Heiðdís Sigurðardóttir, sem varð átta ára 24. janúar, er búin að vera stuðningsmaður Kristófers Acox, 25 ára leikmanns KR í körfubolta, frá því hún sá hann fyrst á landsleik fyrir nokkrum árum.
Hún var búin að óska sér þess heitt að fá KR-búning í jólagjöf, en það er samt erfitt fyrir dyggan Grindjána, en Heiðdís býr í Grindavík ásamt foreldrum sínum og systkinum.
„Millileiðin var farin,“ segir Herdís Gunnlaugsdóttir, móðir Heiðdísar. „Henson reddaði okkur með treyjuna og er hún gjöf frá okkur foreldrum hennar og systkinum.“ Auðvitað var númer 6 sett aftan á treyjuna, númer Kristófers.
Myndirnar eru teknar á leik KR og Grindavíkur síðasta mánudag, 21. janúar, í DHL höllinni í 8 liða úrslitum Geysisbikarkeppninar. KR vann 129-56.