Eltihrellar eru yfirleitt með persónuleikaröskun, ekki geðsjúkdóm. Það veitir þeim ánægju að hafa völd yfir öðrum. Eltihrellir er yfirleitt skilgreint sem manneskja sem eltir og fylgist með annarri manneskju á ákveðnu tímabili. Þetta er því tegund af áreiti sem oftast hefur þann tilgang að valda ótta. En svo hefur enska orðið „stalking“ líka verið notað yfir þá sem elta frægt fólk sem það sækist eftir upplýsingum um eða kynnum við, þá er tilgangurinn ekki endilega að valda ótta. Þetta er tegund af ofbeldi. Það er mikilvægt að gerendur átti sig á að þeir eru að beita ofbeldi sem kann að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir þolendur.
Þetta hefur Margrét Valdimarsdóttir, sem kennir tölfræði og afbrotafræði við HÍ, og er sérfróð um mál tengd lögreglu og afbrotum, meðal annars að segja um eltihrella:
„Þeir hafa skort á hvötum sínum og það veitir þeim ánægju að upplifa að þeir hafa völd yfir öðrum. Algengt er að eltihrellar hafi almennt tilhneigingu til að beita ofbeldi.“
En hvaða þekktir Íslendingar hafa lent í þeirri erfiðu lífsreynslu að vera eltir af ofbeldismönnum?
DV birtir hér nöfn og frásagnir nokkurra þekktra Íslendinga. Listinn er án efa lengri og þá er líklegt að fjöldi Íslendinga hafi ekki opnað sig opinberlega um þessa erfiðu lífsreynslu.
Ásta Kristrún Ragnarsdóttir og fjölskylda hennar máttu þola alvarlegar hótanir og ofsóknir frá nafnlausum einstaklingi í tvö ár. Ásta er gift tónlistarmanninum Valgeiri Guðjónssyni og eiga þau saman þrjú börn. Lögreglan upplýsti málið á sínum tíma en saksóknari neitaði að gefa út ákæru, enda var eiginmaður geranda vel tengdur inn í dómskerfið. DV ræddi við Ástu, sem áður hefur rætt málið við Vikuna. Valgeir hefur einnig rætt þetta áður við DV.
Nafnlaus hótunarbréf tóku að berast laust fyrir aldamótin. Ásta hafði áður starfað sem forstöðumaður við Námsráðgjöf Háskóla Íslands í átján ár. Hún lenti þar í átökum við þrjá starfsmenn sína vegna persónulegra vandamála í einkalífi þeirra og áfengisvanda.
Tveir þessara starfsmanna höfðu til margra ára verið samferða henni í námi og nánir heimilisvinir að auki áður en ósköpin skullu yfir. Á þeim tíma hafði einnig nýr rektor tekið við sem tók á málum með þeim hætti að Ásta lét af störfum. Ásta hafði í gegnum árin verið ötull málsvari nemenda og náð að rétta hlut þeirra. Í hugskotum þeirra sem bíða lægri hlut í málum getur blundað undir yfirborðinu reiði sem brýst stundum út á mismunandi vegu þegar tækifæri gefst.
Skort á stuðningi við Ástu rekur hún til slíkra viðbragða. Þessi viðsnúningur leiddi til þess að Ásta hætti hún störfum í háskólanum og hóf eigin ráðgjafarstofu. Rétt eftir starfslokin fóru bréfin að berast og Ástu grunaði í fyrstu að þau kæmu frá einni af fyrrverandi samstarfskonum hennar enda voru fyrstu bréfin uppfull af faglegu níði.
Alls bárust þeim átján bréf á tveimur árum. Þau innihéldu hótanir um líkamsmeiðingar af margvíslegum toga, íkveikju og rætinn róg af ýmsu tagi. Bréfið sem hratt rannsókn lögreglunnar af stað af fullum þunga var metið mjög alvarlegt en það innihélt hvítt duft. Átta ára dóttir þeirra opnaði bréfið. Ofsóknirnar höfðu mikil áhrif á alla fjölskylduna, ekki síst Ástu sjálfa.
„Þetta var morð, tilfinningalegt morð. Þetta gerði það að verkum að ég hrundi. Ég gat ekki verið ein, gat ekki keyrt bíl og hætti að mæta á mannamót. Hvar sem ég var þurfti ég alltaf að hafa varann á mér og hafa útleið. Börnin okkar voru aldrei látin ganga heim úr skóla. „Það að vita ekki hver gerandinn var, var sérstaklega erfitt,“ segir Ásta og það tekur mikið á hana að rifja upp þennan tíma. „Þetta eru ör sem aldrei gróa.“
Ásta þurfti að leita sér læknisaðstoðar og hún segir það hafa tekið hana mörg ár að geta orðið virk í samfélaginu á nýjan leik. Bakgrunnur hennar í fræðunum hafi þó hjálpað við að takast á við þetta.
„Þegar ég hugsa til baka stendur upp úr sú mikla sorg að missa af stórum hluta lífs barnanna. Ég fór í veikindafasa og gat ekki veitt þeim það sem móðir ætti að geta veitt börnum og ótti minn smitaðist yfir á þau. Þessi ógn er svo djúpstæð. Þú veist ekki hver er þarna úti í myrkrinu og þú veist ekki hvenær gerandinn ætlar í raun að láta til skarar skríða og láta verða að hótununum.“
Var hvert bréf jafn hræðilegt eða vandist þetta?
„Nei, þetta vandist aldrei. Bréfin fóru í raun hríðversnandi.“ En ég notaði minn faglega bakgrunn til að rannsaka og flokka óhugnaðinn sem stóð í bréfunum. Mér fór að takast að greina í þeim megin hótunarflokka. Einn þeirra laut að grófum misþyrmingum, þá alltaf faglegt níð, einn um manninn minn þar sem spilað var inn á afbrýðisemi og svo framvegis. Þegar ég var byrjuð á að lesa bréfin og greina efnið á þennan hátt náði ég betri stjórn á óttanum og reyndi að virkja hugann á rökrænum forsendum. Þannig vann ég með rannsóknarlögreglunni og með hennar hjálp fikraði ég mig fram veginn í leitinni að mögulegum geranda. Tímaþáttur atburða sem nýttir voru til að lýsa og tæta niður persónu mína var líka mikilvægur í greiningarferlinu. Það reyndist mér mikill styrkur að geta tekist á við tilfinningarnar rökrænt og rætt og beitt skipulagðri hugsun. Rannsóknarlögreglumaður sem stýrði málinu reyndist mér ómetanlega vel og hann sýndi aðstæðum okkar allra einstakan skilning og virðingu.“
Ásta er þakklát lögreglunni fyrir það hvernig þessu máli var sinnt og fylgt eftir. En lögreglan á jafnan erfitt með að takast á við mál á borð við þetta sökum fjárskorts. Rannsóknarlögreglan fylgdist með þeim og vissi af þeirra máli. Alvarlegasta atvikið var þegar bréfið með duftinu barst á Ægissíðuna, þar sem fjölskyldan bjó á þeim tíma. Þá var miltisbrandsógnin í hámæli.
„Dóttir mín, þá átta ára, tók bréfabunka upp og setti hann á borðið í forstofunni. Þá fór duft út um allt og hana fór að svíða í augun og eldroðnaði í framan. Lögreglan og sjúkrabílar komu undir eins og ég fékk algjört taugaáfall. Það var verið að hræða okkur og láta okkur halda að þetta væri miltisbrandur, en við efnagreiningu kom í ljós að þetta var sódi, hjartarsalt og eitthvað fleira.“
Eftir tveggja ára ógn fengu þau loks orðsendingu sem gat beint leitinni á rétta braut. Barst þá óhugnanlegur tölvupóstur, frá Hotmail-netfangi, sem var látið líta út eins og hann kæmi frá bróður Ástu. Í honum stóð að fylgst væri með þeim í hverju horni.
„Við vorum með yndislega au-pair stúlku sem fór þá upp á sitt einsdæmi og tilkynnti póstinn til „einelti á Hotmail“. Í fyrstu hafði verið talið að ekki yrði unnt að rekja sendinguna og til þess þyrfti dómsúrskurð í Bandaríkjunum. En sem betur fer brást Hotmail skjótt við og því var hægt að rekja IP-töluna. Við þá rakningu staðfestist grunur minn sem ég hafði rætt við lögregluna um. Viðkomandi hafði vitaskuld neitað. Slóðin var sem sagt sem rakin og viðkomandi þá tekin nauðug í DNA-prufu sem sýndi samsvörun gagnvart lífsýnum á tveimur bréfanna.“
Þannig var að viðkomandi kona, sem er nú látin, var doktor í sálfræði, en ekki ein af þeim sem höfðu orsakað að Ásta hætti í starfi forstöðumanns, heldur kona sem átti harma að hefna frá því fimmtán árum áður, þegar Ásta hafði betur í faglegu máli sem háskólarektor studdi Ástu í. Rannsóknarlögreglan undirbjó málið mjög vel og sendi til saksóknara, en saksóknari vísaði málinu frá.
Eiginmaður geranda var hæstaréttarlögmaður, og annar af starfsmönnum Námsráðgjafar sem Ásta hafði bent á í upphafi, var stjúpdóttir fyrrverandi ríkissaksóknara sem blandaði sér í málið þegar sú ábending kom upp.
Það var mikið áfall fyrir Ástu og fjölskyldu hennar og augljós sönnun á frændhygli og spillingu í íslensku samfélagi þar sem nánd og krosstengsl hafa mikil áhrif á niðurstöður.
Nú var þetta augljóst hegningarlagabrot, hvaða svör fenguð þið frá saksóknara?
„Að það væri ekki hægt að staðfesta að verstu bréfin, sem ekki fannst DNA á, væru frá sama aðila. Þessi tvö bréf sem voru með sýnunum á voru ekki með beinum líflátshótunum, en engu að síður mjög ógnandi og viðbjóðsleg. Þótt IP-tala tölvunnar sem Hotmail-tölvupósturinn hefði verið rakin til tölvu eiginmanns gerandans á heimili þeirra hjóna, dugði það ekki til að ríkissaksóknari teldi það nægar sannanir til að ákæra í málinu.“
Ásta segist ekki í neinum vafa um að gerandinn hafi átt við geðræn vandamál að stríða, auk þess að vera haldinn alvarlegum áfengisvanda. Ásta hitti gerandann aldrei eftir að þetta kom upp, en vegir fjölskyldnanna áttu eftir að skarast engu að síður.
„Tvö barna okkar völdu sálarfræði sem háskólanám og dóttir okkar, sem fékk duftið úr bréfinu á sig, er nú í framhaldinu í doktorsnámi í taugavísindum. Önnur dóttir gerandans er í sama fagi og samleið óhjákvæmileg. Sem betur fer er ekki samasemmerki á milli gjörða foreldra og barna þeirra og í þessu tilfelli eru líkindin sem dagur og nótt.“
Ásta segist hafa smám saman náð að byggja sig upp með hjálp góðs geðlæknis sem hún leitaði til snemma í hótunarferlinu. „Læknirinn er kona og mikill fagmaður og enn í dag nýt ég hennar liðsinnis. Málið allt hefur markað djúp spor hjá allri fjölskyldunni. Ég er ekki ekki jafn illa á mig komin í dag, en ég hef aldrei náð mér að fullu.“
Í DV frá árinu 2010 er fjallað um nokkra þekkta Íslendinga sem hafa verið beittir ofbeldi af eltihrellum. Þar sagði:
„Tilfelli Bjarkar var með því versta sem þekkist. Maður að nafni Ricardo Lopez varð hugfanginn af henni og lét hana ekki í friði árið 1996. Það kórónaði óhugnaðinn þegar hann reyndi að senda Björk bréfsprengju, en breska lögreglan náði að stöðva hann í tæka tíð.
Með sprengjunni fylgdi myndband af manninum, þar sem hann sýndi nákvæmlega hvernig hann bjó til sprengjuna, rakaði svo á sér höfuðið, málaði sig í framan og framdi loks sjálfsmorð.“
Eivør sótti um nálgunarbann á íslenskan mann sem átti að hafa elt hana á röndum í um þrjú ár. Málið gekk meira að segja svo langt að maðurinn flutti til Færeyja og tjaldaði í garðinum hjá henni í langan tíma. Maðurinn sagði meira að segja að umboðskona Eivarar væri það eina sem stæði í vegi fyrir sambandi þeirra og hótaði henni líkamsmeiðingum.
Í viðtali við DV árið 2013 var Eivør í viðtali um reynslu sína. Eivør hafði tekið eftir því að sami maðurinn kom á alla tónleika hennar. Þegar hún kom til Íslands virtist hún rekast á hann á hverju götuhorni. Í viðtalinu sagði Eivør:
„Hann var alltaf á sama stað og ég fann til hræðslu. Hann var að elta mig og trúði að við ættum í heilögu sambandi og að aðeins fjölskyldan stæði í vegi fyrir því að við gætum verið saman. Ég þurfti að leita til lögreglunnar og fá nálgunarbann, þá lét hann mig í friði um stund.“
Friðurinn varði ekki lengi. Hann mætti á minningartónleika um látinn föður hennar öllum að óvörum. Þar kom hann inn í kirkjuna og fékk sér sæti. Hann hefði verið beðinn um að fara en neitað. Að lokum þurfti að hringja á lögregluna sem kom skjótt á vettvang og fjarlægði manninn.
„Nú hef ég sem betur fer fengið frið frá honum í langan tíma og skynja frið innra með mér. Mér finnst ég ekki þurfa að líta um öxl lengur. Sem betur fer, en það þurfti að ganga alltof langt áður en hann hætti. Það sem gerði það að verkum að ég þurfti að leita til lögreglunnar og stöðva hann með öllum ráðum var að hann var farinn að elta fjölskylduna. En þessu er lokið núna.“
Í DV frá árinu 2010 var einnig sagt frá glímu Halldórs Laxness. „Á ákveðnum tímapunkti þurfti að hafa samband við allar leigubílastöðvar í Reykjavík og segja leigubílstjórum að aka vinsamlegast ekki drukknum mönnum upp að Gljúfrasteini, heimili skáldsins, ef þeir óskuðu eftir því.
„Menn gátu fengið Halldór svo á heilann að dæmi eru um að þeir hafi verið búnir að hreiðra um sig í stofunni heima hjá honum, þegar þau hjónin brugðu sér af bæ. Þá var það nánast daglegur viðburður í áraraðir að fólk hringdi og heimtaði að fá að tala við skáldið.“
Karlmaður var dæmdur í hálfs árs fangelsi vegna hótana, húsbrota og nálgunarbannsbrota í garð Helga Áss Grétarssonar skákmeistara og fjölskyldu hans. Maðurinn lét þó ekki staðar numið þar og var tvívegis kærður fyrir áreitni eftir að hann lauk afplánun refsingar sinnar og vöknuðu upp margar spurningar í kjölfarið, um hvernig ætti að taka á slíkum málum.
Í umfjöllun DV um málið árið 2005 sagði:
„Sæll, Helgi minn, … ef þú snertir Ólöfu aftur, þá muntu óska þess að hafa aldrei fæðst,“
eru skilaboð sem Páll Þórðarson las inn á símsvara Helga Áss Grétarssonar, stórmeistara í skák, laugardaginn 11. október 2003. Páll er faðir þriggja barna Ólafar Völu Ingvarsdóttur sem fór frá honum og tók saman við Helga Áss. Sjúkleg afbrýðisemi varð til þess að Páll fór að ofsækja Helga og Ólöfu. Hann var dæmdur í hálfs árs fangelsi árið 2003 og er aftur fyrir dómi í dag.
Í dómnum segir Ólöf að Páll hafi verið í mikilli óreglu, ekki haldist í vinnu, verið þunglyndur og haft allt á hornum sér. Hann hafi farið til útlanda, komið aftur ári síðar og sagst vera breyttur maður; hættur að drekka og farinn að vinna. Þau hafi aftur byrjað að búa og flutt til Hveragerðis þar sem Páll lagðist enn og aftur í drykkju. Þá var Ólöf ófrísk að þriðja barni þeirra sem fæddist í september 1999.
„Þetta var hreinasta martröð,“ var haft eftir Ólöfu í dómnum.
Hún sleit sambúðinni og flutti til móður sinnar. Ólöf segist hafa verið mjög hrædd við Pál þegar þau bjuggu í Hveragerði; henni hafi fundist eins og hún væri í fangelsi. Páll hafi verið ofstopafullur og jafnvel bannað henni að fara úr húsi svo að nokkrum sinnum þurfti hún að laumast út um glugga. Ólöf tók þó fram að Páll hafi ekki sýnt henni ofbeldi að ráði.
Sumarið 2002 kynnist Ólöf svo skákmeistaranum Helga Áss Grétarssyni. Þau byrjuðu að búa en fljótlega fór fyrrverandi ástmaður Ólafar að varpa skugga sambandið. Ofsóknir Páls einkenndust af hótunarsímtölum, andlegu ofbeldi og líkamlegu. Ofbeldið beindist ekki aðeins að Helga og Ólöfu heldur fjölskyldu hans, vinum og ættingjum. Skorið var á dekkin á bíl Helga, ætandi efni hellt á lakkið og bílar bróður hans og föður voru einnig skemmdir.
Í einum af dramatískustu köflum dómsins lýsti Ólöf því þegar Páll kom óboðinn á heimili hennar á Vesturgötunni. Ólöf Vala var með sjö ára dóttur sína með sér þegar Páll vatt sér upp að henni og ýtti henni inn í sorpgeymslu við húsið.
Páll lokaði dyrunum og króaði Ólöfu af. Hann tók upp einnota hanska, barefli og hótaði að drepa Ólöfu. Hann festi hálsfesti með krossi um háls hennar, lét hana setja á sig þykkan skrauthring og sagði að hann vildi að hún bæri hálsfestina þegar hún dæi. Á meðan Ólöf var föst inni í sorpgeymslunni var bróðir hennar á leið út með ruslið. Hann kom að Páli sem flúði af vettvangi. Fyrir dómi sagðist Páll hafa ætlað að ræða við Ólöfu um fjármál og þau hefðu af tilviljun farið inn í sorpgeymsluna. Frásögn hans var ekki tekin trúanleg og var hann sakfelldur fyrir þessa ákæru.
Fleiri mál voru dregin upp í dómnum. Því var lýst þegar Páll sat fyrir Helga og tók hann hálstaki. Helgi sleit sig lausan og flúði, öskrandi á hjálp, heim til foreldra sinna sem urðu vitni að morðhótunum úr munni Páls. Þetta dæmi sýnir vel hvernig líf Helga og Ólafar var sífelld barátta vegna ofsókna þessa manns. Barátta sem gekk svo langt að eina nótt í október 2003 reyndi Páll að brjótast inn til þeirra og þurftu Helgi og Ólöf að halda hurðinni til að hann kæmist ekki inn í íbúðina.
Malín Brand opnaði sig um eltihrella í Fréttatímanum árið 2011 og tjáði sig einnig við DV um þá reynslu það sama ár. Þar sagði Malín:
„Daginn sem ég sagði frá þessari óskemmtilegu reynslu í Fréttatímanum kom póstur frá ókunnugum manni sem bauðst til að verða nýi „stalkerinn“ minn. Sá hafði sannarlega misskilið kjarna frásagnarinnar.“
Malín var stödd með hópi íslenskra blaðamanna sem hafði verið boðið ásamt hópi tyrkneskra blaðamanna í tengslum við umsóknir landanna að ESB. Malín var ásamt fleirum að spjalla við nokkra úr hópi Tyrkjanna, þar á meðal þann sem var í forsvari fyrir hópinn. Það sem leit út fyrir að vera saklaust og almennt spjall átti heldur betur eftir að draga dilk á eftir sér.
„Þessi maður var í forsvari fyrir tyrkneska hópinn, en hann var greinilega ekki í lagi. Hann tilkynnti mér að Guð hefði sagt honum að ég ætti að verða konan hans. Að það væri allt fyrirfram ákveðið af Guði, sem mér fannst fremur ósennilegt þar sem ég er sjálf guðleysingi.“
Malín leist ekki á blikuna þegar maðurinn réðst á hana.
„Ég tel að það sé mesta mildi að ég gat flúið frá honum. Hann tók mjög harkalega á mér og ég var öll marin á kjálka, handleggjum og fótleggjum eftir hann.“ Malín var flutt á annað hótel í kjölfarið. „Það tóku þessu allir alvarlega og ég er mjög þakklát fyrir stuðninginn bæði hjá íslenska hópnum og starfsfólki hótelsins. Mér var ekki rótt enda hafði maðurinn sent mér yfir 20 skilaboð á einum klukkutíma og hringt ótal sinnum.“
Þá sagði Malín einnig:
„Ég var dálítið hvekkt í nokkra daga á eftir og sérstaklega þegar ég kom heim og hélt áfram að fá tölvupóst og SMS frá honum.“
Í kjölfarið þess að hafa opnað sig um þetta bárust henni skilaboð frá íslenskum manni sem bauðst til að verða nýi eltihrellirinn hennar.
„Ég hef takmarkaðan áhuga á meiri svona vitleysu og hef ekki enn ákveðið hvað ég geri í sambandi við það mál. Ég varð aðallega pirruð og reið. Óttinn kom ekki fyrr en eftir á þegar ég áttaði mig á því hversu hættulegur maðurinn var. Svona löguðu fylgir skömm og manni finnst eins og maður hafi gert eitthvað rangt, en það er mjög algengt að sú tilfinning komi upp hjá þeim sem þolað hafa ofbeldi. Þess vegna ákvað ég að gera það eina rétta, sem er að tala og segja frá. Þögnin er besta vopn gerenda í svona málum. Því er nauðsynlegt að þegja ekki! Svona hegðun er ofbeldi og það er ekkert sem segir manni að þessi maður hafi ekki leikið þennan leik áður.“
Áslaug Arna laganemi var áreitt á netinu af bandarískum manni oft á dag í margar vikur. Hún sagði fleiri íslenskar stúlkur hafa lent í manninum. Í samtali við Vísi sagði Áslaug Arna:
„Að einhver geti komist svona nálægt manni á netinu er mjög sérstakt. Maður var orðinn svolítið var um sig og farinn að hugsa um hvað hann myndi gera næst. Ég byrjaði að ræða þetta við vinkonur mínar og þá komst ég að því að hann var búinn að sigta út fleiri stelpur sem lentu í þessu sama.“
Áslaug heldur áfram:
„Hann fór að senda mér skilaboð oft á dag og ég stillti Facebook þannig að ég fengi ekki tilkynningu í hvert sinn sem hann sendi. Við það reiddist hann mjög og fór að kalla mig öllum illum nöfnum.“
Maðurinn bjó til Youtube-myndband þar sem hann spurði margra persónulegra spurninga.
„Hann var greinilega búinn að vinna heimavinnuna sína og spurði mig mjög persónulegra spurninga. Þá sá ég manninn og gerði mér betur grein fyrir því að hann á bágt. Hann hringdi og sendi mér skilaboð mörgum sinnum á dag. Hann sendi mér talskilaboð sem voru þrjátíu sekúndur hvert og þau komu í massavís.“
Þegar Siv Friðleifsdóttir vildi skilja við Þorstein Húnbogason ákvað hann að fylgjast með ferðum hennar. Í október árið 2011 var Þorsteinn dæmdur til þess að greiða Siv sekt upp á 270 þúsund krónur fyrir að hafa komið, án hennar vitneskju, ökurita fyrir í bíl sem hún hafði til umráða. Í umfjöllun DV frá september 2012 segir:
„Grunsemdir hennar vöknuðu þegar Þorsteinn virtist vita allt um ferðir hennar, auk þess sem hann kom reglulega á sömu staði og hún. Hún lét því skoða bílinn og við leit í bílnum fannst ökuritinn. Hún lagði fram kæru og Þorsteinn var ákærður og dæmdur í héraðsdómi.“
Bubbi Morthens hefur notið mikillar velgengni. En fylgifiskar frægðarinnar eru ekki eintóm gleði. Bubbi var ofsóttur í fyrsta sinn árið 1982 af manni sem átti við geðræn vandamál að stríða.
„Ég hef oft lent í því að vera með „stalker“. En fjórir hafa gengið svo langt að það hefur verið einhver ástæða til þess að hafa áhyggjur af því.“ Í eldri umfjöllun DV kemur fram að þessi maður taldi að Bubbi hefði stolið lögunum hans og krafðist þess að hann leiðrétti það fyrir þjóðinni.
„Hann vildi að ég myndi viðurkenna að hann ætti öll lögin mín, þar á meðal Ísbjarnarblús. Ég þurfti ekki að vita meira til þess að vita að maðurinn væri ekki í lagi. Ég vissi það um leið og ég fékk fyrsta bréfið frá honum. Það fór ekki á milli mála þegar hann fór að tala um að hann hefði samið Ísbjarnarblús. Og ég hefði stolið laginu af honum.“
Maðurinn skrifaði lesandabréf í Morgunblaðið þar sem hann hélt þessu fram og fékk bréfið birt. Í framhaldinu sendi hann hvert bréfið á fætur öðru á Bubba og urðu bréfin alltaf furðulegri. Bréfin fjölluðu meira og minna um að hann ætlaði annaðhvort að drepa Bubba eða meiða hann ef hann fengi ekki kredit fyrir lögin. Lögreglan gerði ekkert í málinu.
„Þetta var í raun orðin svo mikil geðveiki að það var ekki hægt að horfa fram hjá þessu lengur. Hann sendi mér ítrekað líflátshótanir og þetta var ofbeldishneigður maður. Eftir að hann réðst á gamlan mann og slasaði hann mjög illa var hann tekinn úr umferð og settur inn. Þá linnti ofsóknunum loksins. Það er enginn glaður þegar hann lendir í svona aðstæðum, en þetta var nú ekki það svæsnasta sem ég hef lent í.“
Þá liðu nokkrir mánuðir en þá tók næsti eltihrellir við. Nú var það kona.
„Hún sendi mér bréf. Stundum var hún búin að klippa út stafi og raða þeim saman þannig að þeir mynduðu morðhótanir. Svo sendi hún mér snöru, byssukúlur og ösku í litlum líkkistum.“
Þetta gekk í nokkra mánuði. Þriðji eltihrellirinn var karlmaður sem þjáðist af mikilli vanlíðan að sögn Bubba. Var hann sannfærður um að Bubbi gæti bjargað honum. Kom hann sér fyrir á tröppunum og beið eftir Bubba. Stundum svaf hann þar. Hann trúði því að Bubbi gæti rekið úr honum illa anda.
„Hann kom sér bara fyrir með plötubunkann á tröppunum hjá mér. Það var engin leið til að losna við hann. Börnin mín voru mjög hrædd við hann. En ég held að hann hafi ekki verið ofbeldishneigður. En það var mikil sorg í honum.“
Seinna fóru að berast hótanir frá honum: „Ég lét það ekki koma mér úr jafnvægi en þegar hann hótaði að skaða börnin mín fór ég í hann. Hann kom æðandi til mín alveg kolgeggjaður, froðufellandi og snarbrjálaður og hótaði börnunum mínum. Þá fór ég í hann. Ég lagðist þungt á hann og tók hann niður. Það er ekki gaman að þurfa að slást við svona menn, en ég vissi ekki til hvers hann var vís.“
Fljótlega eftir þetta var maðurinn vistaður á stofnun og fékk þá hjálp sem hann þurfti á að halda. Bubbi sagði í viðtalinu að það væri oft ekki fyrr en eitthvað slæmt gerðist, einhver yrði fyrir skaða, sem tekið væri á málinu.
Þá hélt einn maður að Bubbi væri djöfulinn vegna fæðingardagsins. Bubbi lýsti því á eftirfarandi hátt:
„Hann hélt að hann þyrfti bara að opna á mér hausinn til þess að sanna mál sitt. Þegar hann væri búinn að því myndi fólk sjá að hann hefði rétt fyrir sér. Ég væri í raun djöfullinn. Þetta var mjög veikur maður.“
Lögregla fékk að vita frá læknum að Bubbi gæti verið í hættu staddur og hringdi í Bubba. Hann mátti alls ekki opna ef það bankað yrði upp á hjá honum. Fjölskyldan var heima en Bubbi sagði ekkert.
„Hann var svo stoppaður af þegar hann var á leiðinni til mín til að sanna mál sitt. Sem betur fer fyrir hann og kannski fyrir mig líka varð ekkert úr því. Honum var svo komið fyrir á viðeigandi stofnun þar sem hann fékk hjálp.“
„Ég var einu sinni stunginn með eggvopni á mínu eigin heimili. Þá fyrst kom lögreglan. Það var í eina skiptið sem hún hefur brugðist hratt og örugglega við.“
Bubbi var með gest hjá sér. Skyndilega hafði manneskja komið inn og taldi að hún ætti óuppgert mál við tónlistarmanninn.
„Þessi manneskja kom óboðin inn til mín, var hleypt inn fyrir slysni. Hún var mjög ógnandi og lamdi frá sér. Þannig að ég tók ákvörðun um að fylgja henni út. Hún átti ekkert að vera þarna og ég var að reyna að koma henni út. Okkur lenti síðan saman með þessum afleiðingum. Ég var stunginn í lærið með eggvopni, ég veit ekki hvað það var, hnífur eða eitthvað.“ Fjölskyldan var öll heima og börnin horfðu upp á þetta gerast.
Þá sagði Bubbi um eftirköstin:
„Þetta er ein tegund ofbeldis. Svipað ofbeldi og blöðin beita fólk stundum. Stundum hafa blöðin tekið menn fyrir og lagt þá í einelti. Þetta er svipuð tilfinning. Meðan á þessu stendur verður röskun á daglegu lífi. Þetta hefur líka áhrif á sálarlífið og ég finn fyrir þessu. Þetta er ekki eitthvað sem ég humma bara fram af mér, heldur hefur þetta áhrif á mig.
Þegar ég fer út úr húsi á morgnana horfi ég í kringum mig og skima eftir því hvort það sé einhver að fylgjast með mér. Þegar ég er á gangi lít ég við til að athuga hvort einhver sé að fylgjast með mér. Þegar ég kem heim á daginn lít ég til hægri og vinstri áður en ég fer inn. Hægt og rólega verður maður, kannski ekki hræddur, en var um sig og óöruggur.“