Lagið Get The Party Started frá árinu 2001 er einn þekktasti smellur söngkonunnar Pink og og er á annarri plötu hennar, Missundaztood, en hún seldist í 13 milljón eintökum á heimsvísu.
En lagið var upphaflega ekki ætlað fyrir Pink, heldur aðra þekkta söngkonu, enga aðra en Madonnu.
Höfundur og framleiðandi lagsins, Linda Perry, sagði frá þessu í viðtali við Rolling Stones um helgina.
Lagið var fyrst sent til Madonnu, sem hafnaði því. „Ég sendi það til Madonnu, sem sagði pass. Viku seinna hringdi Alecia (Pink) í mig. Hún skildi eftir pínu klikkuð skilaboð um að hún myndi koma og finna mig ef ég hringdi ekki til baka.“
Perry sem er þekkt sem forsprakki kvennasveitarinnar 4 Non Blondes sagði að hún hefði talið að Pink væri ekki rétta söngkonan fyrir lagið. „Ég sá hvernig hún leit út, svona bling-bling stelpa og ég sagði: „Ég held að þú sért með ranga Lindu Perry.“
Pink var hins vegar ákveðin í að vinna Perry á sitt band. Fór svo að Perry sendi lagið, sem hún var nýbúin að semja til Pink. Lagið sem er orðið 18 ára gamalt fór í 4. sæti á Billboard Hot 100 listanum og varð gullplata í Bandaríkjunum.
Perry segir að Pink hafi unnið hylli sína með hæfileikum hennar og hæversku. „Hún er frábær. Ég sagði við hana að platan myndi slá í gegn. Pink bara hló að mér, en ég stóð fast á því að hún myndi breyta öllu fyrir hana í bransanum. Pink trúði mér ekki. En það kom á daginn að ég hafði rétt fyrir mér.“
Pink er ein af mest seldu tónlistarmönnum heims, með yfir 40 milljónir platna og 50 milljónir laga seld á heimsvísu.
Lagið samdi Perry upphaflega hálfpartinn í gríni til að láta reyna á upptökugræjurnar. „Ég hringdi svo í útgefandann minn og sagðist vera búin að semja hittara.“