Lifum lengur, er nafn átta heimildarsjónvarpsþátta í umsjón Helgu Arnardóttur sjónvarpskonu sem sýndir eru hjá Sjónvarpi Símans Premium. Vísindalegir heimildaþættir um heilsu á mannamáli.
Svefnleysi ungmenna er mikið áhyggjuefni og er talið að 40% 10.bekkinga fái ekki fullan svefn samkvæmt úttekt sem gerð var. Orkudrykkjaneysla er orðin of mikil meðal ungmenna í grunn-og framhaldsskólum og hefur alvarleg áhrif á svefn þeirra þar sem þeir innihalda mikið koffín. Maciej Stanislav Kudla í 10.bekk Norðlingaskóla segist stundum leita í orkudrykki ef hann er þreyttur og Tinna Grönfeldt á 1. ári í menntaskóla segir orkudrykki fara illa í sig og valda kvíða en hún drekki þá af og til.
Vinsælasti orkudrykkur meðal ungmenna inniheldur 105 mg af koffíni, ef ungmenni drekka 4 slíka á dag þá eru þau að innbyrða koffín sem jafngildir rúmlega fjórum kaffibollum. Það er meira en ráðlagður dagsskammtur fyrir fullorðna. Erla Björnsdóttir svefnsérfræðingur segir þetta alvarlega þróun.