Fyrirsætan Kelleth Cuthbert sem búsett er í Los Angeles vakti mikla athygli í gær og er orðin velþekkt eftir að hún fótó-bombaði fullt af myndum teknum á rauða dreglinum á Golden Globes í gær.
Cuthbert sést í bakgrunninum á fjölda mynda teknum af stórstjörnum kvöldins þar sem hún stendur í bláum kjól í stíl við vatnsflöskurnar sem hún heldur á bakka af.
Á mörgum myndanna brosir Cuthbert beint framan í myndavélina, líkt og hún sé viðfangsefnið, á meðan hún lítur til hliðar á öðrum.
Fjöldi Twitter notenda lýsti yfir ánægju sinni og taldi að þarna væri stjarna fædd. „Í lok kvöldsins verður hún komin með kvikmyndasamning eða búin að myrða nokkrar stjörnur,“ skrifaði einn þeirra.
Glamour tímaritið hrósaði henni fyrir hæfni hennar til að grípa tækifærið. „Þessi kona er ekki tilnefnd fyrir neitt, hún er bara að halda á vatni fyrir stjörnurnar á rauða dreglinum, en nær að mjólka stöðu sína og við erum að elska þetta.“
Cuthbert kom fram í minnst einu viðtali, þar sem hún sagði við LA Times að þetta væri allt „útpælt, þú verður að finna rétta sjónarhornið.“
Virtist hún jafnframt þakklát fyrir alla athyglina og deildi mörgum klippum af greinum um sig í Instagram story auk myndar af henni á rauða dreglinum, án nokkurra stjarna.
Myndum af henni var fljótlega breytt í meme.
Cuthbert er á mála hjá Wilhelmina, sömu umboðsskrifstofu og Kendall Jenner byrjaði hjá, og hefur Cuthbert setið fyrir í fjölda auglýsingamynda fyrir hin ýmsu fyrirtæki.