Lifum lengur, er nafn átta heimildarsjónvarpsþátta í umsjón Helgu Arnardóttur sjónvarpskonu sem sýndir eru hjá Sjónvarpi Símans Premium. Vísindalegir heimildaþættir um heilsu á mannamáli.
Fólki með kulnun í starfi fjölgar óeðlilega hratt á Íslandi. Vinnumenning hefur breyst eftir hrunið og aukið álag hefur verið á starfsfólki en nú virðist vera komið að þolmörkum.
Pétur Einarsson hagfræðingur upplifði alvarlega kulnun í starfi þegar hann starfaði í íslenskum banka og var búsettur í Lundúnum árið 2003. Hann lýsir því þannig að hann hafi alltaf verið mættur fyrstur í vinnuna kl. 6 á morgnana og hafi alltaf viljað klára að tæma tölvupósthólfið áður en hann fór heim á kvöldin.