Dúettinn Dr. Mister & Mr. Handsome steig fram á sjónarsviðið árið 2006 og hristi allrækilega upp í landsmönnum, þó ekki ávallt á góðan hátt. Sveitin gaf út plötuna Dirty Slutty Hooker Money og urðu mörg lög af plötunni afar vinsæl, þó helst Kokaloca og Is It Love? Það sem vakti þó minni lukku var yrkisefni tvíeykisins, þeirra Ívars Arnar Kolbeinssonar, Dr. Mister, og Guðna Rúnars Gunnarssonar, Mr. Handsome. Þeir sungu helst um kókaín, krakkhórur og kvenfyrirlitningu.
Ívar og Guðni báru því ávallt við að Dr. Mister og Mr. Handsome væru skáldaðar persónur – að hljómsveitinni hefði verið ætlað að gera grín að klúbbamenningu sem kennd er við teknósveitina Scooter. „Þetta er bara konseptið á plötunni, við erum að leika karaktera og þeir eru svona djöfulli harðir,“ sagði Ívar í viðtali við Fréttablaðið í júlí árið 2006. „Þetta er bara list, það er flottur glans á þessu og þetta kemur bara mjög vel út, bara útúrgott klúbbastöff.“
Listræni parturinn var einnig umdeildur og fékk Dirty Slutty Hooker Money frekar dræma dóma. Vissulega þótti tónlistin grípandi en textarnir frekar slappir.
„Ef hljómsveitin gefur sér betri tíma til þess að vinna næstu plötu, og einhvern annan til að sjá um textasmíðarnar, þá eru Dr. Mister & Mr. Handsome meira en færir um að ná þeim háleitu markmiðum sem þeir hafa sett sér,“ skrifaði Atli Bollason í plötudómi í Morgunblaðinu. Í sama dómi furðaði Atli sig á að ekki meira fjaðrafok hefði orðið vegna „ærslabelgjanna“ eins og þeir voru oft kallaðir, þeir Ívar og Guðni.
„Undirrituðum þykir sérkennilegt að platan sem hér er til umfjöllunar skuli ekki hafa hlotið meiri (neikvæða) umfjöllun í formi lesendabréfa og/eða í umræðuþáttum í útvarpi og sjónvarpi. Kókaín og kvenfyrirlitning eru meginþemun á Dirty Slutty Hooker Money, og hvort tveggja er æskilegt að dómi Dr. Mister og Mr. Handsome. Menn hafa nú verið hengdir í fjölmiðlum fyrir minna.“
Gagnrýnisraddir urðu þó háværari eftir að Ívar birtist á forsíðu Sirkus, fylgirits Fréttablaðsins, undir fyrirsögninni: „Ætla að djamma þar til ég drepst.“ Það viðtal var afar opinskátt, svo vægt sé til orða tekið. Í byrjun þess lýsti Ívar ferðalagi hljómsveitarinnar til Akureyrar.
„Ég er fokking klóraður eftir stelpurnar. Þær voru brjálaður. Ein þeirra runkaði mér baksviðs skömmu áður en fíknó mætti með hund og gómaði einn okkar með dóp. Við enduðum svo í brjáluðu eftirpartýi, duttum herfilega í það og flugum svo beint í bæinn til að spila á styrktartónleikum Forma, illa góðir því,“ sagði hann og bætti við að hann væri á föstu – með kókaíni. Þá sagðist hann einnig hafa unnið fyrir sér sem dópsali og neytti stíft fíkniefna. Stuttu áður en viðtalið var tekið var Ívar á Vogi í sex daga en nennti ómögulega að verða edrú. Er blaðamaður spurði hann hvort hann vildi ekki hætta í dópinu stóð ekki á svörunum:
„Nei. Þetta er lífið í kringum bandið. Það fylgir þessu veisla og geðveiki. Ég fíla þetta í botn og ætla að halda þessu partýi gangandi þar til ég dey.“
Meðal þeirra sem gagnrýndu viðtalið við Ívar á sínum tíma var tónlistarmaður Bubbi Morthens, sem hefur marga fjöruna sopið.
„Ef hann finnur ekki lausn á þessu hefur hann fullan rétt á að drepa sjálfan sig á eiturlyfjaneyslu,“ sagði hann í samtali við Sirkus nokkru síðar. „Það er nú samt eitthvað sem segir manni að þessi drengur sé mjög firrtur og honum líði ekki vel og allt það. En hann hefur samt fullan rétt til þess að lifa svona.“
Valgerður Pálmadóttir, sem þá var nemi í kynjafræði, gagnrýndi Dr. Mister & Mr. Handsome einnig harðlega í Fréttablaðinu.
„Það er ekkert sem gefur til kynna að þetta sé grín og þetta er greinilega ekki ádeila. Mér finnst þetta svipað og Snoop Dog, hann var alltaf með örgustu kvenfyrirlitningu í texta og fólki fannst það bara fyndið og kúl. Svo var hann kærður fyrir hópnauðgun fyrir stuttu síðan. Þetta er greinilega meira en húmor,“ sagði hún. Fleiri tóku í sama streng. Sólmundur Hólm var hins vegar meðal þeirra sem voru hæstánægðir með músíkina.
„Allt sem sagt er er tekið of bókstaflega. Vissulega syngja þeir um kókaín, hórur og skítugar druslur en þegar ég hlustaði á diskinn, þá langaði mig ekki neitt í kókaín, ekki heldur í skítuga hóru eða druslu. Þess í stað langaði mig til að fara út á gólf og dansa eins og mutha fucka,“ skrifaði hann í DV.
Svo fór að hljómsveitin lagði upp laupana síðla árs 2006. Í frétt Fréttablaðsins var ástæða slitanna rakin, en hún tengdist því að hljómsveitin gat ekki spilað á tónleikum því Ívar stóð ekki við loforð sitt um að vera edrú. Þá átti Ívar einnig að hafa hirt pening af hinum hljómsveitarmeðlimum, sem þá voru orðnir fleiri en þeir tveir, hann og Guðni. Í kjölfarið flutti Ívar til Danmerkur en sneri aftur til Íslands nokkru síðar og stofnaði meðal annars hljómsveitirnar The Musik Zoo og The Krooks. Þá var hann einnig dæmdur fyrir akstur undir áhrifum vímuefna sem og bendlaður við vopnað rán í 10-11. Séð og Heyrt sagði Ívar hafa keypt pylsu fyrir ránsfenginn og farið í meðferð. Síðan þá hefur lítið farið fyrir honum eða sálugu sveitinni Dr. Mister & Mr. Handsome.