fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Fókus

Andrea rokkamma er eldri en rokkið sjálft: „Músíkin er eins og mannkynssaga“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 15. apríl 2019 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Andrea Jónsdóttir fagnaði sjötugsafmæli 7. apríl og hélt upp á áfangann á sínu öðru heimili, skemmtistaðnum Dillon, þar sem troðfullt var út úr dyrum tvö kvöld í röð af vinum og ættingjum. Andrea er öllum kunn sem fylgjast með tónlist, en sjálf hefur hún hrærst í bransanum í næstum 50 ár, sem plötusnúður og útvarpsmaður.

Blaðamaður settist niður með Andreu yfir öli á skemmtistaðnum Dillon og ræddi lífið og tilveruna, bernskuárin á Selfossi, Bítlana og bransann, plan B og barnabörnin.

„Ég er fædd og uppalin á Selfossi, það var rosalega fínt og ég átti frábæra foreldra, systkini, afa og ömmu,“ segir Andrea, sem er fædd í húsinu Núpi, sem í dag hýsir Kaffi Krús. Hún var 1–2 mínútur að hlaupa yfir í skólann og því upplagt þar sem stutt var að fara að bjóða vinunum heim í morgunkaffi, enda var aldrei amast við að krakkar kæmu inn á heimilið að leika sér að hennar sögn. „Það voru alltaf allir velkomnir og alltaf til nóg af mat, við hefðum lifað af kjarnorkustyrjöld með kakkalökkunum.“

Foreldrar Andreu eru báðir látnir, faðir hennar lést árið 1999, árið sem hann hefði orðið áttræður, og móðir hennar fimm árum seinna, árið sem hún hefði orðið 85 ára. „Þau hefðu bæði orðið 100 ára í ár og við ætlum að halda upp á það í sumar á Kaffi Krús.“

Faðir Andreu var lengst af mjólkurbílstjóri hjá Mjólkurbúi Flóamanna og móðir hennar var húsmóðir, sem vann alltaf líka á sumrin í kaupfélaginu á Selfossi. „65 ára gömul vann hún í pöntunardeildinni þegar tölvurnar komu og þá lærði hún fyrst á tölvu. Mamma er eina manneskjan sem ég veit um sem hefur farið til yfirmanns síns og sagst ekki nenna að vinna allan daginn, þar sem hún gæti klárað vinnuna á hálfum degi. Hún vildi frekar fá hálft kaup fyrir hálfan dag, en hanga í vinnunni allan daginn,“ segir Andrea. „Mamma væri kölluð pínulítið ofvirk í dag. Hún saumaði á okkur föt og vakti yfir því. Hún er myndarlegasta húsmóðir sem ég hef kynnst á ævinni og nágrannakona okkar sagði: „Það er svo fínt hjá henni Sveinu að það er hægt að éta af gólfinu.“ Mamma var rosalega dugleg og því miður erfði ég ekki mikið af því. Ég er meira í pabbaætt, fólk sem vill frekar liggja heima og lesa, það má samt ekki misskilja mig þannig að pabbi hafi verið latur.“

Byrjuð í bransanum Andrea fyrir örfáum árum.

Timburflokkun fyrsta launaða starfið

Þrátt fyrir að hafa ekki erft drifkraft móður sinnar að eigin sögn fór Andrea sem barn í sveit og byrjaði síðan ung að vinna í timbri, sem var fyrsta vinnan sem hún fékk greitt fyrir.

„Kaupfélagið sá um að flytja inn timbur, sem síðan þurfti að bera í stafla og umstafla og flokka. Mér fannst þetta mjög skemmtileg vinna, ég hef alltaf verið frekar hraust og sterk.“

Eftir landsprófið á Selfossi, dró frelsisþráin Andreu til Reykjavíkur, þrátt fyrir að flestir skólafélagar hennar hefðu farið á Laugarvatn. „Mig langaði til Reykjavíkur svo ég gæti farið í bíó og hitt og þetta,“ segir Andrea, sem leigði herbergi hjá frænku sinni, Jónínu Benediktsdóttur, og manni hennar. „Jónína og ég erum bræðradætur. Hún var gift Svavari Gestssyni, sem síðar varð blaðamaður og alþingismaður, mér fannst þau miklu eldri en ég, en raunin er sú að þau eru bara um fimm árum eldri.“

Með skólanum vann Andrea á sumrin og í jólafríum, enda nutu þeir sem fengu vinnu um jól þeirrar umbunar að fá að fara fyrr í jólafrí. „Ég vann í kjötbúðinni, fiskbúðinni og á pósthúsinu. Um jólin fékk ég alltaf vinnu í póstinum, það var rosaleg vertíð og mikil uppgrip, enda sendu allir jólakort á þeim tíma. Á aðfangadag skiptum við starfsstúlkurnar síðan á milli okkar þeim kortum sem eftir voru og bárum út á leiðinni heim, stundum var heilmikill snjór og útburðurinn hálfgert vesen, en öll kort áttu að komast til skila fyrir jól.

Ég er svo heppin að hafa aldrei verið útjaskað í vinnu, ég hef alltaf verið heppin, lent í fínni vinnu og með frábæru fólki, þannig að ég er ekki útjöskuð líkamlega.“

Annað heimili Andrea á Dillon, sem má segja hennar annað heimili.

Í flugi með goðsögnum

Eftir stúdentspróf úr MR árið 1969 var Andrea tvístígandi um hvað hún vildi gera og fór að vinna í apótekinu á Selfossi, sem hún segir hafa verið frábæra lífsreynslu. Ævintýraþráin fékk hana og vin hennar til að skipuleggja ferð til London, „sem hann svo koksaði á, þannig að ég endaði á að fara ein.“

En Andrea gat þó ekki farið fyrr en 17. júní það ár, því þann 16. spilaði Led Zeppelin á tónleikum í Laugardalshöll. „Auðvitað voru þeir svo í flugvélinni og vinkona mín, Olga Clausen, sem er gift frænda mínum Gumma Ben, sem var í Mánum, var flugfreyja í fluginu. Það var líklega hún sem sá um að planta mér á milli þeirra félaga, Roberts Plant og Jimmys Page.“

Tvær goðsagnir Andrea ásamt Robert Plant.

Tónlistaráhuginn hófst snemma, mikið var hlustað á útvarpið á heimili Andreu og móðir hennar hafði gaman af léttum djassi, þar á meðal Ellu Fitzgerald. Eftir að plötuspilari afa hennar og ömmu bræddi úr sér, bað faðir Andreu sjómann um að koma heim með einn slíkan frá Noregi um 1964.

„Við systurnar vorum búnar að kaupa 2–3 Bítlaplötur áður en við eignuðust plötuspilarann. Fólk sem starfaði í útvarpinu vildi alltaf eitthvað nýtt og fyrir 1960 voru flugfreyjur oft fengnar til að kaupa plötur og koma með heim eða einhver annar sem var að koma frá útlöndum. Eftir að Bítlarnir komu þá varð svo mikil ásókn og eftirspurn að plötur tóku að berast til Íslands fljótlega, kannski mánuði, eftir að þær komu út,“ segir Andrea, sem tók snemma að sér að vera plötusnúður í partíum sem haldin voru á sumrin á Selfossi. „Þá mætti ég með spilarann og nokkrar plötur með, ég tók þetta bara að mér af því að mér fannst þetta þurfa að vera. Það verður að segjast með blessað ríkisútvarpið, sem er eitt besta útvarp í heimi, að þá var ekki mikið um tónlist fyrir ungt fólk um helgar, Lög unga fólksins voru í miðri viku, engin næturvakt eða slíkt.“

Þegar Andrea hóf nám við enskudeild Háskóla Íslands hélt spilamennskan áfram, í húsnæði sem deildin átti við hlið Ráðherrabústaðarins við Tjarnargötu: „Þar var haldið partí við öll tilefni, hvort sem það var íslenskt eða enskt, þetta var mjög partíglatt fólk.“

Þjóðviljinn prófarkalesinn fram á síðasta dag

„Ég hætti í háskólanum af því að ég var ekki alveg að fíla að vera á kafi í lærdómi,“ segir Andrea, sem árið 1972 fékk boð um tímabundið starf sem prófarkalesari á Þjóðviljanum. „Það var Svavar, sem ég hafði leigt hjá, sem benti á mig, þar sem hann vissi að ég væri góð í íslensku sem ég er enn. Prófarkalesarinn Elías Mar þurfti að læra nýja aðferð þar sem verið var að breyta út blýi í offsetprentun, þannig að ég var prófarkalesari í blýi og lærði að lesa fyrirsagnir á forsíðunni aftur á bak. Svo kom í ljós að tvo prófarkalesara þurfti í prenti, þannig að ég var fastráðin og var í þessu næstum þar til Þjóðviljinn fór á hausinn um áratug síðar.“

Sama ár og hún hóf starf á Þjóðviljanum byrjaði Andrea í útvarpinu með Pétri Steingrímssyni, sem sá um vikulegan þátt síðdegis á laugardögum, Á nótum æskunnar. „Í útvarpi er maður líka plötusnúður, þótt maður tali þar á milli laga.“

Billy slær botninn í ballið Andrea endar öll kvöld á Dillon með því að spila lagið Piano Man með Billy Joel. „Allir dansa saman í hring, og sumir mæta bara fyrir dansinn og halda svo áfram niður í miðbæ á frekara svall.“

Á réttri hillu á Dillon í tvo áratugi

Fyrir tæpum 20 árum, í desember 1999, byrjaði Andrea síðan sem plötusnúður á Dillon við Laugaveg. „Vinkona mín var að vinna á barnum á þeim tíma, og tónlistin var af fimm diska spilara sem rúllaði bara og barþjónarnir voru ekkert að pæla í. Ég fór að skipta mér af, setja nýja diska í og svona, það var einhver sem var að fíla þetta og ég var ráðin til að spila. Fyrst á sunnudagskvöldum, sem þótti fínt, þannig að ég fór að vera líka á laugardagskvöldum. Svo lögðust sunnudagskvöldin af, þannig að ég hef verið föstudags- og laugardagskvöld hér í næstum 20 ár,“ segir Andrea.

Andrea spilar nú hjá fjórðu eigendunum frá því hún byrjaði. Þrátt fyrir eigendaskipti í gegnum tíðina stendur hún vaktina allar helgar frá miðnætti til klukkan þrjú. „Nema ef ég er að spila í einhverri veislu,“ segir Andrea, sem er á sinni réttu hillu á Dillon, bókstaflega, því eins og kunnugir vita þá situr hún á smíðaðri hillu við barborðið meðan hún spilar, með græjurnar og diskana sér við hlið.

Tekur þú þér einhvern tímann frí?

„Nei, á veturna keyri ég barnabörnin í skólann og slíkt, en á sumrin er ég bara hér. Ég segi; ég er alltaf að vinna og ég er alltaf í fríi. Þetta er yndisleg vinna og tekjulind.“

Andrea var plötusnúður á þungarokkshátíðinni Eistnaflugi í Neskaupstað í fyrra: „Ég hefði átt að vera búin að fara oftar þangað. Ég er mjög gamaldags, ég er með alla diskana, sem er kannski ekki vesenið, en Dillon er minn staður og stundum er ég föst hér út af samviskunni, en samt ekki samviskunni af því þau bara gera allt fyrir mig hér eins og að halda þetta frábæra afmæli fyrir mig. En ef ég kemst annað þá geri ég það.“

Á réttri hillu Andrea á Dillon. (Mynd: Arnar Páll Hauksson)

Amma rokk sem er eldri en rokkið sjálft

Andrea er aldrei kölluð annað en rokkamma  og aðspurð hver fann upp það viðurnefni segist Andrea ekki hafa hugmynd um það. „Ég upphugsaði ekki þann titil, ég hef ekki hugmynd um hver byrjaði með hann upphaflega. Ég get verið amma flestra sem eru hérna í dag, jafnvel langamma. Viðurnefnið gæti verið tengt útvarpinu af því að ég var þar á tímabili með rokkþætti, fimm kvöld vikunnar, en ég hlusta á miklu fleira en það, svo er spurning hvað er kallað rokk,“ segir Andrea.

„Mér finnst bara öll flott tónlist alveg frábær hvort sem hún heitir popp eða rokk eða djass, ég er hins vegar ekki vel að mér í klassík. En ég hlusta á alla flóruna. Það er ekki endilega hægt að bera saman tónlist, það er fátt í dag sem er illa gert og margt er alveg framúrskarandi vel gert. Það er alls konar mælikvarði, þetta er ekki eins og að gefa rétt fyrir stærðfræði,“ segir Andrea, sem alla föstudaga sér um að ræða um plötu vikunnar á Rás 1, ásamt Arnari Eggerti Thoroddssyni. „Maður setur sig inn í heim viðkomandi tónlistarmanns og dæmir út frá því. Stundum er verri plata kannski skemmtilegri en betri plata, plata getur líka haft meiri tilgang en önnur sem er fullkomnari hvað tónlistina varðar.“

Þar sem hún hefur hrærst í tónlist allan þennan tíma, er við hæfi að spyrja hvort hún hafi sjálf sungið eða leikið á hljóðfæri? „Nei, ég syng bara með. Ég hef einu sinni stigið á svið og sungið, það var hér á Dillon í afmæli Stellu Hauks, vinkonu minnar, sem var ákveðin í að verða ekki sextug og hélt af því tilefni tvenna tónleika, aðra þegar hún var 59 ára og þá seinni þegar hún varð sextug. Það voru allir búnir að syngja lag nema ég og erfiðasta lagið var eftir: Mama Loo, sem er ofsalega langt lag með miklum texta. Ég fékk þau ummæli að ég hefði lúkkað vel með mækinn. Sem betur fer var þetta ekki tekið upp,“ segir Andrea og hlær, og segist engu að síður alveg halda lagi. „Þetta er eitthvað sem maður getur æft sig í, en ég hef ekki haft metnað í það.“

Rokkamma Goðsögn í tónlistarbransanum hér heima.

Músíkin eins og mannkynssaga

„Ég hef áhuga á músík og tónlistarfólki, þetta er eins og mannkynssaga að miklu leyti, stórmerkilegt fólk og margir textarnir alveg óborganlegir, hugsaðu þér hvað eru margir textar sem er búið að búa til sem eru um alls konar.“

Aðspurð hver hennar uppáhaldstónlistarmaður sé, stendur ekki á svari. „Bítlarnir eru besta hljómsveit í heimi. Mér fannst þá í fyrsta sinn einhver koma fram sem var ekki að bugta sig og beygja fyrir einhverju yfirvaldi. Þeir sögðu sína skoðun. Fyrsta efnið sem þeir koma með tengist sjötta áratugnum og rokki, svo byrja þeir að semja sjálfir og verða á stuttum tíma rosalega frumlegir. Að hlusta á plöturnar þeirra sýnir hvað varð mikil þróun og maður sér hvað þeir voru góðir með því að hlusta á upptökur með þeim.

Bítlarnir bestir Andrea árið 2004 með dagatal bestu hljómsveitar í heimi.

Mér finnst svo gaman þegar koma hreyfingar sem virka og hafa virkilega áhrif á samtímann og umhverfið, á hippatímabilinu þá var mjög mikil fegurðardýrkun, svo kom pönkið og gerði ófríðleikann mjög töff og kúl. Pönkararnir voru líka hippar, það verður að hræra upp til að allt falli ekki saman og allir segi já og amen við öllu. Það er ennþá fólk sem segir að popparar eigi ekki að syngja um pólitík. Hvaða hroki er það að segja að popparar eigi ekki að skipta sér af pólitík? Sumir eru jú bara að syngja um ást og hamingju og gera það á fallegan eða frumlegan hátt,“ segir Andrea. „Ný kynslóð er svo komin, sem byrjaði hjá okkur með Sigur Rós, það er fólk sem er með umhverfisvernd að leiðarljósi. Ekki muna Sigur Rós bara út af skattaskýrslu, þeir lögðu mikið í umhverfisvernd og ég held ekki að Jónsi sitji sjálfur og geri skattaskýrsluna sína.“

Aðspurð hverjir séu uppáhalds í íslenska tónlistarheiminum, segist Andrea geta talið upp marga. „Ég er oft feimin við að nefna íslenskt, þá skilur maður eitthvað út undan; Hljómar, Trúbrot, Ragga Gísla, Alvia Islandia, Jói G., sem er reyndar látinn, Mánar frá Selfossi, Stuðmenn, hver nefnir ekki þá hljómsveit, Emilíana Torrini, Valdimar, Elly Vilhjálms, Dimma, Sólstafir, Sigur Rós, Engilbert Jensen hefði átt að verða heimsfrægur með sína einstöku rödd og Björgvin Halldórsson, þú getur ekki hlustað á raddfegurri mann. Það er eitthvað að þér ef þú þekkir hann ekki, Krummi, sonur hans, er að gera frábæra hluti, það er svo gaman þegar þetta erfist, það er ekki sjálfgefið.“

Í útvarpinu Andrea á Rás 2 árið 2013 með plötu Sigur Rósar, Kveikur.

Kynhneigðin aldrei tilkynnt sérstaklega

Andrea er samkynhneigð og segist aldrei hafa tilkynnt það sérstaklega með því að koma út úr skápnum. „Á sínum tíma vildi ég ekki segja frá því út af dóttur minni, en ég hef heldur ekki þurft að lifa þannig að ég hafi þurft að skilgreina mig. Ég hef aldrei þurft að skipta mínum heimi, sem ég er þakklát fyrir, og ég er líka þakklát þeim sem þurftu að gera það og ruddu brautina fyrir aðra,“ segir Andrea og bætir við að kynhneigð og skilgreining á henni sé flókin í dag: „En samt ekki jafnflókin og undirflokkar rokksins. Fyrir löngu ákvað ég að ég ætlaði ekki að taka þátt í því, ég ætlaði ekki að vita hvað „black metal“ eða „green metal“ væri. Þetta er bara rokk og annaðhvort er það gott eða ekki. Kannski er það eins með kynvitundina og gott að ýta á okkur með það einu sinni enn að vera bara frjálslyndur og vera ekkert að pæla í þessu. Það er alveg númer eitt að fólk sé frjálslynt og umburðarlynt.“

Andrea á eina dóttur, Laufeyju, sem er fædd 1974, og þrjú barnabörn, sem verða 10, 18 og 23 ára á árinu. Auk þess á hún uppeldissoninn Áka, sem hún eignaðist árið 1985. „Hann er að gifta sig í sumar og ég fer fyrst til Bandaríkjanna í forbrúðkaup, þar sem hann býr og starfar sem doktor í sjávarlíffræði. Síðan koma þau hjónin hingað, konan hans tilvonandi er frábær stúlka af sænskum ættum sem er líklega ástæðan fyrir að hún er opin fyrir því að vera á Íslandi.

Ég er svo sérvitur, ég vil ekki að einhver segi mér að þessi bunki megi ekki vera þarna. Ég vil hoppa í kringum mína bunka ein,“ svarar Andrea aðspurð hvort hún sjálf eigi maka. „Ég hef verið í sambúð tvisvar sinnum, sem er bara alveg fínt, en í dag er ég samt aldrei ein, barnabörnin eru mikið hjá mér. Yngri stelpan stakk upp á því um daginn að ég fengi mér kött, þar sem ég væri alltaf ein, og ég svaraði því til að ég væri ekkert ein, hún væri alltaf hérna!

Ástæðan þess að ég varð plötusnúður að fullri atvinnu á sínum tíma hér á Dillon er að þegar ég varð fimmtug þá var ég vinnulítil á tímabili. Mér var sagt upp í útvarpinu, þeir vildu breyta mér úr föstum starfsmanni í „freelance“ og ég varð mjög móðguð yfir því. Eftir stutt stopp á Bylgjunni og Stjörnunni hætti ég að vera móðguð og fór aftur á RÚV sem „freelance.“ Eftir á að hyggja þá er það frábær aðlögun að því að verða eldri borgari. Þar sem ég er ekki fastráðin þarf ég ekki að hætta vegna aldurs og ég hef enn ekki verið rekin. Auðvitað kemur að því að ég verð rekin frá RÚV og þegar það verður mun ég ekkert verða móðguð yfir því.“

Töffari Andrea hefur verið einstakur töffari í marga áratugi.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Allt fór á hliðina um helgina þegar Lína Birgitta var sökuð um að herma eftir íslensku merki: „Það sem ég ætla að gera núna er að sýna ykkur staðreyndir“

Allt fór á hliðina um helgina þegar Lína Birgitta var sökuð um að herma eftir íslensku merki: „Það sem ég ætla að gera núna er að sýna ykkur staðreyndir“
Fókus
Í gær

„Ég hef séð ótrúlegan árangur af þessum meðferðum“

„Ég hef séð ótrúlegan árangur af þessum meðferðum“
Fókus
Í gær

James Van Der Beek greindur með ristilkrabbamein

James Van Der Beek greindur með ristilkrabbamein
Fókus
Fyrir 3 dögum

Erfitt að starfa við eitthvað sem býr fólk undir að brjóta lögin – „Leiðinlegt að þurfa að vera í einhvers konar feluleik“

Erfitt að starfa við eitthvað sem býr fólk undir að brjóta lögin – „Leiðinlegt að þurfa að vera í einhvers konar feluleik“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Svona er einfalt mataræði og morgunmatur Victoriu Beckham 

Svona er einfalt mataræði og morgunmatur Victoriu Beckham 
Fókus
Fyrir 4 dögum

Gunnar var hársbreidd frá því að drepa fimm manns á föstudaginn – „Sjálfur í sjokki og fullur iðrunar“

Gunnar var hársbreidd frá því að drepa fimm manns á föstudaginn – „Sjálfur í sjokki og fullur iðrunar“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kylie Jenner kviknakin – Fékk lof frá leikkonunni

Kylie Jenner kviknakin – Fékk lof frá leikkonunni