fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

Hin nýja Gveiga kemur öllum í opna skjöldu: „Þetta hljómar svo ólíkt mér að ég geri meira að segja sjálfa mig hissa“

Aníta Estíva Harðardóttir
Sunnudaginn 31. mars 2019 20:00

Guðrún Veiga. Mynd: Hanna/DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðrúnu Veigu Guðmundsdóttur kannast margir Íslendingar við en um árabil hefur hún skemmt tugþúsundum manna í gegnum Snapchat. Þar er hún gjarnan þekkt fyrir langdregnar lygar, háfleygar samræður og vandræðalegan sannleik.

Fólk tekur öllum mínum lífsstílsbreytingum með fyrirvara reyndar, enda margar ansi skammlífar að baki.“ / Ljósmynd: Hanna

Síðan Guðrún Veiga „opnaði“ heimili sitt fyrir fólki hefur það líklega ekki farið fram hjá neinum sem henni fylgja að hún er forfallinn nammigrís, mikil rauðvínsdrykkjukona og almenn sófakartafla sem gefur lítið fyrir hreyfingu af hvers kyns tagi. Fyrir ekki svo löngu fór Guðrún Veiga skyndilega að predika fyrir fylgjendum sínum mikilvægi þess að hreyfa sig og borða hollt. Þá eru margir sem eiga erfitt með að kaupa þessa nýju lífsstílsbreytingu hennar vegna fyrri sögu Guðrúnar og fékk blaðakona hana til þess að sitja fyrir svörum í eitt skipti fyrir öll.

Jæja Guðrún Veiga … hvað er að frétta?

„Ég er bara alveg eldspræk og skínandi sæl – í augnablikinu. Skipti reyndar skapi mjög hratt og gæti verið kúplandi klikkuð eftir korter.“

Nú hefur það borist í tal að þú sért farin að æfa crossfit?

„Það passar! Er að klára þriðja mánuðinn. Nei, ég hef aldrei stundað neina hreyfingu samfleytt í þrjá mánuði – ef þú varst að gæla við að spyrja að því næst. Þannig að þetta er nýtt persónulegt met.“

Og þér líkar við það?

„Hef alltaf fyrirlitið allar tegundir hreyfingar en crossfit er einfaldlega af öðrum heimi. Ég hef aldrei upplifað það áður að geta bara ekki beðið eftir að komast á æfingu eða grenja þegar ég næ ekki að fá pössun – og missi þar af leiðandi af æfingu. Það er meira að segja snarundarlegt að segja þetta upphátt. Þetta hljómar svo ólíkt mér að ég geri meira að segja sjálfa mig hissa.“

Er þetta ekki bara ein mjög langdregin lygi?

„Bara aldrei slíku vant er mér fúlasta alvara og að vinna með háheilagan sannleik!“

Líklega takmörk fyrir því hversu oft má svíkja vini sína

Hvernig kom þetta til?

„Hildur Karen, vinkona mín og hraustmenni með meiru, hefur um árabil reynt að sannfæra mig um ágæti þess að hreyfa sig. Og gert ítrekaðar tilraunir til þess að rífa mig upp úr sófanum. Sauðurinn sem ég er segi alltaf já og amen þegar hún leggur til að við prófum eitthvað, bara til að þagga niður í henni og fá hana til að hætta að áreita mig með þessum tillögum, en svo hætti ég alltaf við þegar á hólminn er komið. Ég mæti ekkert og skil hana eftir eina. Hún tók til dæmis grunnnámskeið í crossfit fyrir þremur árum. Ég var líka skráð og þóttist ætla með, þar til rétt fyrir mætingu. Þá forðaði ég mér. Hildur virðist seint ætla að gefast upp á mér af því að hún bað mig í fyrrahaust að koma í crossfit, þá í janúar á þessu ári. Ég sagði auðvitað já, en hugsaði svo „ég kem mér út úr þessu“. En síðan heyrðist mér á vinkonu minni að það væri ekki í boði að þessu sinni. Ég áttaði mig á að ef ég myndi ekki hypja með henni í þetta sinn þá yrðum við kannski ekkert vinkonur mikið lengur. Það eru líklega takmörk fyrir því hversu oft má svíkja vini sína. Þannig að ég ákvað að taka þetta bölvaða grunnnámskeið af hálfum huga og láta mig svo hverfa – hún gæti ekkert fett fingur út í það. En sú varð nú heldur betur ekki raunin.“

Ert þú bara byrjuð að mauka spínat og búin að henda kartöflusalatinu?

„Neih! Það verður seint. Ég lifi til þess að borða og mun aldrei verða týpan sem borðar til þess að lifa.“

Nú hefur þú lengi verið þekkt fyrir að borða pítsu, drekka vín og hlæja að fólkinu sem vaknar klukkan 6 til að mæta í ræktina … Kaupir fólk þetta?

„Ég borðaði pítsu í gær. Ætla að fá mér víntár á morgun. Er að borða súkkulaði á meðan við tölum saman. Ég fæ enn þá hroll yfir ræktarmætingum á morgnana. Ég er enn þá ég, en með nýjum áherslum, sem eiga sér stað á fokking kristilegum tíma. Fólk tekur öllum mínum lífsstílsbreytingum með fyrirvara reyndar, enda margar ansi skammlífar að baki.“

„Að finna fyrir bætingum, maður lifandi. Mig langar næstum að segja að það sé betra en rauðvín. En bara næstum.“ / Ljósmynd: Hanna

Margir halda að Guðrún selji Herbalife og sé dóttir Bubba Morthens

Nú hefur þú ansi oft gengið skrefinu lengra en margir með lygasögur. Jafnvel gleymt að segja fólki frá því að þú hafir verið að ljúga … Eru margir sem trúa þér ekki enn og halda að þú sért að ljúga?

„Það halda enn margir að ég selji Herbalife, sé ökukennari, skákmeistari, áhugakona um brunavarnir, hestakona, dóttir Bubba Morthens og systir Emilíönu Torrini. Þannig að já, það eru enn þó nokkrir sem halda að öll þessi crossfit-iðkun sé haugalygi. Og ég lái þeim það svo sem ekki.“

Svona ef þú ert ekki að ljúga, getur verið að þú hafir rekið hausinn í á meðan þú svafst?

„Ég ætla ekki að neita fyrir það að hafa kannski fengið höfuðhögg án þess að verða þess vör – enda breytingar búnar að eiga sér stað sem mig hefði aldrei órað fyrir.“

Hvernig má það vera að þú endist svona í þessu?

„Ég hef bara aldrei upplifað neitt í líkingu við andann í crossfit-salnum. Andrúmsloftið er svo hvetjandi og uppörvandi að þú fyllist áður óþekktri orku og metnaði. Langar bara að bæta þig, bæta og bæta. Og þú ert í eigin heimi að gera þitt, ekki með hugann við hvað og hvernig aðrir eru að gera þetta.“

Hvernig er líðanin?

„Veistu, hún er stórkostleg. Held þú ættir ekkert að hafa það eftir mér samt – svona ef litið er til þess að ég hef hæðst að öllum sem segja líkamsrækt mannbætandi síðustu þrjú ár. Ég tek það allt til baka bara. Ókei.“

Er þessi Gveiga komin til að vera?

„Þessi Gveiga með nýja ívafinu er í það minnsta orðin þriggja mánaða og aldrei hefur nokkuð nýtt ívaf staðið eins lengi. Þannig að ég er eiginlega bara nokkuð sannfærð um að hún sé að festa rætur. Mér finnst meira að segja orðið ansi mikið að taka helgarfrí frá æfingum. Já, þessi nýja Gveiga kemur mér líka í opna skjöldu.“

Hin nýja Gveiga er hressari á líkama og sál / Ljósmynd: Hanna

Var rúmliggjandi daginn eftir fyrstu æfinguna

En hvað með allt vínið? Er svona ræktarfólk ekki alltaf að sleppa því að drekka?

„Ég tilheyri ekki þeirri tegund ræktarfólks. Og mun aldrei gera.“

Ertu ekkert að laumast í kartöflusalatið á næturnar?

„Tæplega tveggja ára gömul dóttir mín vaknar um fimm leytið alla morgna. Þú skalt ekki halda að ég rjúfi snarstuttan nætursvefn minn fyrir neitt, þó um væri að ræða unaðslega vel majónesað kartöflusalat.“

Hvernig var þetta ferli?

„Ég var rúmliggjandi daginn eftir fyrstu æfinguna. Bryðjandi verkjatöflur og að furða mig á því hvernig ég gæti hreinlega verið í svona slæmu formi, konan sem hefur ekki hreyft sig af viti í einhver sex ár. Ég fór nánast skríðandi í eigin tárum á æfingu tvö en þar með var því versta lokið, svona sirka. Ég næ samt að mása út úr mér eftir hverja einustu æfingu sem ég tek „þetta var það erfiðasta sem ég hef gert“ og það er alltaf alveg satt. Æfingarnar verða ekkert auðveldari þótt þú styrkist og bætir þig. Þá gerir þú bara meira og tekur þyngra. Og að finna fyrir bætingum, maður lifandi. Mig langar næstum að segja að það sé betra en rauðvín. En bara næstum.“

Finnur þú mikinn mun eftir að þú fórst að æfa?

„Já! Ég sef miklu betur, aðeins til fimm reyndar, sem skemmir þennan bætta svefn töluvert. Ég vil ekki viðurkenna að ég sé hressari í sál og sinni. Af því að þá þarf ég að éta ofan í mig enn fleiri brandara.“

Hvernig eru viðbrögðin á snappinu?

„Það trúði mér ekki sála í fyrstu. Ég hafði ekki undan að opna skilaboð sem flest innihéldu „jeeee right.“ Fólkið í kringum mig gaf þessu viku í mesta lagi. En ég er nýlega búin að halda langa ræðu um ágæti þessarar crossfit-iðkunar að ég held að þeim vantrúuðu fari ört fækkandi.“

Hvað er svo annars framhaldið hjá þér?

„Heimsleikar 2020 og mörg járn í eldi í lífi, leik og starfi.“

Fyrir áhugasama er hægt að fylgjast með Guðrúnu Veigu á Snapchat undir notandanafninu: gveiga85

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Auður: „Hann sagði þá við mig, ískalt: „Annað hvort dettur þú í það og drepur þig eða mætir á námskeið“

Auður: „Hann sagði þá við mig, ískalt: „Annað hvort dettur þú í það og drepur þig eða mætir á námskeið“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hljóp 5 kílómetra á hverjum degi í heilan mánuð – Var fljótur að sjá magnaða breytingu á sér

Hljóp 5 kílómetra á hverjum degi í heilan mánuð – Var fljótur að sjá magnaða breytingu á sér
Fókus
Fyrir 3 dögum

Stjörnurnar og mótleikarinn sem þeim líkaði alls ekki við að kyssa

Stjörnurnar og mótleikarinn sem þeim líkaði alls ekki við að kyssa
Fókus
Fyrir 3 dögum

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna