Áramótaskaupið 2018 er milli tannana á fólki á nýju ári, eins og venjan er, og sitt sýnist hverjum um ágæti þess. En hvort sem fólki finnst skaupið gott, lélegt eða eitthvað þar á milli, þá er frammistaða leikaranna með miklum ágætum, bæði reyndra leikara, sem flestir þekkja og leikara af yngri kynslóðinni, sem jafnvel eru að stíga sín fyrstu skref frammi fyrir alþjóð.
Einn af fulltrúum yngri kynslóðarinnar er Rakel Björk Björnsdóttir, sem gerir sér lítið fyrir og bregður sér í gervi Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra með miklum ágætum og nær hún andlitsgeiflum Katrínar einstaklega vel. Rakel Björk er nemandi á lokaári við Listaháskóla Íslands. Hún hefur fengist töluvert við leiklist síðustu ár og kom meðal annars fram í kvikmyndunum Falskur fugl og Þrestir.
Hún lagði stund á söngnám áður en hún fór í leiklistina og 2016 kom út frumraun hennar í söngheiminum, What If.