Þann 16. mars næskomandi mætir Gunnar Nelson hinum 27 ára Leon Edwards á leikvanginum The O2 í London, en bardaginn sem um ræðir þykir gríðarlega mikilvægur fyrir okkar mann.
Einvígi þeirra Gunnars og Edwards verður næstsíðasti UFC-bardaginn á þessu umrædda kvöldi og þykir ljóst að Gunnar muni þurfa að hafa mikið fyrir því ef hann ætlar að sigra vinna þennan merka mótherja.
Edwards hefur unnið átta af tíu bardögum sínum í UFC síðan að hann steig fyrst í UFC-búrið árið 2014 en hann er búinn að vinna sex í röð.
Til að gefa lesendum dæmi um mótherjann er upplagt að renna bratt fyrir feril og prófíl Edwards.
Leon Edwards hóf ferilinn sinn árið 2010 og hefur haldið góðri siglingu á liðnum árum. Í sínum fyrsta bardaga í UFC mætti hann Brasilíumanninum Claudio Silva í Brasilíu. Bardaginn þótti afar jafn en svo fór að Silva vann eftir dómaraákvörðun. Áhorfendur urðu margir æfir og töldu ýmsir að Edwards hafi tvímælalaust átt að þennan sigur en niðurstöðunni var ekki breytt.
Nokkru seinna stimplaði Edwards sig verulega inn í heim UFC með því að rota fagmanninn Seth Baczynski og þá á aðeins átta sekúndum. Þarna var fyrsti sigur ferilsins kominn í höfn.
Leon er fæddur í Kingston í Jamaíku en flutti ungur til Birmingham á Englandi þar sem hann ólst upp. Á unglingsárunum hlaut hann viðurnefnið „Rocky“ vegna uslans sem hann átti til að skapa í kringum sig. Leon var mikið í götuslagsmálum á þessum aldri og festist nafnið við hann í kjölfar árása og uppþota.
Á sautján ára aldrinum var Leon orðinn þreyttur á hasarnum í kringum sig og langaði til að læra almennilega sjálfsvörn. Þá fór hann að æfa MMA og kolféll fyrir íþróttinni. Hann var rétt orðinn tvítugur þegar hann tók sinn fyrsta atvinnubardaga og varð veltivigtarmeistari BAMMA með sigri gegn Wayne Murrie, en það er hinn sami maður og Árni Ísaksson rotaði tveimur árum áður þegar Árni varð að svonefndum Cage Contender meistara.
Edwards er þekktur fyrir að vera lengi vel ósáttur við andstæðingana sína. Hann var opinberlega svekktur þegar hann fékk til dæmis Peter Sobotta í London í fyrra og talaði um að vilja stærri nöfn. Edwards sigraði Sobotta látlaust og kláraði bardagann þegar ein sekúnda var eftir.
Margir miðlar hafa lýst Edwards sem hrokafullum. Í viðtali við fréttaveituna MMA Fighting viðurkenndi bardagakappinn Donald „Cowboy“ Cerrone að Leon væri sýndi merki um byrjendamistök, að hann liti fullstórt á sig miðað við fullyrðingar og loforð um sigur á undan keppnum.
„Hann er ferlega montinn, þessi andskoti,“ segir Cerrone. „Mér líst ekkert sérstaklega á hann. Hann verður svo uppstökkur og hefur ekkert haft nema ruddalega hluti að segja í aðdraganda keppna.“
Skemmst er að segja frá því að Edwards vann gegn Cerrone í bardaganum sem átti sér stað í júní 2018. Eftir keppnina leiðrétti Edwards misskilninginn á meðal fjölmiðla varðandi ágreining þessara kappa og sagðist ekki hafa meint neitt illt í garð Cerrone. Eftir sigurinn sparaði hann ekki fögru orðin og kallaði mótherja sinn „goðsögn.“
Edwards er einni ofar Gunnari Nelson á styrkleikalistanum, númer tíu. Síðast sigraði Gunnar Brasilíumanninn Alex Oliveira í desember í blóðugum bardaga. Eftir þann slag lýsti Gunnar yfir áhuga á því að berjast við Edwards og er öruggt að segja að sérfræðingar séu ólmir að sjá hvernig slagurinn fer.
Aðalbardagi kvöldsins þann 16. mars verður síðan á milli þeirra Darren Till og Jorge Masvidal, en þess má geta að Edwards hefur lengi langað að mæta Masvidal í hringnum persónulega.