Sölvi Tryggvason fjölmiðlamaður og rithöfundur opnar sig inn að kviku í helgarviðtali við Fréttablaðið sem birt er á morgun. Sölvi sem lengi starfaði fyrir Stöð 2 og stýrði þáttum á Skjá einum við góðan orðstír og var einn okkar allra vinsælasti fjölmiðlamaður segir frá því að hann hafi verið greindur með kvíðaröskun á háu stígi, athyglisbrest, svimaheilkenni, með tvær eða þrjár krónískar meltingartruflanir, fótaóeirð, síþreytu, kulnun og margt fleira.
Sölvi hefur nú skrifað bók um reynslu sína og greinir þar frá hvaða meðhöndlun hann fékk og hvaða leið hann fór til að ná bata. Nú vill hann miðla reynslu sinni. DV birtir brot úr viðtalinu sem má nálgast í heild sinni á vef Fréttablaðsins og gefur nánari mynd af því hver leið Sölva var út úr ógöngunum. Sölvi eins og margir sem veikjast af kvíða faldi það um skeið og í raun alltof lengi svo ástandið vatt uppá sig. Á einum stað segir Sölvi:
„Ég var því alltaf að fara á klósettið, það var eini staðurinn sem ég gat farið á til að ná áttum. Þar stóð ég því bara, lokaði að mér og reyndi að ná áttum eftir að hafa tekið þriggja mínútna símtal. Þetta hljómar fáránlega og ég get hlegið að þessu núna, en á þessum tímapunkti gat ég einhvern veginn ekki bara sagt: Heyrðu, ég er bara sárlasinn.“
Það var síðan sem Sölvi var í ferð erlendis í Kyoto í Japan, fjarri vinnunni og öllum heimsins vandamálum á Íslandi sem hann uppgötvaði að hann gæti mögulega náð aftur að verða hann sjálfur og trú á að honum gæti batnað:
„Ég gæti orðið sjálfum mér líkur aftur. Allar þessar pillur, allar þessar læknisheimsóknir en svo fann ég loks einhverja lausn þegar ég var bara í léttum göngutúr í fallegri borg.“
Sölvi fór svo í langt frí en þegar hann hóf aftur störf á Fréttastofu Stöðvar 2 byrjuðu einkennin að láta aftur á sér kræla en Sölvi hafði ekki verið lengi við störf þegar hann var rekinn eftir að hafa gefið Stöð 2 fimm ár af lífi sínu. Þá tók við vikulegur þáttur á Skjá einum, Málið, þáttur sem sló í gegn. Þetta var árið 2013. Sölvi gerði þætti um barnaníð, vændi og undirheimana. Í kjölfarið var honum hótað af tveimur hættulegum mönnum af Litla Hrauni.
Ég þorði ekki að sofa í íbúðinni minni í heila viku og fann að nú væri komið gott af öllum þessum þyngslum,“ segir Sölvi og bætir við:
„Ég ákvað þarna að taka heilsuna miklu fastari tökum og leita eigin lausna, þar sem ég hafði fengið verulega lítið úr langferð minni til allra helstu sérfræðilækna sem hægt er að nefna. Ég fór að prófa mig áfram með jóga, hugleiðslu og köld böð.“
Um þetta leyti fór Sölvi að huga betur að næringu og kafa dýpra í allt sem viðkemur heilsu:
„Ég fór smám saman úr því að kveljast í kvíða yfir öllum mögulegum og ómögulegum hlutum yfir í það að ganga upp Esjuna á stuttbuxum í janúarmánuði,“ segir Sölvi og bætir við:
„Grínlaust, þá breytti öll þessi hreyfing og hugleiðsla lífi mínu. Líkami og hugur eru nátengd fyrirbæri.“
Fyrir ári ákvað Sölvi að leggja snjallsímanum og vinda sér í bókaskrif: „Ég er í bókinni að deila öllu sem ég hef lært.“
Viðtalið í heild má lesa á vef Fréttablaðsins.