Fyrsta lag Einars Bárðarsonar í tíu ár er Okkar líf. Myndband af frumflutningi lagsins náðist á öryggismyndavélar, en lagið er samið að hluta sem kveðja og þakklæti til Sálarinnar.
Fyrsta lag sem lagahöfundurinn Einar Bárðarson sendir frá sér í yfir í tíu ár verður frumflutt á útvarpsstöðvum landsins í vikunni. Lagið heitir Okkar líf og eru flytjendur lagsins höfundurinn sjálfur og nafni hans og vinur til áratuga, Einar Ágúst Víðisson úr Skítamóral. Lagið er eina nýja lagið á plötunni Myndir sem kemur út á föstudag. Lagið er bæði falleg ástarsaga og einnig samið og tileinkað Sálinni hans Jóns míns, sem hætti störfum í haust.
Er ég heyri Sálina
hljóm’ í gegnum nóttina
Er ég heyri „Okkar nótt“
Þá koma fljótt
Allar þessar minningar
Allir þessir vinningar
Sem breyttu „Okkar nótt“
Sem breyttu „Okkar nótt“
Í „Okkar líf“
Myndband af frumflutningi lagsins náðist á öryggismyndavélar
Tökum og vinnslu á laginu lauk eftir áramót en lagið var þó flutt á höfundarafmælistónleikum Einars í Bæjarbíói í nóvember. Þá náðist flutningurinn á myndavélar innanhússöryggiskerfisins sem býr yfir nokkum góðum gæðum. „Við sáum þetta myndefni sem er kannski ekki alveg í takti við lokaupptökuna en við ákváðum til gamans að láta það ekki trufla okkur og klippa til myndband úr þessum vélum og einhverju efni frá gestum tónleikanna. Úr því varð þetta ágæta myndband,“ segir Einar.
„Við erum líka minna líkir Brad Pitt en við héldum þannig að þetta þarf nú ekki að hafa neinn Hollywood blæ. Þetta, eins og afmælisupptökurnar, eru til gamans og góðra minninga gert. Nafni minn er nú reyndar miklu vanari öryggismyndavélum í seinni tíð en hefðbundnum.
Ástarsaga úr borginni
„Það sem ég sá og heyrði Sálina gera í popptónlist varð mér hvatning til þess að fara að semja og búa til tónlist sjálfur upp úr 1989. Ég hef fylgt þeim síðan og fylgst með. Auðvitað getur maður talið sig ríkan fyrir það eitt að hafa seinna kynnst þeim og unnið með þeim í kynningarverkefnum og tónleikahaldi,“ segir Einar.
„Þráðurinn í textanum er þó engu að síður lítil ástarsaga úr borginni. Saga sem byrjar á tónleikum Sálarinnar hans Jóns míns í Loftkastalanum 12. ágúst árið 1999, þar sem hljómsveitin frumflutti lagið Okkar nótt. Það voru gestir þar sem voru að fara á eina af sínum fyrstu tónleikum saman og lagið varð lagið „þeirra.“ Það markaði tímamót í þeirra lífi og þannig fóru þau í gegnum lífið saman. Textinn er að hluta til byggður á mínu eigin lífi en ég þekki mörg pör sem tengja við þessa sögu og eiga eitt eða tvö Sálarlög sem eru „lögin þeirra“ eins og fólk segir.”
Myndir í verslanir um helgina
Lagið er eins og fyrr segir hluti af plötunni Myndir sem er að koma út um næstu helgi, þar sem þekktustu lög Einars koma út í nýjum útgáfum með nýjum flytjendum. Lagið er samið af Einari og hefur sem slíkt verið í vinnslu í um það bil fimm ár, en Bragi Valdimar Skúlason og Einar unnu textann saman og var hann kláraður í haust.