Um helgina hefur íslenska landsliðið leik á Heimsmeistaramótinu í handbolta sem fram fer í Danmörku og Þýskalandi. Íslendingar senda ungt landslið til leiks og því má búast við að stjörnur framtíðarinnar stígi sín fyrstu skref á mótinu. Meðal þeirra eru frændurnir og skytturnar Teitur Örn Einarsson og Haukur Þrastarson. Teitur Örn er tvítugur að aldri en Haukur aðeins sautján ára. Teitur Örn og Haukur eru synir systkinanna Þrastar og Þuríðar Ingvarsbarna og því má búast við að Selfoss og nágrenni nötri þegar HM hefst.