Bandaríski leikarinn Rainn Wilson, sem margir hverjir þekkja úr sjónvarpsþáttunum The Office, kíkti til Íslands á dögunum og vinnur að ferðaþáttum sem fjalla um loftslagsmál víða um heiminn. Wilson var einnig staddur á Íslandi í sumar við tökur á sjónvarpsþáttaröðinni Ráðherrann.
Einar Þór Gústafsson, einn stofnandi Getlocal, birti nokkrar myndir á samfélagsmiðlum sínum þar sem leikarinn sést ræða við ýmsa krakka um loftslagsbreytingar.
My kids discussing the climate change with @rainnwilson after the school strike #schoolstrike4climate pic.twitter.com/3rmF0Sl1FL
— Einar Þór Gústafsson (@einargustafsson) September 27, 2019
Stefán Atli Rúnarsson, annar helmingur afþreyingarmiðilsins Ice Cold, hitti á leikarann á Reykjavíkurflugvelli rétt áður en ferðinni var heitið á næsta áfangastað og segir Stefán hittinginn hafa verið afar minnisstæðan. „Ég stamaði eitthvað þegar ég reyndi að tala við hann. Ég hef aðeins einu sinni áður á ævinni verið „starstruck“ og þetta var seinna skiptið. Hitt skiptið var þegar ég var unglingur og hitti á Tiny úr hljómsveitinni Quarashi,“ segir Stefán í samtali við Fókus.
„Þegar ég spyr hvað hann er að gera hérna á landinu, dregur hann upp myndavél og segist vera að „vlogga.“ Hann byrjar að taka mig upp á vélina í miðju spjalli og var voða hress. Ég spyr hann að sjálfsögðu hvort ég megi fá sjálfu með honum og hann vildi endilega ná því á upptöku. “
Stefán heldur áfram: „Hann spurði mig hvað ég gerði og ég sagðist vera með eina stærstu „vlog“ YouTube-síðu á Íslandi. Þá spyr hann mig hvort ég sé með einhver ráð til að „vlogga“ en það sem er í rauninni fyndnara er að kvöldið áður ákvað ég að horfa aftur á The Office og hugsaði þá með mér: „sjitt, hvað þetta eru góðir þættir.““
Eftir Íslandsstoppið hélt Wilson til Grænlands en leikarinn birti færslu á Instagram-síðu sinni þar sem hann stóð á öndinni yfir landslaginu þar:
„Maður lifandi, ég hef aldrei séð neitt þessu líkt,“ segir Wilson.