Nú líður senn að leiðarlokum annarrar þáttaraðarinnar af Ófærð og spennan er farin að magnast. Rjóminn af helstu leikurum þjóðarinnar fer með burðarhlutverk í þáttunum en inni á milli eru óþekktir leikarar sem þó leika ekki síður veigamikil hlutverk. Á dögunum tók DV saman leikarabörnin í Ófærð en núna er komið að „óþekktu leikurunum“.
Eitt mikilvægasta atriði sjónvarpsþáttaraðarinnar á sér stað strax á fyrstu mínútum fyrsta þáttar þegar bóndinn Gísli kveikir í sjálfum sér fyrir framan
Alþingishúsið. Gísli er leikinn af Þorgeiri Tryggvasyni sem getið hefur sér gott orð sem leikskáld, Ljótur hálfviti og álitsgjafi varðandi allt sem tengist menningu og listum. Þegar Þorgeir, eða Toggi, er ekki að gera eitthvað sjóðheitt tengt listinni þá starfar hann sem hugmynda- og textasmiður á auglýsingastofunni Hvíta húsinu. DV hefur ekki upplýsingar um hvort Toggi muni halda áfram að spreyta sig á hvíta tjaldinu eða hvort ferill hans sé orðinn brunarústir einar.
Íris leikur veigamikið hlutverk hárgreiðslukonunnar Hönnu Stínu sem er ekki öll þar sem hún er séð. Íris hefur getið sér gott orð sem söngkona undanfarin ár. Hún kvað sér fyrst hljóðs í sjónvarpsþáttunum X-factor og í kjölfarið opnuðust henni margar dyr sem söngkona.
Í ár syngur hún bakraddir í lagi Ívars Daníels „Þú bætir mig“ í undankeppni Eurovison hérlendis. Á þeim vettvangi hefur Íris mikla reynslu en hún söng meðal annar bakrödd hjá Maríu Ólafs í Austurríki árið 2015. Íris venti sínu kvæði í kross árið 2015 og fluttist til New York þar sem hún lærði leiklist við skólann Circle in the Square Theatre. Íslenskir sjónvarps- og kvikmyndaunnendur munu því eflaust sjá meira af Írisi í framtíðinni.
Búast má við því að æska landsins hafi hrópað upp yfir sig af hrifningu þegar rappararnir Jói Pé (Jóhannes Damian Patreksson) og Króli (Kristinn Óli Haraldsson) birtust skyndilega sem ofbeldisfullir unglingar í áttunda þætti þáttaraðarinnar.
Það hefði sennilega orðið raunin ef börn mættu horfa á Ófærð. Króli hafði sig mest í frammi í atriðinu enda er hann þrautreyndur leikari þrátt fyrir ungan aldur. Hann hefur meðal annars stigið á svið í verkunum Óvitar eftir Guðrúnu Helgadóttur og Fjalla-Eyvindi og Höllu í Þjóðleikhúsinu. Þá lék hann í kvikmyndinni Bjarnfreðarson þegar hann var aðeins 10 ára gamall. JóiPé var síðan svalur í bakgrunni senunnar.
Rapparinn og leikstjórinn Bent er vanur maður beggja vegna myndavélanna. Samkvæmt bestu vitund DV er þetta þó í fyrsta skipti sem hann er hvorki að rappa né grínast fyrir framan linsuna. Bent lætur ljós sitt skína í þriðju seríu þáttaraðarinnar sem vinnumaðurinn Elliði en hann veitir lögreglukonunni Hinriku upplýsingar sem reynast mikilvægar í lögreglurannsókninni.
Elva María fer með mun stærra hlutverk í annarri þáttaröðinni sem Þórhildur, dóttir rannsóknarlögreglumannsins Andra. Elva María lék einnig Þórhildi í fyrri þáttaröðinni en þá deildi hún hlutverkinu með annarri leikkonu. Elva María sló í gegn í sjónvarpsþáttaröðinni Ísland got Talent árið 2014, þá aðeins ellefu ára gömul, en hún söng sig inn í úrslitaþáttinn. Þá hefur hún stigið á svið í ófáum leikritum og fór með stórt hlutverk í kvikmyndinni Grafir og bein um árið.