fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

Ritdómur um Andvaka: Stundum vel heppnaður hrollur

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 21. desember 2019 18:18

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Andvaka – smásögur

Útgefandi: Félagið Smásögur

Margir höfundar

174 bls.

Munurinn á hrollvekju og þriller er sá að í fyrrnefnda forminu er hið ókunna að verki og náttúruöflunum er ögrað. Atburðir í þriller eiga sér hins vegar oftast veraldlegar skýringar og ráðgátan leysist í lokin. Þessi greinarmunur er áhugaverður vegna þess að sumir spennutryllar taka oft á taugarnar rétt eins og hrollvekjur og eru stundum hrollvekjandi.

Ritlistarhópurinn „Smásögur“ hefur verið nokkuð lengi að og sent frá sér mörg þemasmásagnasöfn. Í upphafi mátti kalla þetta hóp áhugahöfunda en í dag er hluti af hópnum útgefnir höfundar. Þannig hefur Róbert Marvin sent frá sér áhugaverðar spennusögur og þau Einar Leif Nielsen og Hildur Enóla unnu nýlega til verðlauna í skáldsagnakeppni hljóðbókaveitunnar Storytel. Og þó að flestir hinna höfundanna láti fara minna fyrir sér þá virðist hópurinn í heild vera að eflast.

Allar sögurnar í Andvaka eiga það sameiginlegt að eitthvað yfirnáttúrulegt gerist í þeim. Eðlilega verða þá flestar sagnanna hrollvekjur en þó ekki allar.

Til að hrollvekja nái tilætluðum áhrifum þarf hið yfirnáttúrulega í henni að vera temprað og mátulega trúverðugt. Helst þannig að það sem aðalpersónan upplifir sem rammasta draugagang sé eitthvað sem aðrir geta afgreitt með jarðbundnum skýringum. Þetta atriði kemur óhjákvæmilega upp í hugann við lestur fyrstu tveggja sagna bókanna sem eru báðar eftir Einar Leif Nielsen, Fagur fiskur í sjó og Göngin. Einar er fjörugur og nokkuð flinkur penni en fyrri sagan líður fyrir fáránlega yfirgengilegan draugagang og það er pínlegt þegar einhverjar persónur eru að reyna að halda því til streitu að eðlilegar skýringar séu á atburðunum. Þarna flæðir hið yfirnáttúrlega yfir alla skynsemi og útkoman er ekki hrollvekja heldur hjákátleg fantasía.

Saga númer tvö eftir Einar, Göngin, er hins vegar ein af bestu sögum bókarinnar, hugmyndin hófstilltari og miklu betri. Flott saga sem vekur andstyggðarhroll og frásagnartæknin minnir á kvikmynd.

Saga Elísabetar Kjerúlf er ein af vísbendingunum um að hópnum Smásögur fari fram. Elísabet hefur oft tekið þátt áður en þetta er besta saga sem ég hef lesið eftir hana. Sagan Hinsta ósk lýsir hvorki ógn né ofbeldi heldur upplifun af hinu yfirnáttúrlega. Hún er engu að síður hrollvekjandi því flestum þætti okkur óþægilegt að hitta draug. Kraftmikill stíll einkennir þessa sögu.

Framlag hvers og eins er mismikið, flestir eru með eina sögu, sumir tvær en Hákon Gunnarsson er með fjórar. Fátt er hrollvekjandi í þeim og þær eiga líklega ekki að vera það. Hákon er nokkuð fágaður stílisti og honum lætur vel að lýsa vitund látinna sem sveima um á meðal lifenda. Það eru fallegir kaflar í þessu efni frá Hákoni.

Róbert Marvin birtir söguna Hatur og er hún vel heppnuð en best í því hvernig hún lýsir siðferðislega gjaldþrota fíkli og illmenni.

Sirrý Sig glímir við hið gamalkunna efni, reimleika í húsi, og gerir það að minnsta kosti svo vel að sagan skilur eftir nokkurn óhug með lesanda.

Hrollvekja er vandmeðfarið form og aldrei er eins auðvelt að mistakast og við gerð hrollvekju, hvort sem það er kvikmynd eða saga á bók. Mörg misheppnuðustu og fáránlegustu verk sem fyrirfinnast eru af þessari tegund og hver hefur ekki séð ömurlega misheppnaða hryllingsmynd í bíó? Í þessari bók er líka að finna nokkrar mjög misheppnaðar sögur en þær eru í greinilegum minnihluta.

Það má vel mæla með Andvaka fyrir hrollvekjuunnendur. Bókin er gefin út í ódýrri kilju og hentar í jólapakkann auk þess sem margir ættu að hafa efni á að kaupa sér hana sjálfir.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ragna á von á barni

Ragna á von á barni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“