„Ég roðnaði og klökknaði í tíma og ótíma. Sjálfsmyndin var engin, sjálfstraustið ekkert, sjálfsvirðingin engin. Ég fór ekki í félagsmiðstöðvar. Tók ekki þátt í neinu með bekkjarfélögunum. Það eina sem hélt mér gangandi voru íþróttir vegna þess að ég var sæmilegur í þeim. Þar fékk ég útrásina, þó mér hafi liðið illa þar og svona eru mín ár í grunnskóla,“ sagði Eymundur Eymundsson, verkefnastjóri hjá Grófinni, geðverndarmiðstöð á Akureyri, í samtali við Ísland í dag. Eymundur hefur verið áberandi í umræðu um geðraskanir undanfarin ár eftir að hafa glímt við mikinn kvíða og félagsfælni frá unga aldri.
„Þegar ég byrjaði í fyrsta bekk þá leið mér strax illa. Ég var hræddur við allt, hræddur við dýr og hræddur bara við mannfólkið,“ sagði Eymundur í Ísland í dag. Hann rekur erfiða æsku sem einkenndist af miklum ótta og minnimáttarkennd. Hann byrjaði að finna fyrir vanlíðan strax við upphaf skólagöngunnar og við 12 ára aldur var kvíðinn og fælnin farin að há honum mikið. „Þá fer þetta að hafa virkileg áhrif á mig.“
„Ég roðnaði og klökknaði í tíma og ótíma. Sjálfsmyndin var engin, sjálfstraustið ekkert, sjálfsvirðingin engin. Ég fór ekki í félagsmiðstöðvar. Tók ekki þátt í neinu með bekkjarfélögunum. Það eina sem hélt mér gangandi voru íþróttir vegna þess að ég var sæmilegur í þeim. Þar fékk ég útrásina, þó mér hafi liðið illa þar og svona eru mín ár í grunnskóla,“
Eymundur náði samt að klára grunnskólann en treysti sér ekki strax í framhaldsskóla. Ári síðar, þegar æskuvinur hans var að hefja framhaldsskólagöngu, ákvað Eymundur að fara líka en entist aðeins í tvo mánuði. Hann fór þá að vinna og í vinnunni fór hann hvorki í kaffitíma né mat með vinnufélögunum heldur keyrði frekar heim til sín og borðaði þar einn.
Hann treysti sér lítið til að stunda félagslífið, ekki nema hann gæti drukkið í sig kjark með áfengi. „Ég fór aldrei í bíó. Ég fór aldrei í bæinn. Ég fór aldrei á rúntinn með félögunum. Ég var bara með afsakanir vegna þess að þegar maður er með svona mikla félagsfælni þá þorir maður ekki að segja frá því hvernig manni líður og hvernig á maður að segja frá því sem maður veit ekki hvað er?“ Svona liðu árin og Eymundur notaði áfengi til að geta stundað félagslíf, oft þurfti hann jafnvel að drekka áður en hann hitti félaganna. Kvíðinn og félagsfælnin hafði svo mikil áhrif á líf hans að hann hefur aldrei verið í föstu sambandi, því hann hefur aldrei treyst sér til þess.
„Ég var bara hræddur við að allir myndu sjá að ég roðnaði og klökknaði. Myndu bara hlæja af mér, hvaða ræfill ég væri og skamma mig og eitthvað svona. Þetta var ég svo hræddur um. Ég hélt að allir myndu gera þetta. Þetta voru mínar hugmyndir. Þegar maður hefur ekki sjálfsmynd og hefur ekki sjálfstraust og sér að allir aðrir eru að takast á við lífið, geta farið í bíó og svona, þá finnst manni eitthvað skrítið. En samt þorði ég ekki að tala um þetta.“
Þrátt fyrir að hafa aldrei verið í sambandi á Eymundur þó 25 ára gamlan son. Þó hann hafi viljað taka þátt í lífinu með syni sínum, þá hafði hann ekki sjálfstraustið til þess. Sonur hans var tekinn lítill í fóstur og ólst upp hjá fósturfjölskyldu.
„Ég gat þetta ekki. Þetta er eitt af því sem var rænt af mér. En ég er þakklátur fyrir það líf sem hann hefur fengið.“
Eymundur var 38 ára gamall þegar hann gerði sér grein fyrir að hann hefði alla tíð þjáðst af kvíða og félagsfælni. „Það er þetta sem skiptir svo miklu máli, að maður viti hvað maður er að glíma við, til þess að maður geti tekist á við það.“
Þá gat Eymundur loks farið í þá sjálfsvinnu sem hann þurfti á að halda og í kjölfarið treysti hann sér loksins í að koma á samskiptum við son sinn. Sonur hans var þá 14 ára gamall. Eymundur sendi syni sínum bréf og fékk í kjölfarið leyfi fósturfjölskyldunnar til að koma og hitta soninn.
„Ég var búinn að ná sambandi og langaði að halda áfram.“
Eymundur og sonur hans náðu strax vel saman, töluðu saman á fyrsta fundi í þrjá klukkutíma og hafa haldið sambandi allar götur síðar. „Hann bara tók mér bara eins og við hefðu sést í gær. Mér finnst það svo magnað. Við höfum átt gott samband. Fórum út saman 2010 til Manchester og fórum á leik saman,“ en feðgarnir eru báðir dyggir aðdáendur fótboltaliðsins Manchester United.
„Ég sá að ég þurfti ekkert að skammast mín fyrir þetta, ekkert frekar en ég væri með sykursýki. Ég sá að ég gat fengið hjálp, en til að fá hjálpina þurfti ég að vera opinn fyrir henni og frá 2005 hef ég verið opinn fyrir því, þess vegna gat ég hitt strákinn 2008, þess vegna gat ég farið út með stráknum 2010 og er búinn með tvo skóla og hef verið að fræða mikið úti í samfélaginu.“
Í viðtali DV við Eymund í ágúst síðast liðnum kom fram að Eymundur hefur í dag útskrifast sem félagsliði og ráðgjafi úr Ráðgjafaskóla Íslands. Hann stofnaði í félagi við aðra geðverndarmiðstöðina Grófina á Akureyri árið 2013 og hefur unnið mikið í forvörnum. Eymundur er gott dæmi um hversu hamlandi félagsfælni getur verið á líf þeirra sem við hana glíma og hversu miklum árangri er hægt að ná ef menn eru tilbúnir að nýta sér þá hjálp sem býðst. Félagsfælni er þriðja algengasta geðröskunin á eftir þunglyndi og alkóhólisma. Rétt er að ljúka þessari umfjöllun á orðum Eymundar úr fyrrnefndu viðtali DV:
„Manneskjan ég er sú sama þótt gríman hafi verið tekin. Ég hafði tækifæri á að byggja mig upp og öðlast sjálfstraust og sjálfsvirðingu. Ég þurfti að vinna fyrir því að taka niður grímuna og nýta mér hjálpina með opnum huga. Í dag eru komin 13 ár síðan og mikil vinna að baki sem hefur skilað sér að ég á mér líf í dag og hef útskrifast sem félagsliði og ráðgjafi úr Ráðgjafaskóla Íslands. Ég hef unnið mikið í forvörnum og geri mitt besta til að hjálpa ungu sem eldra fólki. En maður þarf að vinna vinnuna sjálfur og þá getur verið gott að vita hvað er að og hvaða hjálp getur verið hægt að nýta. Ef fólk vill fræðast meira um þá hjálp sem ég hef fengið er ykkur velkomið að hafa samband og aldrei að vita nema þú getir fengið hjálp eða hjálpað öðrum að eignast betri lífsgæði sem þátttakandi í lífinu. Þetta er hörkuvinna en er þess virði til að losna úr eigin fangelsi og hugsunum út í frelsið.“