Í sumar var fyrsta stjarna íslenskrar tónlistar afhjúpuð fyrir framan Bæjarbíó í Hafnarfirði. Björgvin Halldórsson fékk þann heiður að nafn hans var grafið í gangstéttina fyrir framan Bæjarbíó og áttu svo allir íslenskir tónlistarmenn að geta fengið stjörnu. En það verður ekki lengur hægt og hefur stjarna Björgvins verið fjarlægð. RÚV greinir frá.
Viðskiptaráð Hollywood í Los Angeles frétti af stjörnu Björgvins og kvartaði undan því að þarna væri að nota höfundaréttavarða stjörnu í gangstétt.
The Walk of Fame er mjög fræg gata í Hollywood þar sem fjölmargar stjörnur hafa fengið þann heiður að nafn þeirra sé grafið í stjörnu í gangstéttinni.
Bæjarráðið í Hafnarfirði ákvað að fjarlægja stjörnuna, þrátt fyrir að höfundaréttur stjörnunnar eigi ekki endilega við á Íslandi, en engin réttarfordæmi eða bein lagastoð geta staðfest það.