fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fókus

Einkaviðtal Independent við Hatara: „Við munum vinna Eurovision 2019“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Þriðjudaginn 12. mars 2019 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Um leið og fólk reynir að koma okkur fyrir innan tónlistarstefnu bregðumst við ósjálfrátt við með því að reyna að forðast þann stimpil. Við byrjuðum með sítt hár og Matthías gargandi til að reyna að höfða til þungarokkssenunnar. Þátttaka okkar í Eurovision er enn önnur tilraunin,“ segir Klemens Hannigan, meðlimur Hatara, í samtali við breska blaðið Independent.

Hatari er í einkaviðtali við blaðið, en sveitin hefur verið í sjálfskipuðu fjölmiðlabanni síðan hún bar sigur úr býtum í Söngvakeppninni fyrir rúmri viku síðan. Blaðamaðurinn Rob Holley tók viðtal við Hatara á hlaupabrautinni í Laugardalshöll nokkrum dögum fyrir Söngvakeppnina en viðtalið er birt í dag á vef Independent. Rob minnist á að liðsmenn Hatara hafi allir mætt uppstrílaðir í viðtalið; Klemens með bleikan augnskugga og með leðurólar um allt, Matthías Tryggvi Haraldsson í leðri og göddum frá toppi til táar og Einar Stefánsson, trommugimpið svokallaða í gúmmíklæðnaði.

Hatara er spáð 7. sæti í Eurovision.

Sama hækkun og í Waterloo

„Tónlistarsenan í Reykjavík er mjög lítil þannig að það er auðvelt að láta taka eftir sér og allir innan senunnar eru vinir okkar þannig að við þekkjum hvort annað,“ segir Klemens og hlær. „Við byrjuðum í grasrótinni en nú veit öll þjóðin hverjir við erum.“

Klemens segir Hatrið mun sigra vera popplag þó textinn sé frekar dökkur og dimmur.

„Hatrið mun sigra er popplag. Ég gúgglaði nóturnar fyrir Waterloo, lag um stríð, og tók eftir að við notum sömu hækkun og þau í Hatrið mun sigra. Þetta er popplag. Við höfum einnig verið að velta fyrir okkur að taka íslenska ábreiðu af laginu Euphoria,“ segir Klemens, en Euphoria er sigurlag Eurovision frá árinu 2012 sem flutt var af Loreen.

„Við lifum fyrir þessar andstæður,“ segir Matthías. „Ég er karlmannlegur, Klemens er kvenlegur. Ég er kúgaður, Klemens er tjáningarglaður. Ég er harður, hann er mjúkur. Ég öskra, hann syngur. Ég er stífur, hann dansar – við könnum þessar andstæður.“

Allir brjóta reglurnar á Eurovision-sviðinu

Matthías segir eina slíka andstæðu kristallast í Eurovision-keppninni í Tel Aviv í Ísrael í maí.

„Maður skrifar undir samning þar sem segir að maður megi ekki vera pólitískur í keppninni, en ef einhver heldur að þeir séu að fara til Tel Aviv án pólitískra skilaboða gætu þeir ekki haft meira rangt fyrir sér. Það er þversögn því öll lögin sem komast á sviðið særa blygðunarkennd margra sökum þess hvar keppnin er haldin og vegna þeirrar lögmætu gagnrýni sem margir hafa sett fram,“ segir Matthías og heldur áfram.

„Það er í rauninni brot á reglum Eurovision. Maður getur ekki farið til Tel Aviv og spilað á þessu sviði án þess að brjóta reglur Eurovision. Það gildir um okkur og alla aðra. Og það er ekki hægt að vera þögull um ástandið því þögnin er í sjálfu sér stór og mikil pólitísk yfirlýsing.“

Meðlimir sveitarinnar segja alla sem stíga á sviðið í keppninni brjóta reglur hennar.

„Við erum bleiki fíllinn í stofunni“

Klemens segist skilja af hverju einhverjir hafa ákveðið að sniðganga Eurovision í ár en Matthías segir að sú staðreynd að keppnin sé haldin í Ísrael hafi hvatt hljómsveitina til að senda inn lag.

„Okkur fannst að Hatari ætti að fara í Eurovision. Okkur fannst að stjórnmálin, ekki aðeins í Ísrael heldur í Evrópu, Bandaríkjunum og restinni af heiminum, passi inn í sjóndeildarhring Hatara – dystópískt leikhússtykki sem endurspeglar ofbeldi, hatur og kúgun.“

Rob hittir Hatar einnig þegar þeir eru nýbúnir að sigra í Söngvakeppninni, í eftirpartíi í Bíó Paradís. Þá segjast meðlimir sveitarinnar vera sigurvissir.

„Við munum vinna Eurovision 2019. Hlutir eru samkvæmt áætlun. Söngvakeppnin var annað skref í hruni kapítalismans og að afhjúpa blekkinguna sem hversdagslífið er. Við erum bleiki fíllinn í stofunni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir