Guðmundur Ingi Þorvaldsson leikari leikur í auglýsingum BI Norwegian Busines School, en í þeim eru farnar óhefðbundnar leiðir til að fá fólk í viðskiptafræðinám skólans.
Guðmundur Ingi hefur áður leikið í auglýsingum fyrir skólann, en árið 2017 var þema þeirra „Winter is Coming“ eða Veturinn nálgast, frasi sem aðdáendur sjónvarpsþáttanna Game of Thrones kannast vel við. Hlutverkið fékk hann í gegnum umboðsmann sinn í London, og greinilega var ánægja með samstarfið fyrst að hann endurtekur leikinn.
Auglýsingarnar eru nokkrar og í sumum þeirra er Guðmundur Ingi með barn sér til halds og trausts.
Í viðtali við Mbl vegna auglýsinganna árið 2017 sagði Guðmundur að leikstjóri auglýsinganna væri mjög hrifinn af Íslandi og hann hefði margoft komið hingað til lands. Viðtökurnar auglýsinganna þá hefðu farið fram úr björtustu vonum allra og vakið athygli um allan heim.