Sölvi Tryggvason fjölmiðlamaður var svo illa haldinn af kvíða að hann leitaði til læknis og óskaði eftir að komast í krabbameinsrannsókn eftir að hafa talað um krabbamein við Davíð Oddsson, þáverandi Seðlabankastjóra. Frá þessu greindi Sölvi þegar hann var gestur í hlaðvarpi Snorra Björns. Þar ræddi Sölvi meðal annars um kvíðann sem hann hefur glímt við. Tilefni viðtalsins var að nýverið gaf Sölvi út bókina Á eigin skinni – Betri heilsa og innihaldsríkara líf. Bókin sem fór strax í efsta sæti á metsölulistum fjallar um leið Sölva til heilsu á ný, þær fjölbreytilegu tilraunir sem hann gerði á eigin skinni og niðurstöðurnar sem hann komst að.
„Mér er boðið í Seðlabankann skömmu eftir að ég hætti á Stöð 2 og fer í hádegismat með Davíð Oddssyni. Svo hringir síminn eftir 10 mínútur og kona kemur inn og segir Davíð að hann verði að taka símann. Hann tekur símann og ég heyri að þetta er eitthvað alvarlegt. Þá er verið að tilkynna honum að Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, hafi verið að greinast með krabbamein,“ segir Sölvi, en í janúar 2009 kom í ljós að Geir væri með illkynja æli í vélind. Sölvi bætir við:
„Davíð hafði líka verið með krabbamein. Svo sest Davíð aftur niður, við tölum um hvernig krabbamein Geir er með og hann fer að segja mér frá sínu krabbameini. Ég labba út. Það fyrsta sem ég hugsaði var að ég væri kominn með krabbamein.“
Eftir það fór hann í krabbameinsrannsóknir, enn í ljós kom að ekkert krabbamein var til staðar.