Tvær stjörnur slást í hópinn með Ed Sheeran á Laugardalsvellinum 10. og 11. ágúst í sumar. Um er að ræða tvo gríðarlega vinsæla listamenn á heimsvísu þannig að dagskráin sem er í vændum í sumar á þessum sögulegu tónleikum er engu lík.
Sænska poppstjarnan Zara Larsson og breski tónlistarmaðurinn James Bay verða upphitunaratriði á öllum tónleikum Ed Sheeran á tónleikaferðalagi hans og þar með talið á Íslandi.
Zara Larsson hélt tónleika í uppseldri Laugardalshöll í október 2017 og komust færri að en vildu en James Bay hefur aldrei áður komið fram á Íslandi.
Zara Larsson er ung að aldri en hefur afrekað mikið nú þegar. Aðeins 15 ára var hún með vinsælasta lagið á Norðurlöndunum, Uncover. Fjórum árum seinna gaf hún út plötuna So Good og lög á henni heilluðu heiminn og náðu toppsætum á vinsældarlistum í Bretlandi og í Bandaríkjunum. Nýlega gaf hún út lagið Ruin my Life sem hefur fengið góða spilun hér á landi og erlendis, en hún stefnir á að gefa út sína þriðju plötu á árinu.
James Bay er breskur söngvari, lagahöfundur og gítarleikari. Árið 2014 gaf hann út lagið Hold Back the River sem náði platínum sölu og í kjölfarið gaf hann út plötuna Chaos and the Calm sem fór á toppinn í Bretlandi og Bandaríkjunum. James hefur unnið til ótal verðlauna og verið tilnefndur til Grammy verðlauna þrisvar. Hann gaf út plötuna Electric Light í fyrra.
Uppselt er á tónleikana 10. ágúst eins og frægt er orðið en þeir seldust upp á skotstundu. Enn er hægt að tryggja sér miða á aukatónleikana 11. ágúst, í sitjandi svæði A og B sem og standandi svæði, en sitjandi C svæði er uppselt á aukatónleikunum.