fbpx
Laugardagur 17.ágúst 2024
Fókus

Ekkja Geira á Goldfinger gerir upp fortíðina: „Ég hélt að ég myndi ekki vakna næsta dag en það var Geiri sem vaknaði ekki“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Laugardaginn 14. desember 2019 10:55

Jaroslava opnar sig upp á gátt í viðtalið við *DV.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jaroslava Davíðsson, ekkja Ásgeirs Þórs Davíðssonar, Geira á Goldfinger eins og hann var oftast kallaður, kveður Goldfinger á laugardaginn með stóru teiti. Geiri varð bráðkvaddur á heimili sínu í apríl árið 2012. Við það tók Jaroslava við Goldfinger, sem var strippstaður áður en bann við nektardansi tók gildi á Íslandi í byrjun þessa áratugar. Nú er komið að leiðarlokum. Jaroslava kveður Goldfinger á tuttugu ára afmæli staðarins næstkomandi laugardagskvöld. Ákveðinn léttir en einnig skrýtið segir hún, en hún ákvað fyrir ári að selja reksturinn og allt sem honum fylgir.

Konan á bak við Geira

Jaroslava flutti til Íslands fyrir rúmum tveimur áratugum og réð Geiri hana í vinnu á Hafnarkránni í Hafnarstræti. Þau opnuðu síðan súlustaðinn Maxim’s saman í desember árið 1998 og ári síðar festu þau rætur í Kópavogi og opnuðu Goldfinger. Jaroslava skýtur því inn að Geiri hafi rekið hana á Maxim’s því hún lét illa að stjórn, en þótt upphafið hafi verið brösugt blómstraði ást þeirra Jaroslövu og Geira. Geiri sá um daglegan rekstur Goldfinger og Jaroslava var heimavinnandi, en sá um flest allt annað er varðaði staðinn. Konan á bak við tjöldin.

„Já, ég var alltaf konan á bak við Geira. Ég sagði oft að ég hefði sterkan vegg fyrir framan mig,“ segir hún. Meðal þess sem var í verkahring Jaroslövu voru samskipti við dansara og starfsmannahald. Hún lagði mikið upp úr því að vel væri að verki staðið í þeim efnum.

„Ég hef alltaf farið eftir lögum og allar stelpurnar sem hafa dansað hér hafa verið með íslenska kennitölu og borgað sína skatta. Ég vil hafa allt uppi á borðum því ég vil sofa á nóttunni. Ég nenni ekki neinum „monkey business“. Það er betra að hafa hreina og góða samvisku.“

Þótt þau hjónin hafi byggt upp sitt fyrirtæki á nektardansi segir Jaroslava að hún kunni betur við dansarana í fötum en án.

„Þetta er miklu betra svona, þegar stelpurnar mega ekki fara úr öllu. Þetta er fallegra. Meira sexí. Ég myndi segja að þetta skapaði líka meira öryggi á staðnum. Það er erfitt að útskýra þetta fyrir útlendingum, en Íslendingarnir skilja alveg að það megi ekki snerta. Lög eru lög. Niðri í bæ eru oft slagsmál um helgar en ekki hér hjá mér. Ég hef þurft að kalla á lögregluna nokkrum sinnum síðustu sjö árin og í öll skiptin hefur það verið út af útlendingum.“

En hefur þessi bransi gert hana ríka?

„Er ég orðin rík?“ segir hún með fáti, tekur sér drykklanga stund til umhugsunar og svarar síðan: „Ég er ekki rík, en ég á það sem ég þarf, sem betur fer.“

„Geiri er dáinn“

Jaroslava og Geiri ákváðu að skilja í lok febrúar árið 2012, en voru áfram í mjög góðu sambandi. Þótt Geiri flytti af heimilinu í Kópavogi út á Álftanes var hann heimalningur hjá Jaroslövu. Eins og þruma úr heiðskíru lofti komu fréttirnar um vorið 2012 að Geiri væri dáinn. Hann varð bráðkvaddur þann 19. apríl.

Jaroslava og Geiri á jólunum með dóttur sinni, Alexöndru. Mynd: Úr einkasafni

„Ég var að fagna fertugsafmæli mínu og ákvað að fara út til mömmu minnar í Eistlandi á afmælinu mínu. Geiri vildi ekki koma með. Hann hringdi ekki á afmælinu mínu, sem mér fannst skrýtið. Síðan fór ég að sofa og vinur okkar hringdi í mig daginn eftir og sagði: Geiri er dáinn,“ segir Jaroslava og verður hljóð. „Þetta var mikið sjokk. Það bjóst enginn við þessu.“

Hvort það er tilviljun eða kaldhæðni örlaganna að Geiri hafi látist er eiginkona hans til þrettán ára fagnaði fertugsafmæli sínu fæst aldrei úr skorið, en hjátrú fylgir því í Rússlandi að fagna þessum áfanga. Þótt Jaroslava sé frá Eistlandi talar hún reiprennandi rússnesku og hefur tileinkað sé ýmislegt frá Rússlandi.

„Það er hjátrú í Rússlandi að halda ekki upp á fertugsafmæli. Það þykir boða ógæfu. Ég var búin að ákveða að fara út til mömmu en ætlaði ekki að halda partí. Ég var búin að lesa mikið um þessa hjátrú, en mamma sagði mér að vera ekkert að trúa þessu og sannfærði mig um að fara út að borða. Ég hélt að ég myndi ekki vakna næsta dag út af þessari hjátrú en það var Geiri sem vaknaði ekki.“

Jaroslava leyfir sér ekki að dvelja í fortíðinni og veltir sér ekki upp úr því hvað hefði orðið ef hún hefði ekki farið út að borða þennan örlagaríka dag.

„Allt sem var, er farið og eftir standa góðar minningar.“

Grét fyrstu vikurnar

Lífið eftir andlát Geira var erfitt.

„Ég sakna Geira. Þegar hann féll frá var ég ein. Ég þurfti að rífast ein og hugsa um Goldfinger ein. Ég vann aldrei á Goldfinger á meðan Geiri var á lífi. Fyrstu vikurnar grét ég bara og var ekki viss um að ég gæti þetta. Þetta var mjög erfitt og mér fannst þetta of mikið. Ég var alein á barnum og vinkona mín hjálpaði mér í dyravörslu. En fólk sýndi mér mikla virðingu og það er það sem bjargaði mér. Ég fékk stuðning frá mörgum og gat vælt við öxlina á sumum. Síðan tók ég þetta bara hægt og rólega, einn dag í einu. Margir vissu ekki einu sinni að ég væri ekkjan hans Geira. Enn þann dag í dag kemur fólk á Goldfinger sem hefur ekki hugmynd um hver ég er. Við vorum góð saman. Ég er sterk kona, en það var gott að hafa Geira.“

Fráfall Geira hafði áhrif á alla fjölskylduna, en dóttir þeirra Jaroslövu hefur ekki opnað sig mikið um þetta áfall.

„Alexandra var 12 ára og vildi ekki tala um þetta. Krakkar taka á dauðanum öðruvísi en við fullorðna fólkið. Hún vill ekki að fólk spyrji um þetta og hún fattar að hún þarf að halda áfram með lífið. Hún er sterk og jákvæð og gerir sér grein fyrir að þegar við mætum áföllum þurfum við að ákveða hvort við dettum á botninn eða höldum áfram.“

Ítarlegt viðtal við Jaroslövu má finna í helgarblaði DV.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrirsætan gagnrýnd harðlega: Kærastinn er 16 ára en hún 21 árs

Fyrirsætan gagnrýnd harðlega: Kærastinn er 16 ára en hún 21 árs
Fókus
Fyrir 2 dögum

Myndaveisla: Ásdís Rán fagnaði 45 ára afmæli

Myndaveisla: Ásdís Rán fagnaði 45 ára afmæli
Fókus
Fyrir 3 dögum

Stúlkurnar sem keppa um titilinn Ungfrú Ísland á morgun

Stúlkurnar sem keppa um titilinn Ungfrú Ísland á morgun
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kom fram í þakkarmyndbandi í miðri krabbameinsmeðferð

Kom fram í þakkarmyndbandi í miðri krabbameinsmeðferð