Níunda og nýjasta kvikmynd leikstjórans Quentins Tarantino hefur notið mikilla vinsælda frá útgáfu hennar í sumar. Á hinum ýmsu sjóræningjasíðum svonefndum hafa margir ólmir beðið eftir því að geta sótt umrædda kvikmynd án greiðslu. Vakti það annars vegar athygli þegar í ljós kom að fyrsta eintakið af myndinni sem lekið var, og var afritað af stafrænni útgáfu, er upprunnið frá Íslandi.
Notendur ráku ýmsir upp stór augu þegar í ljós kom að skráin sem var hlaðin upp innihélt íslenskan texta og uppskar það nokkrar kvartanir af ummælum að dæma. Kvikmyndin var gefin út á Íslandi á stafrænu formi þann 14. nóvember, heilli viku áður en hún var fáanleg í öðrum löndum á heimsvísu.
Má geta þess að Once Upon a Time in Hollywood er hlaðin hinum ýmsu Íslandstengingum. Til að mynda fer leikkonan María Birta með staðgengilshlutverk sem Playboy-kanína og glittir jafnframt í förðunarmeistarann Hebu Þórisdóttur sem fer einmitt með hlutverk förðunarkonu með framandi hreim.