Frá árinu 2005 hafa Byggðastofnun, Air Iceland Connect og Listahátíð í Reykjavík veitt viðurkenningu í nafni Eyrarrósarinnar til afburða menningarverkefna utan höfuðborgarsvæðisins. Eyrarrósinni er ætlað að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista.
Alls bárust 30 umsóknir um Eyrarrósina 2019 hvaðanæva af landinu en sex þeirra hafa nú verið valin á Eyrarrósarlistann og eiga þar með möguleika á að hljóta tilnefningu til sjálfra verðlaunanna í ár.
Á Eyrarrósarlistanum 2019 birtast nöfn þeirra sex verkefna sem eiga möguleika á að hljóta verðlaunin í ár. Sjálfri Eyrarrósinni fylgir tveggja milljón króna verðlaunafé en að auki munu tvö verkefnanna hljóta 500 þúsund króna verðlaun.
Eyrarrósarlistinn 2019:
Eyrarrósin verður afhent við hátíðlega athöfn 12. febrúar í Garði, Suðurnesjabæ, heimabæ alþjóðlegu listahátíðarinnar Ferskra Vinda sem er handhafi Eyrarrósarinnar frá síðasta ári. Frú Eliza Reid, verndari Eyrarrósarinnar mun afhenda verðlaunin.
Leiklistar- og listahátíðin Act Alone, sem haldin verður í 16. sinn í sumar á Suðureyri, hefur markað sér algera sérstöðu á landsvísu með því að helga sig listum þar sem aðeins ein manneskja stendur á sviðinu. Frá upphafi hefur verið ókeypis á alla viðburði hátíðarinnar og er hún farin að laða að sér fastan hóp gesta bæði heimafólks og annarra. Hátíðin stendur yfir eina helgi í ágúst og boðið er upp á um 20 viðburði hverju sinni. Í ár verður boðið meðal annars upp á leiklist, dans, tónlist, myndlist, ritlist og gjörningalist og sérstök áhersla lögð á fjölskylduviðburði.
Undanfarin fjögur ár hefur Gamanmyndahátíð Flateyrar verið að festa sig í sessi. Hátíðin er ein af örfáum gamanmyndahátíðum Evrópu en um 30 íslenskar gamanmyndir eru sýndar á hátíðinni ár hvert; stuttmyndir eftir unga leikstjóra í bland við þekktar myndir í fullri lengd. Tæplega eitt þúsund gestir sóttu viðburði hátíðarinnar á síðasta ári sem fóru flestir fram í gömlum bræðslutanki á Flateyri. Auk gamanmynda býður hátíðin upp á gamansamar leiksýningar, tónleika,uppistand, hláturjóga, vinnusmiðjur, listamannaspjall og fleira.
List í ljósi hefur vaxið ásmegin ár frá ári og laðar nú að sér breiðan hóp listafólks og gesta til þátttöku í metnaðarfullri og fjölbreyttri dagskrá. Í ár stendur hátíðin meðal annars fyrir verkefni með aðkomu listafólks frá öllum Norðurlöndum sem munu skapa ljósaverk sérstaklega fyrir hátíðina. Hápunktur List í ljósi er listaganga þar sem öll götu- og húsaljós í bænum eru slökkt og gestir geta gengið milli sýningarstaða til að njóta kvikmynda, innsetninga og ljósverka af ýmsum toga. Rík áhersla er lögð á þátttöku almennings í hátíðinni sem er bæði ókeypis og fjölskylduvæn.
LungA skólinn er tilraunakenndur jarðvegur fyrir sköpun, listir og fagurfræði sem rekinn hefur verið af miklum metnaði á Seyðisfirði frá vorönn 2014 í góðum tengslum við LungA hátíðina. Hann er listaskóli fyrir þá sem hafa opinn huga, fyrir þá ótömdu og fyrir þá sem vilja rannsaka. Skólinn ýtir undir sérstöðu hvers einstaklings og styður við bakið á nemendum svo þeir finni sér sína leið í átt að sterkari sjálfsmynd, ásamt því að þroskast, skilja betur heiminn og finna sitt hlutverk í honum. Í 84 daga – eða 12 vikur fá um það bil 20 ungmenni tækifæri til að þroska sig sem listamenn undir leiðsögn reynslumikils listafólks víðs vegar að úr heiminum.
Alþjóðlega kvikmyndahátíðin Norðanáttin (Northern Wave), Snæfellsbæ
Northern Wave er eina alþjóðlega stuttmyndahátíðin á Íslandi en hún verður haldin í tólfta sinn í ár og hefur nú fest rætur í Frystiklefanum á Rifi, Snæfellsbæ. Hátíðin býður upp á fjölbreytt úrval alþjóðlegra stuttmynda, hreyfimynda, vídeóverka og íslenskra tónlistarmyndbanda, auk viðburða eins og fiskiréttasamkeppni, fyrirlestra,vinnustofur og tónleika. Markmið hátíðarinnar er að auka menningarframboð á landsbyggðinni og sameina fólk úr ólíkum bæjarfélögum, af ólíkum þjóðernum ogfrá ólíkum listgreinum.
Plan-B Art Festival, Borgarnesi
Í þrjú ár hefur grasrótar-myndlistarhátíðin Plan-B verið að festa sig í sessi í Borgarnesi og nærumhverfi. Um er að ræða alþjóðlega hátíð sem er vettvangur fyrir ungt listafólk sem er nýlega farið að vekja athygli á sviði myndlistar og gjörningalistar en er einnig opin reynslumeira listafólki. Plan-B leggur áherslu á tilraunakennda og ögrandi list. Hátíðin fer fram víðs vegar í Borgarnesi í
óhefðbundnum rýmum, svo sem yfirgefnum verksmiðjum, geymslum, skemmum og hálfkláruðum byggingum.