Í miðborg Kaupmannahafnar hafa margir merkir atburðir átt sér stað og margir merkir einstaklingar hafa gengið þar um stræti í gegnum tíðina, þar á meðal margir Íslendingar. Þegar gengið er um götur þessa gamla höfuðstaðar okkar í dag er erfitt að ímynda sér hvað sagan hefur að geyma en hér er hulunni svipt af nokkrum athyglisverðum staðreyndum um Kaupmannahöfn.
Í dag telst Farvergade við Ráðhústorgið til betri hluta Kaupmannahafnar. En svo hefur nú ekki alltaf verið því 1905 voru heil 28 vændishús í rekstri við götuna. Í Magstræde í nágrenninu voru 85 vændishús og í hinni litlu Gådegade voru þau 16. Þetta eru bara þau vændishús sem voru skráð sem slík, mörg önnur leyndust í krókum, kimum og kjöllurum.
Við Gammeltorv var lengi vel Anatoisk Laboratorium en þar voru lík soðin í gamla daga til að sleppa við sóðaskap. Kaupmannahafnarháskóli er til húsa þar núna. Stúdent, sem var á næturvakt, opnaði eitt sinn eitt kar og fannst næsta morgun dauður á botni þess með lík ofan á sér. Sagt er að hann gangi nú aftur í byggingunni.
Á Nytorv var fólk tekið af lífi eftir að hafa verið dæmt til dauða. Síðasta aftakan fór fram fyrir um 150 árum, löngu eftir að lýðræði var innleitt í Danmörku. Þegar búið var að taka fólk af lífi var höfuð viðkomandi sett á langa stöng svo allir gætu séð þann látna.
Undir McDonalds á Strikinu er að finna mörg þúsund lík. Þegar svarti dauði herjaði á Kaupmannahöfn 1710 létust 20.000 af 60.000 íbúum borgarinnar. Margir þeirra voru grafnir í St. Clements kirkjugarðinum sem er staðsettur við enda Striksins, einmitt þar sem veitingastaður McDonalds stendur nú.
Á Gammeltorv voru nornir brenndar. Fólk taldi að það væri verið að gera nornunum greiða með því að brenna þær. Til að auka þjáningar þeirra og um leið hreinsun þeirra þá voru pokar með púðri hengdir á þær en þeir sprungu síðan á meðan nornin var enn á lífi.
Á Stokhusgade, rétt hjá Kongens Have, var hið illræmda fangelsi Stokhuset allt þar til 1851. Fangelsið gekk undir viðurnefninu Torturhjørnet, Pyntingahornið. Allt þar til 1840 voru þjófar brennimerktir á enninu þegar þeir komu í fangelsið. Sérstaða fangelsins fólst þó í pólska stokknum en þá voru fangarnir festir við stokk og velt á tinnusteini.
Dagmar Overby stundaði það árið 1916 að kaupa kornabörn af fátækum mæðrum þeirra og drepa þau. Í fyrstu stundaði hún þennan óhugnað á Jægersborggade, sem er mjög vinsæl gata í dag, og síðar á Enghavevej á Vesturbrú. Hún drap að minnsta kosti átta börn en talið er að hún geti hafa drepið allt að 25 börn. Hún er versti fjöldamorðinginn í sögu Danmerkur.