðarinnar, reynslu þeirra af umræðunni um umskurð og ferlið sjálft. Voru þeir báðir sammála um að opna þyrfti á almenna umræðu um vandamál drengja sem snýr að getnaðarlim þeirra svo enginn þurfi að ganga um og skammast sín.

Halldór og Jana María Aðgerðin var lítið mál.

Áhyggjurnar voru óþarfar

Halldór Ingólfsson er 23 ára gamall. Hann stundar nám við margmiðlunarhönnun í Danmörku þar sem hann býr með kærustu sinni, Jönu Maríu. Halldór fór í aðgerð í maí árið 2017 eftir að hafa fundið fyrir miklum þurrki á forhúðinni sem gerði að verkum að hann átti erfitt með að stunda samfarir.

„Til að byrja með fór ég til læknis til þess að láta laga þurrkinn. Hann gaf mér sterakrem sem ég átti að nota einu sinni á dag í smá tíma. Eftir þann tíma þá var vandamálið horfið en um tveimur vikum seinna kom það verra til baka. Ég leitaði því aftur til læknis og skoðaði þá möguleika sem voru í boði fyrir mig. Mér fannst sniðugast að fara í fullan umskurð og láta þannig fjarlægja allt sem hrjáði mig,“ segir Halldór sem segist hafa verið heppinn að hafa þekkt nokkra karlmenn sem þegar höfðu farið í aðgerðina og gátu gefið honum góðar upplýsingar.

„Það hjálpaði mér að taka þessa ákvörðun og var ég aðallega stressaður svona viku fyrir aðgerðina. Ég vann á veitingastað á þessum tíma og það sem hræddi mig mest var að ég hafði aðeins þrjá daga til þess að jafna mig áður en ég þurfti að fara að vinna aftur. Að hlaupa upp og niður stiga með beina snertingu við nærbuxurnar var ekki eitthvað sem ég hlakkaði til.“

Halldór segir aðgerðina hafa verið mjög einfalda og að áhyggjur hans hafi verið óþarfar.

„Þú sofnar með kragann og vaknar svo án hans. Ég man eftir því að hafa verið mjög lyfjaður fyrsta klukkutímann eftir aðgerð, en kærasta mín keyrði mig í apótekið og svo heim. Alla ferðina svitnaði ég lítrum og ég varð að vera sitjandi því ef ég hefði staðið hefði ég kastað upp. Þegar heim var komið þurfti ég að sofa með handklæði undir mér vegna svita. Fyrstu dagana þurfti ég að vera með umbúðir sem voru aðeins fjarlægðar þegar ég þurfti að kasta af mér vatni. Þær voru á þar til saumarnir hurfu og ég fékk verkjatöflur sem ég átti að taka ef ég varð virkilega verkjaður en það kom aldrei til þess. Þetta var miklu minna mál en ég bjóst við og áhyggjur mínar yfir því að fá standpínu voru óþarfar, það var ekki svo slæmt. Í dag er allt eins og það á að vera, hann er notaður meira en nokkru sinni fyrr og engir örðugleikar. Hann bara lítur betur út og það sem er best af öllu er að engin tilfinning hvarf. Ef eitthvað er þá er hún meiri og betri.“

 

Mikilvægt að karlmenn skammist sín ekki

Halldór telur umræðuna um umskurð ekki vera tabú og segir hann mjög mikilvægt að karlmenn skammist sín ekki þegar talið berst að kynfærum. Þau séu hinn eðlilegasti hlutur og að það skipti máli ef drengir upplifi einhvers konar vandræði með getnaðarlim sinn að hræðast ekki að leita ráða.

„Þetta er hluti af eðlilegu lífi. Sumir þurfa að gera þetta, sumir vilja gera þetta. Sumir gera þetta vegna trúarbragða og það er hið eðlilegasta mál. Forhúð er ekkert nema auka tilgangslaust skinn. Ég hef ekki upplifað neitt neikvætt gagnvart mér sjálfum, en hef  lesið ýmislegt á netinu og oft fæ ég kjánahroll vegna þess hvernig talað er um þetta. Fyrir mér er þetta hetjusaga, eitthvað sem ég er stoltur af og ég er alveg opinn með. Ég get talað um þetta eins og enginn sé morgundagurinn. Ég hef meira að segja rætt um umskurðinn á McDonald’s hérna í Danmörku. Umskurður er ekki eitthvað til þess að skammast sín fyrir og það getur enginn breytt þínum skoðunum. Við eigum að vera opin með það sem við gerum, hvort sem það eru kynfæri okkar eða ekki. Þau eru ekkert til þess að skammast sín fyrir.“

Halldór segir að umræðan um umskurð megi ekki vera eins neikvæð og hún hefur verið, þar sem margir karlmenn þurfi að gangast undir þessa aðgerð til þess að geta lifað góðu lífi. Segist hann ræða umskurðinn mjög opinberlega og að oft hafi hann komist að því að karlmenn í kringum hann séu einnig umskornir, aðeins vegna þess að hann ræddi það að fyrra bragði.

„Við eigum að gera það sem við getum til þess að lifa betur og ekki vera feimin við að vera við sjálf. Það er ekki erfitt að opna þessa umræðu. Átt þú erfitt með að fá standpínu? Farðu til læknis. Átt þú erfitt með sjálfsfróun? Farðu til læknis. Við eigum ekki að forðast lækna, við eigum að leita til þeirra. Þeir hjálpa okkur.“

 

Ekki öll typpi eins

Annar maður sem blaðakona ræddi við tók ákvörðun um að koma ekki fram undir nafni en þótti viðfangsefnið þó það mikilvægt að hann var einnig tilbúinn til þess að deila reynslu sinni. Hann köllum við Ragnar. Ragnar segist ekki hafa séð mikið rætt um málefnið, en að ungum karlmönnum ætti að vera kennt að getnaðarlimir séu ekki allir eins og að hjá sumum séu gallar sem gæti þurft að laga.

„Læknar höfðu tvisvar sinnum framkvæmt aðgerð sem víkkaði forhúðina. Í bæði skiptin virkaði aðgerðin tímabundið eða var illa gerð. Ég var ekki viss og ákvað því sjálfur að fara í þessa aðgerð. Forhúðin var of þröng og komst ekki niður fyrir kónginn í fullri reisn. Ég stundaði kynlíf án örvunar, í raun og veru, fram að því. Svo var þrifnaður leiðinlegur, forhúðarostur algengur og óþefur einnig. Munnmök og kynlíf sjálft var dauft og ég var búinn að eyða yfir tuttugu árum í að ímynda mér hvernig það væri að stunda kynlíf þar sem typpið fengi örvun. Það þótti mér leiðinlegt.“

Ragnar segist ekki hafa verið mjög kvíðinn fyrir aðgerðinni sjálfri en hafði hann þó áhyggjur af því að getnaðarlimur hans yrði afar viðkvæmur eftir að forhúðin yrði fjarlægð.

„Stundum fann ég sársauka þegar hann gægðist út fyrir húðina og skrapaðist við buxur. Ég snerti hann sjaldan sjálfur þar sem það var óþægilegt. Þetta er eitthvað sem gerðist vegna þess að hann hafði aldrei verið snertur en eftir aðgerð vandist snerting fljótt og þetta er ekki vandamál í dag. Ég hafði líka haft áhyggjur af því að missa forhúðina sem er tilfinningarík og fitl við hana veitti unað. Þessar áhyggjur voru þó óþarfar því þrátt fyrir að sá hluti af forhúðinni sem eftir stendur sé ekki næmur fyrir örvun þá er húðin rétt fyrir neðan kónginn og að ytri húðinni sem eftir stóð enn þá næm.“

 

Fannst hann ekki geta rætt vandamálið upphátt

Ragnar segist ekki hafa verið feiminn við að ræða aðgerðina enda fannst honum alveg eðlilegt að þurfa á henni að halda.

„Ég var kannski ekki nógu feiminn þar sem dag aðgerðarinnar var ég í eldhúsinu hjá ömmu og bróðir minn ætlaði að keyra mig og sækja, mágkona mín var stödd þarna og spurði mig í hvaða aðgerð ég væri að fara og án þess að missa úr takti sagði ég: „Ég er að fara í umskurð,“ og það sló þögn á alla í eldhúsinu,“ segir Ragnar og hlær.

Þar sem Ragnar hafði þegar farið í tvær aðgerðir á forhúðinni ákvað hann að fá svæfingu í þetta skiptið. Því man hann lítið eftir aðgerðinni sjálfri, en segir eftirleikinn hafa verið einfaldan.

„Ég gekk um í joggingbuxum og víðklofa en það lagaðist fljótt. Þetta var voða lítið mál og uppfyllti allar mínar væntingar. Það var mjög skrítið að geta snert kónginn fyrst.“

Ragnar segist ekki hafa orðið var við mikla umræðu um aðgerðir sem þessar en hann telur kynfæri fólks alltaf vera feimnismál að einhverju leyti.

„Ég hef ekki upplifað neikvæða umræðu gagnvart umskurði fullorðinna karlmanna, en ég tel að neikvæð umræða hafi myndast vegna þess að fólki á að misbjóða limlestingar á börnum byggðar á hindurvitnum og álfasögum. Ég hef aldrei heyrt að umskurður sé neikvæður þegar fullorðnir menn taka ákvörðunina sjálfir. Ástæðan fyrir umskurði ætti samt að vera til að heila manninn, mér finnst umskurður til þess að fá klámtyppi asnaleg ákvörðun. En mér finnst líka asnalegt að fara í brjóstastækkun þannig að þetta er litað álit.“

Ragnar var tuttugu og eins árs þegar hann lét fyrst víkka forhúð sína og segir hann að benda mætti ungum mönnum á þá staðreynd að mögulegir gallar geti verið til staðar á getnaðarlimnum sem geri það að verkum að sumir verði að fara í umskurð. Segist hann aldrei hafa heyrt rætt um umskurð eða aðrar aðgerðir á getnaðarlim áður en hann fór sjálfur í aðgerð. Þá leið honum eins og um vandamál væri að ræða sem hann einn væri að glíma við og upplifði  að hann gæti ekki rætt það við aðra.

„Það tók langan tíma fyrir mig að átta mig á því að umskurður væri valkostur. Ég hefði líklega ekki farið í víkkun aftur ef ég hefði vitað það. Það hefði líklega veitt mér fleiri ár af betra kynlífi ef þetta væri á allra vitorði. Einhvers staðar mætti benda ungum karlmönnum á að typpi fæðast ekki öll jöfn, og fara yfir algengustu gallana sem karlmenn gætu þurft að fá lagaða. Algengir gallar á kynfærum karla ættu að vera hluti af kynfræðslu, og að sama skapi fyrir stelpur. Ég myndi að minnsta kosti benda sonum mínum á þetta, en ég á aðeins dætur. Ég hef hins vegar alltaf lagt áherslu á að dætur mínar séu ekki feimnar við lækna, sem ég var lengi vel. Ég skammaðist mín ekki fyrir þetta en mér finnst leitt að mörgum konum finnist forhúðir ljótar, skrítnar eða asnalegar. En þú veist, ætli mörgum karlmönnum finnist ekki einhver hluti píkunnar falla í sömu flokka. Þetta venst allt saman.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024