Fjölmiðlakonan Lóa Pind hefur ferðast víða um heiminn og heimsótt Íslendinga í þáttunum Hvar er best að búa? Önnur þáttaröð fór af stað á dögunum. Í tilefni af því ákvað Ísland í dag að spyrja Lóu sjálfa hvar henni þætti sjálfri best að búa.
„Það þýðir eiginlega ekkert að spyrja mig. Ég var búin að taka ákvörðun áður en ég byrjaði yfirhöfuð á þessari seríu: „Mig langar að búa í Andalúsíu á Spáni,“ segir Lóa.
Draumurinn er að kaupa sveitabæ í jaðri þorps, gera upp og koma upp sítrónugarði og appelsínutrjám… Eða eyða ellinni þar allaveganna. Ég elska Ísland samt, svo það sé alveg á hreinu. Ég er ekki að reyna að koma þjóðinni úr landi.“
Þegar Lóa er spurð að því hvar vesenisstuðullinn vhafi verið verstur í sjónvarpsþáttum hennar segir hún svarið vera tvímælalaust í Katar.
„Það var gríðarlegt vesen, því ég komst að því þegar við komum þangað að við mættum ekki mynda í landinu. Það var pínu vesen, sem þýðir að við þorðum lítið að taka upp kameruna á almannafæri, sem er mjög fúlt þegar maður vill mynda framandi samfélag,“ segir Lóa.
Fjölmiðlakonan segir stóran hluta þeirra sem hún heimsækir í þáttunum vera fólk sem vill flýja kuldann á Íslandi. „Fólk er yfirleitt ekki að flytja út til að flýja Íslenskt samfélag, en ætli þetta sé ekki bara í manneskjunni?“ spyr Lóa. „Þetta er almennt fólk sem hefur framtak og drift, fólk sem er kraftmikið. Letingjarnir fara ekkert.“