fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fókus

Hrekja allan „rógburð“ um meint barnaníð Michael Jackson: „Ég vona að þessir drengir geti sofið með hreina samvisku“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Fimmtudaginn 7. mars 2019 22:00

Robson, Jackson og Safechuck eru aðalpersónurnar í Leaving Neverland.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heimildarmyndin Leaving Neverland var sýnd á sjónvarpsstöðinni HBO síðustu helgi og verður sýnd á RÚV í næstu viku. Myndin var frumsýnd á Sundance-kvikmyndahátíðinni í byrjun þessa árs, en í henni fara tveir menn, Wade Robson og James Safechuck, yfir það hvernig poppkóngurinn Michael Jackson misnotaði þá sem börn.

Það sem kemur fram i heimildarmyndinni hefur vakið óhug. Myndinni er skipt í tvo, tveggja klukkustunda langa hluta, og í fyrri hlutanum er farið ítarlega yfir leyniherbergi og viðvörunarkerfi á Neverland-búgarði Michaels, sem stuðlaði allt að því að hann gæti misnotað börn í friði og leynd.

Myndin hefur einnig haft áhrif á tónlistarsöguna. Þrjár kanadískar útvarpsstöðvar hafa tekið tónlist kóngsins úr spilun, sem og nokkrar útvarpsstöðvar á Norðurlöndum. Hér á landi hefur engin ákvörðun verið tekin þess efnis.

Michael og barnungur James.

Skrifaði falleg minningarorð um Jackson

Það eru hins vegar margir sem vilja hrekja það sem kemur fram í Leaving Neverland og segja framburð þeirra Wades og James ekkert nema rógburð. Dægurmálapenninn Joe Vogel skrifaði til að mynda langan pistil á vefsíðu Forbes í lok janúar þar sem hann hélt því fram að framburður Wades væri uppspuni frá A til Ö. Lagði hann fram sterkan rökstuðning fyrir máli sínu. Rifjar hann til dæmis upp að Wade hafi skrifað falleg minningarorð um Michael Jackson þegar hann lést árið 2009.

„Michael Jackson hefur breytt heiminum og lífi mínu að eilífu. Hann er ástæðan fyrir því að ég dansa, fyrir því að ég geri tónlist og ein meginástæða þess að ég trúi á góðmennsku mannkynsins. Hann hefur verið náinn vinur minn í tuttugu ár. Tónlistin hans, hreyfingar hans, orð hans um innblástur og hugrekki og skilyrðislaus ást hans lifir innra með mér að eilífu,“ skrifaði Wade við andlát tónlistarmannsins, en minningarorðin má lesa í heild sinni hér.

Wade var 27 ára þegar hann skrifaði minningarorðin en fjórum árum áður hafði hann vitnað við réttarhöld yfir poppkónginum, þar sem hann var sakaður um barnaníð. Þá sagði Wade að ekkert kynferðislegt hefði gerst á milli þeirra. Hann var eiðsvarinn, og ætti þá með réttu að vera kærður fyrir meinsæri.

Fékk taugaáfall

Hér er bréfið fræga þar sem Wade sækist eftir stöðu leikstjóra.

Þá fer Joe einnig aðeins yfir aðdraganda Leaving Neverland og það sem gerðist árin á undan í lífi Wades. Nefnir hann að Wade hafi sóst eftir því árið 2011 að leikstýra Cirque du Soleil-sýningu byggða á tónlist Michael Jackson. Í bréfi til meðstjórnanda dánarbús Michaels Jackson skrifar Wade að hann sárlangi að leikstýra sýningunni. Hann fékk hins vegar ekki stöðuna.

Ári síðar fékk Wade taugaáfall, en í viðtali við People sagðist hann hafa boðið upp nokkra muni frá Michael Jackson til að hafa efni á sálfræðiaðstoð. Í viðtalinu sagðist hann einnig hafa sagt sálfræðingnum sínum frá misnotkuninni af hálfu poppkóngsins árið 2012 og í kjölfarið brennt ýmsa hluti sem minntu hann á tónlistarmanninn. Sama ár segir Joe að Wade hafi leitað að útgefanda bókar þar sem hann færi yfir samband sitt og Michaels Jackson, með áherslu á misnotkunina. Enginn útgefandi vildi gefa út bókina. Því fór Wade þá leið að leggja fram málsókn upp á einn og hálfan milljarð dollara til höfuðs dánarbúi poppkóngsins árið 2013. Fjórum árum síðar var kærunni vísað frá. James Safechuck hefur látið hafa eftir sér að hann hafi fyrst gert sér grein fyrir að Michael Jackson misnotaði sig þegar að Wade kærði.

Michael Jackson og Wade.

Telur Joe þetta varpa ljósi á að um rógburð sé að ræða og peningaplokk. Enn fremur gagnrýnir hann hve einhliða Leaving Neverland sé og að engin vitni eða sannanir séu settar fram.

Dauður maður getur ekki varið sig

Leikarinn Corey Feldman, sem sjálfur hefur talað opinskátt um hvernig hann var misnotaður sem barn, þó ekki af Michael Jackson, tekur undir þessa gagnrýni á Twitter og segir heimildarmyndina alltof einlhiða.

„Ég á erfitt með að samþykkja að þetta er allt einhliða, þar sem dauður maður á ekki tækifæri á að verja sig og engar sannanir settar fram. Bara orð tveggja manna sem vörðu hann í réttarsal!“ skrifar Corey meðal annars á Twitter og bætir við að minningar sínar af Michael séu góðar.

„Minningar mínar um MJ eru mest megnis góðar, fyrir utan eitt rifrildi því hann óttaðist að ég myndi snúast gegn honum og búa til lygar. Ég gerði það aldrei. Ég myndi aldrei gera það! Ég vona að þessir drengir geti sofið með hreina samvisku.“

Corey Feldman á bara góðar minningar af poppkónginum.

Ekkert samband haft við dánarbúið

Howard Weitzman, einn af lögfræðingum dánarbús poppkóngsins, sendi sjónvarpsstöðinni HBO langt bréf í janúar. Í bréfinu, sem má lesa hér, kvartar hann yfir því að ekkert samband hafi verið haft við forsvarsmenn búsins á meðan á gerð myndarinnar stóð. Í bréfinu stendur enn fremur að forsvarsmenn búsins hafi strax vitað hvaða tveir menn þetta væru sem segðu sögu sína í myndinni þar sem þeir hefðu verið að „segja þessa gömlu, röngu tuggu svo árum skiptir.“ Er haldið fram að heimildarmyndin Leaving Neverland sé einungis tól sem James og Wade ætli sér að nota til að fá sínu fram í réttarsal.

Wade, Dan og James.

Í bréfinu er einnig gagnrýnt að Dan Reed, leikstjóri myndarinnar, hafi ekki viljað tala við neinn nema Wade, James og fjölskyldur þeirra. Dan hefur í raun verið spurður út í þetta í fjölmörgum viðtölum, þar sem í fyrri myndum hans hefur hann viðað að sér aragrúa viðmælenda. Hann hefur hins vegar snúið út úr þessum spurningum, til dæmis í viðtali við Rolling Stone.

„Ég gerði mér fljótt grein fyrir því að það sem gerðist fyrir James og Wade var ekki á allra vitorði,“ sagði Dan og bætti við að hann vildi skilja betur hvernig misnotkun í æsku hefur áhrif á fólk á fullorðinsárum.

Óttaðist barnagirnd

Eins og áður segir hafði Wade borið vitni um góðmennsku poppkóngsins þegar réttað var yfir honum árið 2005 vegna ásakana um barnaníð. James gerði slíkt hið sama og skrifaði undir skjal þar sem hann hafnaði því að Michael hefði misnotað sig. Hann var því einnig eiðsvarinn og framdi því meinsæri.

James steig síðan fram árið 2014, ári eftir Wade, og hélt því fram að Michael hefði misnotað sig. Í eiðsvarinni yfirlýsingu James, sem lesa má hér, eru hins vegar atriði sem ganga ekki upp. Þar segir að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því að um misnotkun var að ræða fyrr en árið 2013, þegar hann var 35 ára gamall. Hins vegar kemur einnig fram að hann hafi verið mjög stressaður árið 2005, þegar að réttarhöldin yfir Michael Jackson stóðu yfir, að upp kæmist um samband sitt við tónlistarmanninn. Þá segist hann einnig hafa óttast að vera haldinn barnagirnd þegar hann eignaðist son árið 2010.

Aðdáendur poppkóngsins mótmæla á Sundance-kvikmyndahátíðinni.

Samkvæmt bandarískum lögum er ekki hægt að fara í meiðyrðamál út af heimildarmyndinni þar sem Michael Jackson er dáinn. Öllum er því frjálst að sverta mannorð hans, eins og kemur fram í grein á vefsíðu The Hill. Það er því óljóst hverjir eftirmálar myndarinnar verða, en það má vægast sagt segja að áhorfstölurnar vestan hafs hafi ekki verið neitt til að hrópa húrra yfir. Aðeins tæplega 1,3 milljónir áhorfenda horfðu síðasta sunnudagskvöld, færri áhorfendur en horfðu á Real Housewives of Atlanta og Beachfront Bargain Hunt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“
Fókus
Í gær

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“