Söngkonan Unnur Eggertsdóttir var í viðtali við DV síðasta sumar, en hún hefur verið búsett í Los Angeles í tvö ár, þar sem hún hefur reynt fyrir sér sem söng- og leikkona.
Í viðtalinu kom fram að Unnur fór þá með hlutverk kynbombunnar Jayne Mansfield í söngleiknum Marilyn sem sýndur var í Las Vegas í sex mánuði. Unnur útskrifaðist sem leikkona frá The American Academy of Dramatic Arts í New York í apríl árið 2016 og á útskriftarathöfninni hlaut hún verðlaun sem besta leikkona árgangsins, sem taldi rúmlega 100 nemendur.
Sjá einnig: Unnur söng sig upp metorðastigann:„Þetta er algjör rússíbani en ég gjörsamlega dýrka þetta“
Lag Unnar og Martyn Zub hljómar nú í Netflix kvikmyndinni Velvet Buzzsaw, sem Jake Gyllenhaal, Toni Collette og Rene Russo fara með aðalhlutverk í.
Lagið heitir Keep It Left og segir Unnur í viðtali við Vísi að það hafi smellpassað fyrir tiltekið atriði myndarinnar. Hins vegar stóð ekki til að gefa lagið út þar sem Unnur og Zub voru mun ánægðari með önnur lög sem þau eiga til. Þar sem Netflix falaðist eftir því ákváðu þau þó að slá til. Senan sem lagið var hugsað fyrir var síðan klippt út úr myndinni, en lagið þó notað á öðrum stað og í styttri útgáfu.