Þegar einhver sigrast á veikleika sínum eða þegar einhver nær árangri í til dæmis íþróttum, viðskiptum eða í lífinu almennt, þá fer um mann sigurvíma. Þessi sigurvíma streymir eingöngu um mann þegar maður veit innst inni að maður vann að þessum sigri sjálfur og maður átti þennan árangur skilið – skilyrðislaust.
Sigurvíman getur komið þegar maður til dæmis nær prófi, að maður fór í gönguferð alla daga vikunnar eins og markmiðið var í upphafi hennar. Sigurvíman getur komið við minnsta tilefni og hún er svo góð. Hún veitir ánægju og manni langar svolítið í meira – meiri jákvæðan árangur.
En hvað með þá sem fá allt upp í hendurnar? Geta þeir upplifað hina sönnu sigurvímu?
Í rauninni á maður ekki að láta aðra trufla sig, einhverja sem fá allt upp í hendurnar. Því í gegnum erfiðleikana og erfiðið sem fylgir leiðinni að sigurmarkinu, er heilmikill lærdómur sem maður býr að alla ævi og sú reynsla verður ekki keypt. Þá reynslu er ekki hægt að fá upp í hendurnar. Þess vegna verða þeir oft reynslulausir og um leið skilningslausir – þeir sem fá allt upp í hendurnar.