fbpx
Laugardagur 11.janúar 2025
Fókus

„Ekki mikil eftirspurn eftir fótfúnum mönnum með athyglisbrest og lélegt grunnskólapróf“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 1. apríl 2019 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigurður Sólmundarson varð landsþekktur sem Costco gaurinn vegna myndbanda sem hann birti á Facebook. Eftir skelfilegt bílslys stuttu fyrir jólin 2018 stendur hann á krossgötum hvað atvinnumál varðar. Hann segist vera athyglissjúkur með eindæmum, en líður þó best einum með sjálfum sér. Blaðamaður settist niður með Sigurði yfir kjötbollum í Ikea og ræddi lífið og tilveruna og fór síðan jómfrúarferð sína í Costco undir dyggri handleiðslu Sigga.

„Ég er mjög fjölhæfur,“ segir Siggi þegar blaðamaður spyr hvort ekki sé ráð að spjalla saman yfir snæðingi. Hann er 41 árs gamall og hefur alla sína tíð unnið við múrverk, en gerir það ekki í dag af augljósum ástæðum, því hann er enn að ná sér eftir slysið í desember.

Hann er fæddur og uppalinn í Hveragerði og flutti í bæinn tíu ára. Þar fór hann í Langholtsskóla í tvö ár, flutti síðan í Grafarvog og kláraði grunnskólann þar. „Eftir það fór ég í Skógaskóla undir Eyjafjöllum og var þar í tvö ár, það var mjög gaman. Svo fór ég eina önn í FSU og svo var bara minni skólagöngu lokið. Svo tók ég knattspyrnuþjálfaranámskeið og svoleiðis spillerí,“ segir Siggi. Hann segir að bóklegt nám hafi margoft komið upp í huga hans, „en það var einhvern veginn allt annað mikilvægara á þessum tíma. Maður þoldi ekki að vera blankur og vildi vinna og svona. Algjör vitleysa sko.“

Hann segist mjög harður á því að börn hans klári nám og sjálfan hefur hann aldrei langað jafn mikið í skóla eins og núna. Siggi hefur starfað við múrverkið í tuttugu ár. „Ég kláraði aldrei skólann, en alltaf fundist þetta gaman einhvern veginn og henta mér, at í þessu inni á milli og já, bara skemmtilegt, mjög skemmtilegt.

Núna er maður á pínu krossgötum og sennilega ekki að fara að múra aftur. Með enga menntun á bak við sig og lélegt grunnskólapróf, þá fer maður að hugsa upp á nýtt hvort sé ekki sniðugt að ná sér í einhver réttindi. Það er ekki mikil eftirspurn eftir fótfúnum mönnum með athyglisbrest og lélegt grunnskólapróf.“

„Og miðaldra,“ bætir blaðamaður við. „Já, og miðaldra,“ segir Siggi og hlær, „þú sérð þetta ekki í atvinnuauglýsingum. Ég er opinn fyrir öllu.“

Ikea-ferð Siggi mundi eftir að mæta með handskrifaðan innkaupamiða.

Mjög gáfulegt að leggja barneignir á eina góða konu

Siggi á þrjú börn, 14 ára dóttur og tvo syni, 11 og 17 ára, og segist búa farsællega einhleypur. Eldri sonurinn býr hjá honum og dóttirin flytur til hans þegar hún hefur nám við framhaldsskóla. „Þau eru hjá mér allar helgar og í öllum fríum. Ég lagði þetta allt á eina yndislega konu,“ segir hann aðspurður. „Við erum í mjög góðu sambandi og alltaf verið gott samkomulag. Það er mjög sniðugt að leggja þetta á eina konu og eina góða konu það er mjög gáfulegt og sennilega það gáfulegasta sem ég hef gert í lífinu.“

Sjálfur er hann alinn upp í stórum bræðrahópi og er næstelstur. „Það hefði verið mjög ósanngjarnt að leggja það á kvenmann að fæðast inn í þessa fjölskyldu, kolvitlausir allir,“ segir hann, en dregur svo í land. „Nei nei við hefðum allir viljað systur. Það var alltaf gaman hjá okkur og okkur samdi yfirleitt nokkuð vel og höfum alltaf verið mjög nánir og passað vel upp á hvorn annan. Maður vann alveg í bræðralottóinu.“

Fór í drasl eftir bílslys á aðventu

„Þetta var einn af þessum dögum þegar maður á ekki að fara fram úr,“ segir Siggi um 12. desember 2018. „Ég hætti snemma í vinnunni og var að keyra heim þegar ég datt bara út, einhver sauðsháttur. Það kom bíll á móti og ég sveigði á minn vegarhelming en þá kom hinn bíllinn í hliðina á mér. Maður fór í drasl en það er allt að koma. Ég man ekkert rosalega vel eftir þessu, hausinn er magnaður, maður blokkar út rest. Ung stelpa var í hinum bílnum, hún slapp ótrúlega vel, bara nánast alveg. Sem betur fer, það hefði verið töluvert erfiðara að lifa með þessu hefði það ekki verið.“

Siggi braut olnboga, úlnliði, læri og ökkla. „Þetta fór eiginlega allt í spað, nema höndin slapp vel. Ég er allavega orðinn góður í henni. Hitt fór helvíti illa og það tekur tíma að jafna sig á því, en það kemur vonandi að mestu leyti til baka,“ segir Siggi sem var á spítala í fimm vikur og í hjólastól í rúma tvo mánuði. „Það var ekki gaman, það var rosa munur að komast á hækjur.

Ég var með góða æfingu, þar sem ég slasaði mig illa árið 2011 og þá var ég á hækjum í meira og minna ár. Ég fékk vinnuvél á löppina á mér, braut allt í hnénu og var í stöðugum aðgerðum þá, þannig að ég er kominn með gott safn af nöglum. Mér telst til að ég hafi verið með átján, svo var tekin ein og hálf skrúfa, þannig að ég er með sextán og hálfa, held ég, í löppunum. Það er títaníum í þessu og það pípir ekki, það er út af einhverju öðru sem pípir á mig.“

Siggi var með lágmarkstryggingar þegar hann lenti í slysinu, bara þessar dæmigerðu slysatryggingar. „Maður verður ekki ríkur af þessu, það er alveg á hreinu. Ég hefði tryggt mig betur ef þetta hefði átt að bjarga fjárhagnum.“

Eftir slysið Siggi var á spítala í fimm vikur á aðventu 2018.

Landsþekktur sem Costco gaurinn

Siggi varð landsþekktur og fékk nafnbótina Costco gaurinn þegar myndband af honum í versluninni varð „viral“ á netinu. „Ég var í Amsterdam ásamt þremur vinum mínum þegar Costco var að opna, við vorum að fylgjast með á netinu og fannst það geðveikt fyndið hvað fólk var að missa sig yfir þessu og ég pantaði mér kort þarna úti. Svo þegar ég kom heim og fór að sækja kortið tók ég upp myndband sem átti að verða einkahúmor okkar á milli og setti það á Facebook. Það fór síðan á eitthvert flug og þá varð eiginlega ekki aftur snúið. Ég varð að halda þessum bolta á lofti því ég er náttúrlega  athyglissjúkur og þetta var auðveldasta athygli sem ég hef nokkurn tíma fengið, 100 þúsund áhorf á eitthvert myndband þetta var bara „no brainer“.“

Eftir nokkrar ferðir í Costco var Siggi orðinn uppiskroppa með pláss heima hjá sér. „Ég var með 200 rúllur af klósettpappír og tíu lítra af súrsætri sósu og eitthvað svona sem mig vantaði bara ekki neitt, þannig að ég hef ekki farið í Costco lengi. Mér fannst mig vanta þetta, en auðvitað vantaði mig ekkert af þessu, en ég hef til dæmis ekki keypt klósettpappír núna í ár.“

Hann gerði sér stundum ferð í Costco bara til að geta tekið upp myndband, en hann hefur ekki sett inn slíkt síðan í fyrrasumar, enda bæði afsakaður vegna slyssins og einfaldlega ekki átt erindi þangað að eigin sögn. „Einhleypur maður þarf ekki að fara nema svona tvisvar á ári.“

Þekktur sem Costco gaurinn Siggi mættur aftur í verslunina eftir nokkurra mánaða fjarveru.

Athyglissjúkur einfari

Siggi hefur fundið athyglissýkinni farveg á fleiri stöðum en sem Costco gaurinn. Hann var í Útvarp Suðurlandi með morgunþátt fyrr á árum og segist hafa fengið góða útrás þar. Einnig var hann kominn á fullt með Leikfélagi Suðurlands þegar hann slasaðist og aðalhlutverk í sýningu sem gekk mjög vel meðan Siggi lá bataleguna. „Sem er leiðinlegt fyrir mig þar sem ég hélt að ég væri ómissandi,“ segir Siggi, sem lék áður aðalhlutverkið í Naktir í náttúrunni sem gekk fyrir fullu húsi þrjátíu sýningar, fyllti Þjóðleikhúsið og var valin besta áhugamannasýningin. Í henni kom Siggi nakinn fram, allt fyrir frægðina og athyglissýkina.

„Þar fékk maður aldeilis mat fyrir athyglissýkina. Ég held að þetta sé eitthvað í karakternum. Við þurftum ekki að slást um athygli bræðurnir,“ segir Siggi og bætir við að honum finnist best að vera einn. „Ég er soldið tvöfaldur að því leytinu, athyglissjúkur einfari.“

Leikfélagið var fyrsta félagsstarfið sem Siggi tók sér fyrir hendur og kom það mörgum á óvart. „Ég hef forðast félagsstörf eins og heitan eldinn, sennilega af því að þar er oftast svona rammi og ég funkera illa innan hans. Ég er líka með bullandi athyglisbrest, algjör sveimhugi úti um allt og að þurfa að mæta alltaf klukkan þetta einhvers staðar, það hentar mér ekki. Að vera lengi á sama vinnustað er helvíti fyrir mér og ég verð leiður á öllu undir eins. Maður er svolítið klofinn persónuleiki.“

Siggi gekk í leikfélagið á þeim forsendum að leikritið yrði aðeins sýnt tíu sinnum eða svo. „Það kom mér á óvart með leikritið hvað mér fannst gaman. Ég er svolítið svekktur yfir að hafa ekki byrjað fyrr að leika, þetta er það alskemmtilegasta sem ég geri,“ segir Siggi, en segist of gamall fyrir leiklistarskóla, en hann muni klárlega leika meira í áhugamannaleikhúsi. Hann hefur tekið að sér veislustjórn, en ekki fundist það gaman. „Ég er með svolítið svartan húmor sem höfðar ekkert alltaf til meirihlutans, ég get ekki farið og skemmt einhvers staðar og sagt eitthvað sem mér finnst ekki fyndið og stundum sjokkerar maður fólk.“

Yngri bróðir Sigga, Sólmundur eða Sóli, hefur komið mikið fram sem uppistandari og hefur Siggi einnig gert eitthvað af því. „En ef þú hefur ekki virkilega gaman af því þá gerir þú það ekki sérstaklega vel. Sóli hefur virkilega gaman af þessu og hann er mjög latur þannig að það er þægilegt fyrir hann að vera í þessu þar sem þetta er ekki erfiðisvinna,“ segir Siggi og brosir stríðnislega. „Þetta er búið að vera markmið hjá honum svolítið lengi að vera skemmtikraftur og hann er með meðfædda hæfileika í þetta. Hann hefur alltaf verið góður að herma eftir og verið mjög fyndinn. Ég er svo sem talinn fyndinn en þetta hentar mér alls ekki.“

Blaðamaður spyr hvort leiðsögumaðurinn komi til greina og svarar Siggi að það myndi eflaust henta honum ágætlega. Hann segist þó ekki vanur að gera framtíðarplön, helst ekki til lengri tíma en næstu tveggja til þriggja daga. „Það hefur komið vel út, það gerist alltaf eitthvað óvænt og skemmtilegt, mér finnst það mjög gaman. Þegar mér er boðið í afmæli verð ég að setja áminningu í símann og láta hann pípa, ekki daginn áður heldur sama dag.“

Í áhugamannaleikhúsi Siggi er að eigin sögn athyglissjúkur einfari.

Tékkland hentugt fyrir kryppling eins og mig

Í sumar ætlar Siggi að fara til Tékklands og vera hjá vini sínum sem býr rétt fyrir utan Prag. „Það er ódýrara fyrir svona kryppling að lifa þar og bara að komast í hita. Ég er búinn að fara 6-7 sinnum, Prag er æðisleg borg. Einhvern tíma ætlaði ég í Eurotrip og byrja hjá vini mínum í nokkra daga, ég fór ekkert lengra. Það er svo geggjað að vera þarna, ég var bara hjá honum í þrjár vikur og fór svo heim. Konan hans er prófessor í loftslagsfræðum og vinnur í hálfu djobbi hér og hálfu þar og hann er bara meira og minna í Tékklandi á sumrin og hún þvælist um heiminn að mæla loftslag,“ segir Siggi og hlær.

„Eftir skilnaðinn og allt þetta andlega kjaftæði þá fór ég svolítið að ferðast og hef farið að meðaltali 4-5 sinnum á ári, oft til Tékklands og Þýskalands, ég fór til Grikklands í fyrra og ég hef farið á marga Liverpool leiki.“ Siggi vann einnig í Svíþjóð árin 2013 til 2014 og segist vel hafa getað hugsað sér að flytja þangað, en gat ekki hugsað sér að vera án barnanna sinna til lengri tíma. „Ég var ekki tilbúinn í það. En ég gæti vel hugsað mér að búa þar og gæti bara vel hugsað mér að búa erlendis og ég er viss um að ég mun gera það einhvern tíma þó maður sé voða mikill íslendingur í sér.“

Hann segir snobb ekki vera til í sér og vera vonlaus kapítalisti. „Ég og peningar eigum enga samleið. Peningar eru félagsverur þeir leita þangað sem þeir eru fyrir. Þeir koma ekki til mín þeim líkar ekki vel við að vera í mínum vasa þar verða þeir einmana. Ég hef alveg verið þannig að ég á til dæmis 200 þúsund og dettur svo í hug að fara út í 2 vikur og kem svo heim og á ekki skít en þetta bara reddast.

Það kom oft fyrir að maður þurfti að beita ótrúlegri útsjónarsemi til að lifa af mánuðinn. Það verður seint þannig að maður safni upp einhverjum sjóðum. Það er nógu verðugt markmið að skilja ekki eftir sig skuldir, það eru einu markmiðin sem ég set mér í lífinu að skilja ekki eftir mig skuldir og eiga fyrir jarðarförinni. Ég ætla ekki að láta börnin mín rífast um neitt.“

Líkamleg slys ekkert á við andlega erfiðleika

Fyrir nokkrum árum fór Siggi yfir um andlega og var lokaður inni á geðdeild að eigin ósk. Hann segist aldrei hafa verið þunglyndur, en fékk taugaáfall í apríl 2012, um þremur mánuðum eftir skilnað. „Ég var að vakna eftir þrettán mánaða samband og vissi ekkert hver ég var og það var ekkert bjart framundan. Ég er nú mjög bjartsýnn maður að eðlisfari, en þarna var ég kominn á ystu brún og sá enga leið út nema þú veist,“ segir Siggi og á þar við sjálfsvíg, þótt hann nefni orðið ekki, „en sem betur fer gerði ég það ekki, heldur fór og lét leggja mig inn, það var ekkert annað í boði.

Ég rankaði við mér á síðustu stundu, eiginlega, það var mjög gott, fór í viðtöl og meðferðir og fékk ákveðin verkfæri til að takast á við kvíða og slíkt. Ég hef ekki fundið fyrir þessum einkennum síðan. Þetta kom mér algjörlega í opna skjöldu, þetta var svolítið úr mínum karakter og segir manni að það geta allir lent í þessu.“

Siggi hefur lent í tveimur alvarlegum slysum og segir þau ekkert við hliðina á andlega áfallinu. „Að brjóta í sér beinin er hégómi við hliðina á því að glíma við djöfla í hausnum á sér.“ Hann segir mikilvægt að horfa á andleg veikindi alveg upp á nýtt: „Þetta kostar ekkert smá mörg mannslíf á hverju ári. Og ef þú kemst inn á geðdeild þá er þér hent út daginn eftir eins og með mig, ég hefði ekki þurft að vera lengur, en það eru örugglega aðrir sem eru sendir út of snemma. Ég held að það sé of algengt að fólk fái ekki viðeigandi hjálp.

Það verður að fara að stokka upp í þessum málaflokki, þetta er skelfilegt. Ef það myndu 35 karlmenn lenda í bílslysum á hverju ári, þá yrði eitthvað gert, það yrði stofnuð nefnd og fleira. Það er allt of mikið vesen að leita sér hjálpar, ég varð hreinlega að segja að ég væri að fara að drepa mig til að fá að komast inn á geðdeild. Ég varð að láta loka mig inni, það var það sem var,“ svarar hann aðspurður hvort að viðtalsmeðferðir hefðu ekki nægt. „Þetta var það alvarlegt, það var svona þriggja mánaða aðdragandi að þessu, ég var steinhættur að sofa og ég fann að ég varð að fara inn á geðdeild.“

Blaðamaður spyr hvort andlegir erfiðleikar hafi aftur látið á sér kræla þegar hann lenti í bílslysinu í fyrra. „Ég var svo glaður að vera á lífi að ég leyfði mér ekki að hleypa neikvæðum hugsunum inn. Auðvitað er maður oft neikvæður og fúll, en ef maður leyfir því að taka yfirhöndina þá geta bara hræðilegir hlutir gerst. Andlegir sjúkdómar eru miklu, miklu verri en einhver beinbrot, ég tala bara af eigin reynslu um það. Þegar þú ert búinn að kynnast því að vera svona í hausnum, það er sársauki sem er ekki hægt að lýsa, það verður allt svo lítilfjörlegt við að lenda í slíku.“

Siggi segir að það hafi hjálpað honum mikið í bataferlinu að hann hann fékk að vera með börnin sín. „Ég var mjög mikið með þau á eftir og það hjálpaði mér mjög mikið.

Ég hefði ekki viljað missa af andlegu erfiðleikunum, það er svo skýtið þar sem þetta var erfiðasti tími lífs míns. Ég hef aldrei þroskast jafn mikið á stuttum tíma eins og þá, ég hefði aldrei sagt það þá, en geri það í dag þótt þetta hafi verið ógeðslegur tími. Sumir ná sér aldrei af svona, og verða hreinlega öryrkjar, ég hef fullan skilning á því. Ég var bara heppinn, það var ekkert öðruvísi.“

Blaðamaður og Siggi eru sammála um að minnka þurfi fordóma gagnvart andlegum sjúkdómum, þar sem margir veigri sér við að leita hjálpar vegna fordóma. „Þetta verður aldrei 100 prósent leyst, en það er klárlega hægt að gera miklu miklu betur, hvað heldur þú að það myndi spara ríkissjóði mikla peninga að laga þetta. Þetta er allt saman skóli ef maður tekur því rétt og setur sig ekki of mikið í fórnarlambsgírinn. Það hefur aldrei neitt slæmt komið fyrir mig nema ég hafi átt sök á því sjálfur, en svo á maður ekkert að kenna alltaf sjálfum sér um og berja sig. Þú munt alltaf finna utanaðkomandi aðstæður sem eru vondar fyrir þig og auðvitað kemur fyrir að einhver gerir þér eitthvað illt, en þú mátt ekki hjakka stöðugt í því. Hver er sinnar gæfu smiður, það er bara þannig.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Einbýlishús í Laugardalnum til sölu á 127 milljónir – Fullkomin eign fyrir tryllt garðpartý

Einbýlishús í Laugardalnum til sölu á 127 milljónir – Fullkomin eign fyrir tryllt garðpartý
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fundu leyniherbergi í 200 ára gömlu húsi sem einhver hafði lokað af

Fundu leyniherbergi í 200 ára gömlu húsi sem einhver hafði lokað af