Íslandi er spáð 12. sæti í Eurovision í veðbanka á vefnum Eurovision World. Er þetta ansi sérstök spá í ljósi þess að við erum ekki enn búin að velja framlag okkar í keppninni, en valið stendur á milli Hatara, Friðriks Ómars, Heru Bjarkar, Kristinu Bærendsen og Töru Mobee. Eru margir sérfræðingar á því að annað hvort Hatari með lagið Hatrið mun sigra, eða Friðrik Ómar með lagið Hvað ef ég get ekki elskað? verði fulltrúi Íslands í Eurovision í Ísrael í maí. Það kemur allt í ljós þann 2. mars næstkomandi.
Staða okkar í veðbankanum er samt ekki jafn sérstök og Svía, en þeim er spáð öðru sæti í keppninni þrátt fyrir að vera ekki búnir að velja sinn fulltrúa. Má telja líklegt að staða þeirra í veðbankanum orsakist af því hve vel þeir standa sig ávallt í keppninni og hve oft þeir hafa unnið.
Það er hins vegar Rússinn Sergey Lazarev sem mun sigra í keppninni samkvæmt veðbankanum, en hann vakti gríðarlega athygli í Eurovision í Stokkhólmi árið 2016 með lagið You‘re the only one. Hafnaði hann í þriðja sæti þá, en ætlar að reyna aftur núna.
Í þriðja sæti í veðbönkunum er hinn ítalski Mahmood með lagið Soldi, í fjórða sæti er Duncan Laurence frá Hollandi og í fimmta sæti er Ester Peony frá Rúmeníu með lagið On a Sunday.