Nýlega hófust fjörugar umræður um fljúgandi furðuhluti í Facebook-hópnum „Íslenskar samsæriskenningar“ en þar stíga nokkrir Íslendingar fram sem segjast hafa séð fljúgandi furðuhluti.
Hjalti nokkur segist gruna það að hann hafi séð fljúgandi furðuhlut í Grafarvoginum árið 2009. „Sá reyndar bara ljós, frekar stórt en ekki mótun fyrir hvað gaf ljósið, hoveraði [sveif] yfir Esjunni, og á örfáum sekúndum fór það frá Esju og yfir Grafarholtið beint yfir blokkina mína þar sem ég stóð úti á svölum í töluverðri lofthæð,“ segir Hjalti.
Þá segist Örvar nokkur hafa séð fljúgandi furðuhluti í nokkur skipti árið 2015 þegar hann var að ferðast um Nevada-eyðimörkina en þar er einmitt að finna bandarísku herstöðina Area 51. Telja margir að bandaríska ríkisstjórnin geymi þar ýmsa yfirnáttúrulega hluti, eins og geimverur, fjarri augum heimsins.
Snædís nokkur varð vitni að einhverju óvenjulegu fyrir mörgum árum og hefur aldrei náð að útskýra hvað gerðist. Ég veit ekki hvað þetta var en í kringum 2002-2003 var ég í bíl í Þistilfirði um miðnætti og það var algjört myrkur, en kom svo mikil birta að það varð alveg dagbjart í nokkrar sekúndur. Hef aldrei fundið svar við þessu.“
Alfreð nokkur er nokkuð vissari en Snædís en hann segist hafa séð fljúgandi furðuhluti þrisvar sinnum, árið 1993, 2005 og 2015. Davíð nokkur er einnig viss um að hafa séð fljúgandi furðuhlut en það á að hafa gerst fyrr á þessu ári. „Hélt fyrst að þetta væri gervihnöttur en svo jókst hraðinn og ljósið breytti 2x um stefnu þar til það hvarf svo.“ Þá kemur Ágúst nokkur með ansi magnað svar, hann hefur ekki bara séð geimverur heldur segir hann einfaldlega: „Það búa nokkrar geimverur í húsinu mínu.“
Hvað segir þú lesandi góður? Hefur þú séð fljúgandi furðuhlut eða geimverur?