Bifhjólasamtökin Sober Riders MC hafa undanfarin 12 ár eldað gómsæta sjávarréttasúpu, svokallaða Andskötusúpu, og gefið vegfarendum á Laugaveginum á Þorláksmessu. Um leið hafa samtökin safnað fjárframlögum í bauka og gefið til góðgerðarmála. Þetta árið varð SÁÁ og sjúkrahúsið Vogur fyrir valinu og söfnuðust 310.000 kr.
Sober Riders MC er alþjóðlegur bifhjólaklúbbur sem starfar meðal annars í Reykjavík og á Akureyri og samanstendur af körlum og konum sem styðja hvert annað til góðra verka. Þetta er „edrú“ klúbbur og nota félagar í honum því ekki áfengi eða önnur vímuefni.