Framlög hinna ýmsu þjóða til Eurovision eru frumflutt nánast daglega um þessar mundir og því breytist staða laga á lista Eurovision World yfir þau lönd sem eru líklegust til sigurs ansi ört.
Þegar að Hatari sigraði í Söngvakeppninni með lagið Hatrið mun sigra skaust Ísland upp í fjórða sæti á listanum og sat þar þangað til lagið Replay með Tömtu frá Kýpur var frumflutt. Þá hrifsaði Kýpur til sín fjórða sætinu og Ísland sat í því fimmta.
Nú hefur hins vegar hinn hollenski Duncan Laurence með lagið Arcade skotið sér í þriðja sætið sem Ítalinn Mahmood með lagið Soldi vermdi. Þetta hefur ruglað toppbaráttunni allsvakalega og ýtt Hatara niður í sjötta sætið.
Það breytist hins vegar lítið á toppnum. Í fyrsta sæti trónir Rússinn Sergey Lazarev, þó lag hans hafi ekki verið afhjúpað, og Svíar eru í öðru sæti þó þeir hafi hvorki valið sér flytjanda né lag.