Hljómsveitin DIMMA spilaði á aðfangadag á Litla Hrauni ásamt Bubba Morthens, en þar hefur Bubbi spilað í 30 ár. Í byrjun janúar tók Egill Örn Rafnsson svo við trommukjuðunum úr hendi Birgis Jónssonar.
Í dag fóru DIMMU drengir í heimsókn í fangelsið á Hólmsheiði þar sem Páll Winkel fangelsismálastjóra tók á móti þeim og tók við góðri gjöf frá DIMMU.
Páll Winkel, hljómsveitarmeðlimir DIMMU Egill Örn, Ingó, Silli og Stebbi, ásamt Halldóri Val Pálssyni, forstöðumanni Litla Hrauns og Sogns.
„Eftir að við spiluðum á Hrauninu á aðfangadag komu fangar til mín og voru að spyrja í hvaða búðum væri hægt að kaupa plöturnar okkar,“ segir Silli Geirdal, bassaleikari DIMMU í samtali við DV. „Þá datt mér í hug að gefa öllum fimm bókasöfnum og stúdíóinu á Sogni allar Dimmuplöturnar, Jak plötuna og að auki plöturnar sem við gerðum með Bubba.“
„Það er alveg gaman að taka á móti embættismönnum í vinnunni en það var óneitanlega skemmtileg tilbreyting að kynna þessum herramönnum Hólmsheiði. Takk fyrir komuna,“ segir Páll.